22 apríl, 2013

Einföld steikt hrísgrjón

Á mínu heimili er stöku sinnum aðkeyptur kínamatur á borðum (Nings er nefnilega í næsta nágrenni). Ég næ aldrei að klára nema lítið af hrísgrjónunum sem fylgja með þessum mat og hef nýtt þau í hitt og þetta, s.s. hrísgrjónalummur, hrísgrjónagraut og steikt hrísgrjón.

Þar sem kínverskum mat fylgja yfirleitt klessugrjón (e. sticky rice) sem loða saman eins og þau hafi verið soðin í lími er nánast óhjákvæmilegt að þau verði kekkjótt, sérstaklega þegar þau kólna. Þetta er alls ekki verra þegar maður ætlar að steikja þau, því þá er auðveldara að borða þau með matprjónum.

Af því að þetta er afgangaréttur ætla ég ekki að gefa nákvæm mál, bara um-það-bil mál:

  • ca. 1. bolli af köldum soðnum hrísgrjónum
  • ca. 2 msk. steikingarfita, t.d. smjör, sesamolía eða sólblómaolía. Það kemur hlutlausast bragð af þeirri síðustu og sesamolían er mest afgerandi. Ég mæli ekki með ólífuolíu. Ef stækka á uppskriftina, aukið þá olíuna um ca. 1. msk fyrir hvern bolla af hrísgrjónum.
  • salt og pipar
  • 1 egg, rauða og hvíta hrærðar vel saman, má jafnvel þeyta þær smávegis til að fá í þær lyftingu

Hitið olíuna á pönnu (gott að nota wok, en alls ekki nauðsynlegt).

Hrærið í hrísgrjónunum með gaffli til að losa þau svolítið í sundur.

Setjið grjónin á pönnuna þegar olían er heit og lækkið hitann í meðalhita. Hrærsteikið grjónin á pönnunni og ef með þarf má minnka kögglana með því að brjóta þá varlega í sundur með steikingarspaðanum. Steikið þar til öll olían er gengin upp í hrísgrjónin og þau eru heit í gegn. Kryddið. Nú er smekksatriði hvort eggið er sett saman við strax eða grjónin steikt þar til þau byrja að brúnast.

Hellið eggjahrærunni saman við grjónin og hrærsteikið áfram þar til eggjahræran húðar grjónin og er elduð í gegn (virkar þurr að sjá).

Berið fram eins og það kemur fyrir, eða ef þið viljið má sulla sojasósu út á, nú eða þá sætri chilisósu, en það er alls ekki nauðsynlegt.

Þetta er bara grunnuppskrift. Það má bæta ýmsu við hrísgrjónin, t.d. mætti gera carbonara-hrísgrjón, eða setja baunir saman við, eða saxaðan graslauk, eða bara hvað sem mann langar til.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.