19 ágúst, 2012

Armenskir lambaskankar (Kzartma)


Lambaskankar þurfa helst langa, hæga matreiðslu til að þeir verði ekki seigir og það þarf af halda að þeim raka á meðan þeir eldast til að þeir verði ekki þurrir. Því er hæg steiking í sósu fyrirtaksaðferð til að elda þá.

Sósan er bragðmikil, með keimi af tómötum og papriku, og minnir svolítið á gúllassósu.

Matreiðslubók: The Diner's Club Cookbook

Fyrir: 6.


Efni:
6 lambaskankar af læri
3/4 bolli saxaður laukur (ca. 3/4 meðalstór laukur)
2 msk. smjör
2 tsk. salt (ég minnkaði saltið niður úr 1 msk. (= 3 tsk.) í 2 tsk., en ef það þarf meira er hægt að hafa salt á borðinu svo að hver og einn geti saltað fyrir sig)
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
1/8 tsk. þurrkað óreganó
2 msk. paprikuduft
3 hvítlauksrif, fínsöxuð
1 bolli + 2 msk. maukaðir tómatar + 1 tsk. sykur til að taka af beiskjubragðið
1/2 bolli nautasoð
1/2 bolli þurrt sherrí eða Marsala-vín


Aðferð:
Látið skankana liggja i köldu vatni í um 30 mín. Hellið vatninu af, þerrið og fituhreinsið. Raðið í grunnt ofnfast mót (t.d. pyrex-fat, nú eða Römertopf eins og ég gerði, en þá þarf að gæta að brúnunartímanum sem getur styst), eða í djúpa pönnu eða grunnan pott með handfangi sem þolir hitun í ofni.

Snöggsteikið laukinn í smjörinu þar til hann er glær. Bætið þá restinni af innihaldsefnunum saman við og blandið lauslega. Hellið yfir kjötið. Setjið lokið á og bakið við 175°C í 90 mín. Ausið soðinu af og til yfir kjötið. Takið lokið af og bakið áfram við 125°C þar til kjötið brúnast og er orðið meyrt (um 45 mín.). Ausið soðinu oft yfir á meðan. Berið fram með hrísgrjónum eða búlgúr-hveiti.


Athugasemdir:
  • Það er hægt að elda þessa uppskrift í potti á eldavélinni, og jafnvel stytta eldunartímann aðeins með því að skera skankana í bita strax. En eldið þó beinin með, því þau gefa svo gott bragð.
  • Líka er gott að bera fram með þessu brauð, t.d. naan eða bagettu.
  • Líka hægt að bera fram með kús-kús.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.