25 júlí, 2011

Hakk og kartöflur í karríi (Keema Alu Kari)

Þetta er milt karrí, en auðvitað má gera það sterkara með því að auka chili-skammtinn. Nota má hvort sem er nautahakk eða kinda-/lambahakk.

Keema er Hindi/Urdu yfir hakkað kjöt, og alu (oftast nær skrifað aloo) eru kartöflur. Kari er karrí.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook

Fyrir: 4-6.

Efni:
3 msk. matarolía eða ghee (skírt smjör)
2 meðalstórir laukar, fínsaxaðir
1 tsk. fínsaxaður hvítlaukur
1 tsk. fínt rifinn ferskur engifer
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
2 tsk. kóríander, malaður
1 tsk. cummin, malað
1/2 tsk. chilli-duft (má sleppa)
2 tsk. salt
2 msk. sítrónusafi eða edik
500 gr. lamba- eða nautahakk
500 gr. kartöflur, skrældar og skornar í fernt
1 bolli heitt vatn
1 tsk. garam masala kryddblanda

Til skrauts:
2 msk. söxuð fersk mynta eða kóríanderlauf (chilantro)

Aðferð:
Hitið olíu eða ghee á djúpri þykkbotna pönnu og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferinn þar til mjúkt og ljósgullið á lit.

Bætið við kúrkúmu, kóríander, cummin, chilli-dufti (ef notað) og steikið í 1 mín. og hrærið stöðugt í á meðan.

Bætið við saltinu og sítrónusafanum/edikinu og þegar blandað byrjar að snarka á pönnunni er kjötinu bætt við og það steikt og hrært stöðugt í á meðan, þar til allt hakkið er brúnað og það er kekkjalaust.

Bætið þá við kartöflunum og heita vatninu, látið suðuna koma upp, lækkið hitann og setjið lokið á pönnuna og látið malla í um 30 mín. eða þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar og kjötið meyrt.
Hrærið í af og til undir lokin á eldunartímanum til að tryggja að karríið brenni ekki við.

Stráið garam masala yfir, hrærið létt saman við og berið fram skreytt með myntu eða kóríanderlaufum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.