Ég prófaði þessa gömlu amerísku uppskrift í fyrsta skipti núna fyrir jólin, og sé bara eftir að hafa ekki prófað hana fyrr. Bragðið er óvenjulegt en gott og þær eru skemmtileg tilbreyting frá súkkulaðismákökum og piparkökum. Kökurnar eru ljósar, léttar og mjúkar og geymast í c.a. viku.
Athugið að með kóríander er átt við fræin, ekki laufin, sem hafa allt annað og umdeildara bragð.
Matreiðslubók: The Spice Cookbook
Gerir um 36-40 kökur.
Innihald:
1/2 bolli shortening (bökunarfeiti sem fæst í sumum matvöruverslunum, t.d. Kosti. Crisco er þekkt vörumerki)
1/2 tsk salt
1/4 tsk matarsódi
5 tsk möluð kóríanderfræ (selt sem kóríander/coriander)
_____________________________
1 bolli sykur
1 stórt egg
2 bollar sigtað bökunarhveiti (sigtið fyrst og mælið síðan)
1/2 bolli súrmjólk eða súr mjólk
Aðferð:
Þeytið saman shortening, salt, matarsóda og kóríander þar til vel blandað. Bætið sykrinum smám saman út í og blandið vel. Þeytið eggið saman við og haldið áfram að þeyta þar til blandan er samfelld. Bætið þá við hveitinu og súrmjólkinni til skiptis og blandið vel saman.
Skammtið deiginu með teskeið á létt-smurða bökunarplötu (eða klæðið hana bara með bökunarpappír). Hafið ca. 5 cm á milli deigklessanna og reynið að hafa þær kringlóttar.
Bakið við 190 °C í 15 mínútur eða þar til kökurnar eru létt brúnaðar á brúnunum. Lægri hita þarf ef notaður er blástursofn, oftast á bilinu 170-180 °C.
Kælið á vír-rekkum. Geymið í loftþéttum dósum og neytið innan viku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.