28 ágúst, 2016

Fylltar kjúklingabringur

Ég er búin að vera að fikra mig áfram með þessa uppskrift. Mér datt fyrst í hug að nota gráðost í hana, en þegar til kom að prófa hugmyndina átti ég hann ekki til og nennti ekki út í búð eftir honum og greip í staðinn bita af Pecorino Romano-osti. Pecorino Romano er ítalskur sauðaostur sem minnir á Parmigiano-Reggiano-ost (Parmesan), og reyndar má nota hann í staðinn fyrir Pecorino. Þetta reyndist snilldarráð og þegar ég prófaði uppskriftina svo seinna með gráðosti þá ákvað ég að hún væri betri með Pecorino en gráðostinum.

Fyrir tvo.

2 kjúklingabringur
--
8-10 döðlur, ferskar eða þurrkaðar, steinlausar, saxaðar í litla bita (það er auðveldara að saxa þær ef þær eru þurrkaðar)
2 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
6 litlar eða 4 stórar ræmur af beikoni, hverri skipt í 8 (litlar) eða 12 (stórar) bita
--
1 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
2 ræmur af beikoni, heilar (eða skipt í tvennt ef þær eru stórar)
--
kjúklingakrydd
salt og pipar
--
ca. 1 dl. hvítvín (þurrt eða hálfþurrt) EÐA vatn EÐA kjúklingasoð
--
trétannstönglar eða mjóir grillpinnar (eða sláturgarn)

Stillið ofninn á 180°C (blástursofn) eða 190°C (undir- og yfirhiti).

Takið kjúklingabringurnar og skerið inn í þær frá hlið til að búa til "vasa" í þeim miðjum. Hafið vasana eins stóra og hægt er án þess að skera í gegn og hafið gatið eins lítið og hægt er. Hérna er mynd sem sýnir tæknina. Líka er hægt að "fletja" bringurnar með buffhamri og rúlla fyllingunni innan í þær, en mér finnst það óþarfa aukavinna.

Blandið saman döðlunum, ostinum og beikoninu (þarf ekki að vera mjög vel blandað). Skiptið í tvennt og troðið varlega inn í kjúklingabringurnar. Ef eitthvað gengur af þá er því stráð í kringum bringurnar í ofnfatinu. Lokið bringunum með tannstöngli eða grillpinna, eða saumið saman með sláturgarni.

Kryddið bringurnar í bak og fyrir með salti, pipar og kjúklingakryddi og leggið í smurt ofnfast fat. Stráið yfir þær rifnum osti og leggið beikonræmur yfir.

Stingið inn í ofninn og bakið í 40 mínútur. Mjög þykkar bringur gætu þurft 5 mínútur til viðbótar.

Berið fram með hrísgrjónum eða kúskús, og fersku salati. Gott að drekka hvítvín með.

Tilbrigði:
  • virkar líka vel með skinku í stað beikons...
  • ...eða þurrkuðum apríkósum í stað daðlna
  • prófið aðra osta, t.d. ætla ég næst að prófa feta


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.