19 maí, 2013

Svínakjöt í rjómasósu

Þetta er eðal-spariréttur réttur sem ég elda af og til. Hann má líka gera með kjúklingi, t.d. lundum eða bringum.

Fyrir 2.

Efni:
  • smjör
  • 1/2 laukur, skorinn í ca 1/2 cm þykkar sneiðar
  • 1 bakki sveppir, skornir í tvennt og sneiddir í ca. 1/2 cm sneiðar
  • 2-300 g svínakjöt í bitum, ca. 2 cm þykkum (ég notaði svínalund, skorna í medallíur þegar ég tók myndirnar)
  • hveiti
  • salt og pipar
  • Aromat (má sleppa)
  • Töfrakrydd frá Kryddgöldrum
  • 1 dl vatn
  • 1 dl rjómi

Aðferð:
Blandið salti og kryddi eftir smekk saman við hveiti og veltið kjötinu upp úr því.

Bræðið klípu af smjöri á meðalheitri pönnu og steikið laukinn þar til hann er hálfglær og mjúkur. Takið af pönnunni og geymið. Bræðið væna klípu af smjöri á pönnunni og brúnið sveppina. Takið af pönnunni og geymið (má fara saman við laukinn).

Setjið hveitihjúpað kjötið á pönnuna og brúnið. Bætið við lauk, sveppum og vatni. Látið sjóða í 10-15 mín. eða þar til kjötið er meyrt en ekki orðið þurrt. Bætið við vatni eins og þarf en leyfið vökvanum að sjóða niður og þykkna undir það síðasta (ca. 5 mín.). Bætið við rjómanum og sjóðið í 2-3 mín. til að þykkna aðeins.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum eða pasta og fersku salati.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.