13 nóvember, 2011

Grillaðar kjúklingabringur að hætti Thailendinga

Þetta er fersk, meðalsterk marineringarsósa fyrir kjúkling:

Fyrir: 4

Efni:
4 ferskir rauðir chili-pipar, sneiddir, stöngull og fræ fjarlægð
2 hvítlauksrif, söxuð
5 skalott-laukar, þunnt sneiddir
2 tsk. mulinn pálmasykur (palm sugar, má nota jaggery í staðinn)
1,5 dl kókosrjómi (coconut cream – ekki það sama og cream of coconut!)
2 tsk. fisksósa (fish sauce)
1 msk. tamarind-vatn (sjá uppskrift fyrir neðan)
4 kjúklingabringur, beinlausar og skinnflettar

Aðferð:
Maukið chili-piparinn, hvítlaukinn og skalott-laukinn saman í mortéli eða matvinnsluvél. Bætið við pálmasykrinum, kókosrjómanum, fisksósunni og tamarind-vatninu.

Skerið 4 grunna skurði í hverja kjúklingabringu með beittum hníf. Setjið bringurnar í grunna skál og hellið sósunni yfir þær. Snúið við í sósunni svo að hún þekji kjötið alveg. Setjið lok á skálina og látið standa í um klukkustund (ef marinera á lengur, látið þá skálina í kæli).

Hitið grillið í ofninum. Setjið kjúklingabringurnar á álþynnu og setjið undir grillið í um 4 mín., snúið við og grillið í aðrar 4 mín. og burstið af og til með sósunni. Athugið að það getur þurft lengri tíma – þegar ég prófaði þetta með dæmigerðum íslenskum kjúklingabringum þurfti um 7 mín. á hvorri hlið til að gegngrilla kjötið. Ef grillað er á gasgrilli ef álpappírnum sleppt.

Stráið yfir ferskum söxuðum basilikulaufum eða laufkórínader (cílantró) og berið fram með hrísgrjónum.

Tamarind-vatn:
Hellið 60 ml. Af sjóðandi vatni yfir 5 gr. af tamarind-mauki (selt í þéttum kökum). Látið standa í nokkrar mínútur, plokkið þá maukið í sundur með skeið og hrærið vel. Látið standa í um 30 mín. Hellið vökvanum í gegnum sigti og þrýstið eins miklu af maukinu ú gegn og hægt er. Hendið því mauki og fræjum sem eftir verða í sigtinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.