23 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Pottréttur

Þessi pottréttur, sem ætti skilið að heita eitthvað meira en bara „pottréttur“ var vinsæll á heimilinu þegar ég var unglingur.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4

Efni:
400 g beinlaust nautakjöt eða hvalkjöt (mamma notaði reyndar oftast annað hvort lamba- eða folaldakjöt, sem eru bæði mjög góð í þennan rétt)
1 stór eða 2 litlir laukar
50 g smjör/smjörlíki eða 3 msk matarolía
1 hvítlauksrif
1 paprika, rauð eða græn
3 dl vatn
1/2 dl tómatsósa
1 tsk salt
1 dl sýrður rjómi

Aðferð:
Hreinsið kjötið vel og þerrið. Skerið í munnbita. Flysjið laukinn og fínsaxið ásamt hvítlauknum. Kjarnhreinsið paprikuna og skerið hana í þunnar sneiðar.

Hitið feitina á pönnu og brúnið kjötið og setjið það í pott. Brúnið laukinn og setjið ofan á kjötið og hellið vatninu yfir ásamt tómatsósu, salti, rjóma og paprikusneiðunum. Sjóðið undir loki við lágan hita í 40-50 mínútur.

Tillaga að meðlæti: soðin hrísgrjón, maísbaunir og snittubrauð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.