Efni í súkkulaðiköku:
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
2-3 msk kakóduft (eða meira, eftir smekk)
2 tsk lyftiduft
2 egg
1 til 1,5 bolli mjólk (eftir þörf)
150 g smjörlíki, brætt
1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Þurrefnunum blandað saman og eggjunum og 1 bolla af mjólk hellt saman við. Smjörlíkinu hellt saman við um leið og hrærivélin er sett af stað. Hrært vel saman - ég mæli með að nota þeytarann en ekki hrærarann til að fá léttara deig. Mjólk bætt við ef þarf. Soppan á að vera tiltölulega þykk en nógu þunn til að renna samfellt úr skálinni. Hellt í ofnskúffu.
Bakað við 175 °C (160 °C í blástursofni) í 20-30 mínútur. Kælt og kakóglassúr jafnað yfir. (Ég nota aldrei uppskrift þegar ég geri glassúr, en þessi hljómar vel). Ef það á að setja nammi á kökuna, t.d. Smarties, er best að bíða þar til efsta yfirborð glassúrsins er orðið þurrt og raða þá namminu ofan á.
Tilbrigði:
- Hvít kaka: Sleppið kakóinu og setjið 1,5 tsk af vanilludropum saman við deigið. Notið kakóglassúr.
- Sítrónukaka: Sleppið kakóinu og vanilludropunum og setjið 2 tsk af sítrónudropum út í deigið. Búið til hvítan glassúr, bætið nokkrum dropum af gulum matarlit saman við og ca. 1/2 tsk af sítrónudropum eða 1 msk af sítrónusafa.
- Kanilkaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en kanilsykri stráð yfir soppuna áður en hún fer í ofninn. Til að gera kanilsykur: Blandið saman ca 1 dl af strásykri og 1 tsk af kanildufti og hrærið vel.
- Eplakaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en eplasneiðum raðað ofan á soppuna og kanilsykri stráð yfir áður en hún fer í ofninn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.