Þessi uppskrift að gómsætu hrærsteiktu (e. stir-fry) svínakjöti í seigri sósu kemur úr tælensku matreiðslubókinni A Little Taste of Thailand.
Best er að nota wok-pönnu til að matreiða réttinn, en líka má nota djúpa steikarpönnu.
Fyrir 4.
Efni:
- jurtaolía til steikingar
- 3 meðalstórir shallott-laukar (helst rauðir asískir), fínsneiddir
- 6 hvítlauksrif, fínsöxuð
- 500 g svínakjöt, t.d. af hnakka eða læri (ég notaði grísalund), í þunnum sneiðum [kjötið skerst auðveldlega í þunnar sneiðar ef það er hálf-frosið]
- 1 msk ostrusósa
- 1 msk sojasósa
- 1 msk fisksósa
- 4 msk pálmasykur [hann er yfirleitt seldur í klumpum; til að hann leysist hraðar upp og auðveldara sé að mæla hann er gott að setja hann í þykkan plastpoka og berja hann með kökukefli þar til hann er orðinn laus í sér]
- 1/4 tsk malaður hvítur pipar
Aðferð:
Hellið (eða bræðið, ef notuð er jurtafeiti) ca. 4-5 cm djúpri feiti á pönnu og hitið við meðalhita. Djúpsteikið laukinn þar til hann er ljósbrúnn. Gætið þess að hann brenni ekki. Takið upp úr olíunni með fiskispaða eða gataskeið og látið renna af honum á eldhúspappír.
Hellið olíunni/feitinni af pönnunni, allri nema ca. 2 msk. Hrærsteikið hvítlaukinn þar til hann er ljósbrúnn.
Setjið kjötið á pönnuna og hrærsteikið þar til það er brúnað. Bætið þá við sósunum, sykrinum og piparnum. Eldið áfram í 5 mín. eða þar til sósan hefur þykknað og hjúpar kjötið. Það þarf að hafa góðar gætur á þessu og passa hitann því sósan getur brunnið auðveldlega út af sykrinum ef hún verður of heit.
[Ef illa gengur að fá sósuna til að þykkna og hún virðist ætla að fara að brenna er örþrifaráð að þykkja hana með Maizena-mjöli. Það hefur ekki áhrif á bragðið].
Setjið á disk og stráið steikta lauknum yfir. Gott með soðnum hrísgrjónum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.