Mamma mín bakar stundum þetta brauð, sem er gerlaust. Ég veit ekki hvar hún fékk uppskriftina, en hún hefur tekið breytingum í gegnum árin og er eiginlega bara mömmuuppskrift í dag.
Þetta brauð er best á meðan það er enn volgt úr ofninum, með smjöri sem fær að bráðna niður í sneiðarnar. Það er líka gott að fá sér ost og etv.smá sultu, en það er alls ekki nauðsynlegt.
Ég hef ætlað mér að prófa að baka það sykurlaust, fyrst með því að sleppa sykrinum og ef það gengur ekki, þá með erýtrítóli.
Það er hægt að fikta á ýmsa vegu í uppskriftinni, t.d. nota hveitiklíð, rúgmjöl eða haframjöl með hveitinu, og svo má líka setja t.d. hnetur og/eða rúsínur í það.
500 g hveiti eða 400 g hveiti og 100 g heilhveiti
6 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk sykur
300-350 ml mjólk eða blanda af mjólk og vatni
1 1/2 tsk salt
Mjólk eða þeytt egg til að bursta með.
Sigtið saman þurrefnin og bætið megninu af mjólkinni saman við. Hnoðið þar til deigið er slétt og samfellt og bætið við mjólk eins og þarf. Mótið í hleif og burstið hann með mjólk eða þeyttu eggi.
Setjið strax inn í ofn og bakið neðst í ofninum við 175°-200°C, í um klukkutíma.
Brauðið er með þykkri og frekar harðri skorpu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.