16 júní, 2013

Heitir og sætir beikonvafðir kjúklingabitar

Smellið á myndina til að stækka hana
Ég smakkaði eitthvað svipað og þennan rétt í samkvæmi fyrir nokkru síðan en gleymdi að biðja um uppskrift. Það reyndist aftur á móti ekki erfitt að finna út úr uppskriftinni. Það eina sem ég breytti var að ég nota langtum minni chili-pipar en var í réttinum eins og ég smakkaði hann fyrst. (Ekki að mér þyki chili ekki gott eða þoli það ekki, mér finnst bara oftast betra að finna meira bragð af matnum en bara chili-bruna).

Þetta er flottur smáréttur til að bera fram t.d. í Júróvisjón-partýum eða saumaklúbbum, eða bara í sunnudagsmatinn þegar mann langar í eitthvað gott en nennir ekki að vera að hafa mikið fyrir matnum.

Þessi uppskrift dugir í aðalrétt fyrir einn eða sem forréttur fyrir 3 til 4.

1 kjúklingabringa
1 lítið bréf beikon
ca. 0,8 dl púðursykur (hellið honum í dl-málið og leyfið honum að síga niður í það undan eigin þunga. Ekki þjappa.)
1/4 tsk cayenne-piparduft (meira eða minna eftir smekk)
1/2 tsk salt
tannstönglar

Smellið á myndina til að stækka hana
Þerrið kjúklingabringuna og skerið niður í ca. 2 cm teninga. Teljið bitana og takið helmingi færri beikonsneiðar en kjúklingabita og skiptið í tvennt. Vefjið einni beikonræmu utan um hvern kjúklingabita og stingið tannstöngli í gegnum bitann til að halda beikoninu á sínum stað.

Blandið saman púðursykrinum, cayenne-piparnum og saltinu. Veltið kjúklinga-beikonbögglunum upp úr blöndunni (það gæti þurft að hjápla blöndunni til að loða við - bara þrýsta létt með puttunum) og raðið þeim á smurðan ofnrekka yfir smurðu ofnfati (t.d. lasagna-fati). Ef einhver sykurblanda er eftir er gott að strá henni jafnt yfir bitana.

Bakið við ca. 175 °C í 30-35 mínútur. Beikonið ætti að vera orðið vel brúnað og stökkt á köntunum og sykurinn bráðnaður.


Athugasemdir:
  • Rétturinn stendur einn og óstuddur án sósu eða meðlætis. Ef hann á að vera aðalréttur mæli ég þó með að bera fram með honum tómatbáta og gott brauð (t.d. hvítlauksbrauð), og að draga tannstönglana úr bitunum áður en hann er borinn fram. 
  • Ef hann er hafður mjög sterkur er gott að bera fram sýrðan rjóma með honum til að viðkvæmari gestir geti linað sviðann í munninum.
  • Ef stækka á réttinn er rétt að bæta við ca. 1/2 dl af púðursykri fyrir hverja kjúklingabringu til viðbótar og smakka sig áfram með cayennpiparinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.