20 nóvember, 2011

Moussaka – Grískur ofnréttur

Þessa uppskrift fann ég í bresku kvennatímariti fyrir um 20 árum síðan, en ég hef breytt og aðlagað uppskriftina að mínum smekk og bragðlaukum. Þó að rétturinn sé kenndur við Grikkland, þá er hann líka útbreiddur í ýmsum birtingarmyndum í löndunum þar í kring og í Austurlöndum nær. Nafnið á réttinum er t.d. arabískt.

Fyrir 4.


  • 1 stórt eggaldin (ca. 300 gr.)
  • Ca. 225 gr. kartöflur
  • Ef ekki er til eggaldin má í staðinn nota um 500 gr. af kartöflum
  • 350 gr. hakkað lamba- eða kindakjöt, létt-brúnað á pönnu; nota má nautakjöt en lambakjöt er betra
  • 6 msk. ólífuolía (EKKI græn!)
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 225 gr. vel þroskaðir tímatar, skrældir og fræhreinsaðir EÐA 1 dós af söxuðum niðursoðnum tómötum
  • 1 msk. tómatpúre
  • 4 msk. lamba- eða grænmetissoð (má nota vatn, ég finn a.m.k. engan mun...)
  • 1 msk. fersk steinselja, söxuð (má sleppa)
  • salt og malaður svartur pipar eftir smekk
  • ólífuolía eftir þörfum
  • klípa af kanil (má sleppa)

Ofan á:
100 gr. parmesan-ostur, rifinn
2 egg
3 dl. grísk jógúrt eða hreint, ósykrað skyr

Aðferð:
Skerið endana af eggaldininu og skerið það í ca. 5 mm. þykkar sneiðar. Stráið salti á sneiðarnar og raðið í sigti og látið renna af þeim í um 30 mín. [Ég hef sleppt þessu og finn engan mun á bragðinu. Þetta er gert til að fjarlægja beiskleika, en nútíma-eggaldin hafa verið kynbætt til að fjarlægja beiskjubragðið]. Skolið úr köldu vatni og þerrið.

Skrælið kartöflurnar og skerið í jafnþykkar sneiðar og eggaldinið.

Hitið 1-2 msk. af ólífuolíu á pönnu og brúnið hakkið. Takið af pönnunni.

Hitið ofninn í 190 °C á meðan kjötsósan er búin til:
Hitið ca. 2 msk. af ólífuolíu á pönnu og steikið eggaldinsneiðarnar í 3-4 mín. á hvorri hlið, eða þar til þær eru mjúkar (virka hálf-glærar að sjá). Bætið við olíu ef þarf, því eggaldinið sýgur olíuna hressilega í sig. Takið af pönnunni og látið olíuna renna af á eldhúspappír.

Setjið þunnt lag af olíu á pönnuna, ef þarf, og steikið kartöflurnar í 2-3 mín. á hvorri hlið. Takið af pönnunni og látið olíuna renna af á eldhúspappír.

Setjið nú lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið við lágan hita í um 5 mín. eða þar til laukurinn er mjúkur. Takið pönnuna af hitanum og setjið hakkið á hana. Blandið vel saman og bætið því næst við tómötunum, tómatpúrrunni, soðinu og steinseljunni (ef hún er notuð). Blandið vel og smakkið til með salti, pipar og kanil (ef hann er notaður).

Raðið eggaldinsneiðunum (eða helmingnum af kartöflunum ef bara eru notaðar kartöflur) í botninn á ofnföstu formi (t.d. lasagna-formi) sem tekur a.m.k. 1200 ml. Hellið helmingnum af kjötsósunni yfir og jafnið út. Raðið kartöflusneiðunum yfir og jafnið afganginum af kjötsósunni þar yfir.

Hrærið saman grískri jógúrt, eggjum og parmesan-osti, bætið við klípu af salti og jafnið yfir kjötsósuna. Bakið í um 35 mín., eða þar til sósan bullsýður og efsta lagið er orðið gullinbrúnt.

Það er gott að strá rifnum osti, t.d. Gouda, yfir til að fá meira ostbragð.

Berið fram með góðu brauði og grísku salati.

Þennan rétt má frysta.

Einfalt grískt salat:
Skerið ferska tómata og gúrku í gróf stykki og setjið í skál. Bætið við þunnum sneiðum af rauðlauk ásamt svörtum ólífum og feta-osti. Malið svartan pipar yfir og stráið yfir smá salti. Hellið loks smá ólífuolíu út á og hrærið öllu saman. Ef notaður er kryddaður feta-ostur er gott að nota olíu af honum. Kælið í 10-15 mín. áður en borið er fram.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.