16 október, 2016

Einhvers konar beinlausir fuglar

Þetta er tvískipt uppskrift. Annars vegar er um að ræða hefðbunfna uppskrift að beinlausum fuglum, og hins vegar er kássa sem byggist á hefðbundnu uppskriftinni, að viðbættum sveppum og lauk.

Mér finnst kássan satt að segja betri en hefðbundna uppskriftin, fyrir utan að það er minna fyrir henni haft, þó auðvitað séu kjötbögglarnir flottir á diski.

Innihald í hefðbundinni uppskrift:
1,5 kg lambakjöt, nautakjöt eða hrossakjöt
50 g smjör
salt og pipar eftir smekk
5 dl vatn
100 g beikon
30 g hveiti

Hefðbundin tilreiðsla:
Skerið kjötið í þunnar sneiðar og stráið salti og pipar yfir báðar hliðar á hverri sneið. Leggið beikonræmu ofan á hverja sneið og rúlkið þétt upp. Bindið saman með sláturgarni.

Bræðið smjörið á pönnu og brúnið kjötbögglana. Bætið vatninu út á og sjóðið þar til kjötið er gegnsoðið (ca. 15 mínútur).  Takið kjötið af pönnunni og haldið heitu. Þykkið sósuna með hveitijafningi.

Berið fram með soðnum kartöflum eða kartöflumús, rabarbarasultu og gærnum baunum, eða þá með soðnum hrísgrjónum og salati.


Auðveldari aðferð með lauk og sveppum: 

Innihald í nýju uppskriftinni:
Allt sem er í þeirri gömlu, plús:
1 stór laukur, skorinn í tvennt og sneiddur í þunnar sneiðar
500 g sveppir, skornir í sneiðar
2-3 rif ferskur hvítlaukur eða 1-2 tsk hvítlauksduft
Season-All eða svipað krydd
(Aromat, ef vill)

Skerið kjötið í gúllasbita og brúnið á pönnu. Setjið í pott með vatninu og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og látið malla.

Skerið beikonið í bita, steikið létt á pönnunni og setjið í pottinn með kjötinu.

Svissið laukinn á pönnunni þar til hann er glær og setjið í pottinn.

Mýkið sveppasneiðarnar í smjöri á pönnunni og setjið í pottinn.

Mallið þar til kjötið er meyrt og gegnsoðið. Smakkið til með kryddum og salti.

Nú er um tvennt að ræða: Annað hvort að hella soðinu frá og þykkja það með hveitijafningi (og ögn af rjóma) og bera fram með, eða þá að setja kjötið og sveppina í sósuna, eða bara sleppa því að þykkja soðið og hella öllu í skál og bera fram.

Ef meira vatn er notað er líka hægt að gera úr þessu súpu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.