26 ágúst, 2012

Bökuð bláber undir stökkri skorpu (blueberry crisp)

Nú ættu bláberin að vera orðin þroskuð og því er tilvalið að birta gómsæta bláberjauppskrift.

Þessi uppskrift er fengin úr bandaríska matreiðslutímaritinu Saveur. Ég gerðist áskrifandi að því í byrjun árs 2008 þegar dollarinn var tiltölulega ódýr. Ég hefði gjarnan viljað halda áfram að vera áskrifandi, en þegar kom að því að endurnýja var allt breytt: bankarnir hrundir og efnahagurinn í rúst og dollarinn nálægt því tvisvar sinnum dýrari en þegar ég upphaflega keypti  áskriftina. Ég tímdi hreinlega ekki að halda áfram, en þangað til ég spring á limminu og kaupi nýja áskrift hef ég eitt ár af blöðum til að endurlesa og elda upp úr. 

Ég minnkaði uppskriftina þannig að hún er fyrir 1-2, en gef magn fyrir 6-8 í svigum.

Efni:
1 bolli (6 bollar) bláber, fersk eða frosin
40 ml (1/2 bolli) strásykur

50 ml (1 1/4 bolli) hveiti
30 ml (2/3 bolli) púðursykur
Salt á hnífsoddi (1/8 tsk)
25 gr (150 gr) smjör, kælt og skorið í litla bita (í rúmmálseiningum gerir þetta annars vegar 1 msk + 2 tsk og hins vegar 10 msk)
Rjómi

Hitið ofninn í 175 °C. Blandið varlega saman bláberjum og strásykri í skál. Setjið í hæfilega stórt bökunarfat og hristið það til að jafna út. Setjið til hliðar.

Hrærið saman hveiti, púðursykri og salti í skál. Bætið við smjörinu og saxið það saman við með tveimur hnífum eða deigskera (eða farið stystu leið og notið matvinnsluvél) þar til myndast hefur gróf mylsna sem minnir á haframjöl. Stráið í jöfnu lagi yfir bláberin.

Bakið þar til berin bullsjóða og skorpan er gullin á lit. Í upprunalegu uppskriftinni er talað um 50 mínútna bakstur fyrir heila uppskrift, en 20-30 mínútur ættu að nægja fyrir litla uppskrift. (Ég bakaði þetta í 4 litlum creme brulee-formum og það tók um 20 mínútur).

Látið kólna í ca. 10 mínútur (15 mínútur). Borðið volgt eða við stofuhita, með rjóma (óþeyttum) eða mjúkum vanilluís.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.