02 janúar, 2012

Matreiðslubók mánaðarins: Unga fólkið og eldhússtörfin

Þessi er örugglega til á mörgum íslenskum heimilum:

Nýja
Unga fólkið og eldhússtörfin eftir Vilborgu Björnsdóttur og Þorgerði Þorgeirsdóttur. Hún kom fyrst út árið 1967, þá undir titlinum Unga stúlkan og eldhússtörfin, en með tilkomu feminisma og matreiðslukennslu fyrir stráka breyttist titillinn til jafnréttisvegar.

Þessi bók var notuð til kennslu í heimilisfræðum í mörgum skólum um árabil, enda fjallar hún ekki bara um matargerð heldur líka um heimilishald, t.d. þvotta og hreingerningar.

Þetta er fyrsta matreiðslubókin sem ég eignaðist, en langt frá því að vera sú elsta í safninu. 

 
Gamla

Ég á reyndar líka eintak af þeirri gömlu, og nota hana, því að mamma heldur þeirri nýju í gíslingu og neitar að skila henni, enda notar hún hana mikið.

Uppskriftirnar í henni eru til þess gerðar að kenna krökkum undirstöðu í matargerð, og því eru kaflar um steikingu, suðu, bakstur með mismunandi tegundum deigs, og svo framvegis. Þetta eru einfaldar og góðar uppskriftir að heimilismat sem eru auðveldar í notkun og því er þetta tilvalin bók fyrir þá sem eru að hefja heimilishald. Það er nefnilega ekki hægt að stóla á að maður geti hvar sem er fundið leiðbeiningar um það hvernig á að búa til kartöflumús eða lummur, hvað þá hvernig eigi að strauja skyrtur eða leggja á borð fyrir fimm rétta máltíðir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.