11 mars, 2013

Heitt nacho-salat



Smellið til að stækka myndina
Þessi réttur er fínn til að nota upp afgang af krydduðu hakki, sérstaklega Mexíkó-krydduðu, s.s. fyrir tacos eða burritos.

Réttinn má líka gera frá grunni. Þá er byrjað á að steikja og krydda hakkið eftir kúnstarinnar reglum, hvort sem er með aðskyldum kryddum eða með tilbúinni kryddblöndu (mér finnst Santa Maria og Casa Fiesta taco-blöndurnar báðar ágætar).

Takið nachos-flögur, helst ostakryddaðar, og myljið á milli handanna niður í botninn á smurðu lasagna-formi eða bökuformi. Mylsnan þarf ekki að vera mjög fíngerð, kannski eins og kornflex eða aðeins grófari. Dreifið úr flögunum í þunnt, jafnt lag.

Smellið til að stækka myndina
Stráið hakkinu yfir í jafnþykku lagi (best er að það sjáist í flögurnar á milli). Slettið salsa-sósu yfir hér og þar, þarf ekki að vera jafnt lag, en samt nokkuð þétt, til að það komi sósa í hverja skeiðarfylli. Ef salsan er ekki mjög kekkjótt/þykk má líka setja hana í sprautuflösku og sprauta jafnt yfir. Stráið síðan rifnum osti yfir allt saman, t.d. gratínostablöndu, Mexíkóosti, piparosti eða hvítlauksosti. Þegar myndin var tekin hafði ég uppgötvað á síðustu stundu að rifni osturinn var búinn og því muldi ég fetaost yfir réttinn, sem reyndist gott.

Hitið í ofni við um 180 °C þar til osturinn er bráðnaður og byrjaður að brúnast svolítið (10-15 mínútur).

Berið fram með sýrðum rjóma og söxuðum tómötum og etv. guacamole.

Ekki er verra að drekka ískaldan Corona-bjór með.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.