14 júní, 2011

Pasta Carbonara

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook.
Fyrir 4-6. 

Hér er gómsætur, einfaldur og mjög fljótlegur réttur sem ég elda oft. Rétt nafn á réttinum er Pasta alla carbonara, sem þýðir „pasta að hætti kolagerðarmannsins“.

500 gr. beikonsneiðar, skornar í bita (á myndinni er reyndar notuð parmaskinka)
2 tsk. salt
500 gr. spaghetti, linguine, fettuchini, rigatonne eða bucatini pasta
3 egg
1/3 bolli söxuð steinselja
rifinn Parmesan- eða Pecorino Romano-ostur
nýmalaður svartur pipar


Steikið beikonið á pönnu þar til það er stökkt. Takið af pönnunni og látið fituna renna af því á eldhúspappír.

Látið suðuna koma upp á 4 lítrum af vatni í stórum potti. Saltið vatnið og setjið pastað út í. Hrærið í til að pastað festist ekki saman. Sjóðið eftir leiðbeiningunum á pakkanum, þar til það er al dente (gegnsoðið en ekki þannig að það sé í mauki).

Á meðan pastað er að eldast, þeytið eggin vel í skál sem er nógu stór undir pastað og all hitt. Eggin þurfa að vera byrjuð að freyða. Hafið beionið og steinseljuna við hendina.

Þegar pastað er soðið er því hellt í sigti og vatnið látið renna af því. Hristið til að losna við sem mest vatn.

Hellið pastanu í skálina með eggjunum og byrjið strax að hræra í því. Lyftið pastanum upp með tveimur salatskeiðum eða sleifum og látið detta niður í skálina. Endurtakið þar til öll eggjahræran húðar það vel. Eggin eiga að vera linsoðin.

Bætið við beikoninu og steinseljunni og blandið vel saman við. Malið svartan pipar yfir diskinn eftir smekk hvers og eins og þeir sem vilja geta fengið sér Parmesan eða Pecorino-ost með.

Mín uppskrift:

Út frá uppskriftinni að ofan hef ég þróað mína eigin uppskrift:

Fyrir 2.

Efni:
200 gr. beikon í sneiðum, steikt eins og sagt er fyrir um að ofan EÐA 160 gr. Parmaskinka, þunnar sneiðar skornar í ferninga og snöggsteikt þar til eldað í gegn en ekki stökkt (ca. 1 mín.). Það er notað minna af Parmaskinku en maður mundi nota af beikoni af því að hún er svo sölt og bragðmikil að það þarf ekki meira.
1/2 tsk. salt
250 gr. spaghettí eða linguine
2 lítil egg
ca. 1 1/2 msk. steinselja
Nýmalaður svartur pipar eftir smekk
rifinn Paresan eða Pecorino Romano-ostur (ef vill). Mér finnst rétturinn betri án ostsins, en það er að sjálfsögðu bara minn smekkur.

Aðferð:
Sömu leiðbeiningar og að ofan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.