18 desember, 2011

Amerískt hnúðseljusalat


Hnúðselja er einnig nefnd hnúðsilja, hnúðsilla eða sellerírót (enskt heiti er celeriac). Þetta er fyrirhafnarmeira og (finnst mér) bragðbetra afbrigði af hinu fræga Waldorf-salati.

Bragðið er milt og salatið er ekki eins stökkt undir tönn og Waldorf-salat, en það er vel fyrirhafnarinnar virði að prófa það. Sérlega gott með skinku og öðru svínakjöti, en líka með hangikjöti og kalkún.

Hverning væri til dæmis að prófa þetta með jólamatnum?


Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Salatréttir 
Fyrir 4-6.


Salat:
1/2 hnúðselja (um 250 gr.)
2 epli (það er smekksatriði hvort notuð eru græn, gul eða rauð epli, en ég mæli með grænum eða gulum),
50 gr. valhnetukjarnar eða pekanhnetukjarnar

Skrælið hnúðseljuna og skerið í julienne-ræmur. Sjóðið í nokkrar mínútur í léttsöltuðu vatni. Hellið í sigti og látið vatnið renna vel af. Kælið.

Skrælið eplin og skerið í teninga, ca. 1,5 cm. á kant.

Grófsaxið hnetukjarnana, en haldið nokkrum eftir heilum til að skeyta salatið.

Blandið öllu sama.

Sósa:
1,5 dl (= 150 g) majónes
1 dl þeytirjómi
2-3 tsk. sítrónusafi

Blandið saman rjómanum, majónesinu og sítrónusafanum. Hellið yfir salatið og hrærið varlega saman. Skreytið með heilum hnetukjörnum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.