30 október, 2016

Franskar ostabollur (Gougères)

Ef þig langar að útbreiða hamingju og gleði, þá er tilvalið að baka þessar gómsætu ostabollur. Ég hef enn ekki hitt fyrir neinn sem ekki þóttu þær góðar, og það er ekki óalgengt að það breiðist bros um andlit fólks þegar það smakkar á þeim.

Þessar bollur eru taldar eiga uppruna sinn í Bourgogne-héraði í Frakklandi og eru sömu ættar og vatnsdeigsbollur.

Þær eru bornar fram kaldar til að hreinsa bragðlaukana við vínsmökkun, og volgar eða kaldar sem forréttur eða smáréttur. Það má setja í þær fyllingu, t.d. skinku eða sveppi, og það er gott að setja á þær sultu, en mér finnst þær bestar án þess að nokkuð sé sett á þær.

Deigið má nota til að baka bollur af ýmsum stærðum, en ef það á nota fyllingu er venjan að baka stóran hring. Ég hef líka séð stangir úr gougere-deigi og í rauninni mætti baka alls konar stykki, rétt eins og úr venjulegu vatnsdeigi.

Uppskriftin er upprunalega úr The Silver Palate Cookbook, en er aðlöguð að metrakerfinu, og ég hef bætt við athugasemdum frá mér. Uppskriftin ætti að skila 18 til 20 bollum ef það er notuð matskeið til að skammta þeim á plötuna.


Franskar ostabollur (Gougères)
Í bollurnar:
1 bolli mjólk
115 g ósaltað smjör (þetta í grænu umbúðunum)
1 tsk salt
1 bolli sigtað hveiti (Ath. sigta fyrst, mæla svo)
4 egg
1 ½ bolli rifinn ostur

Í upprunalegu uppskriftinni er talað um Parmigiano-Reggiano ost eða hann og Gruyére-ost til helminga, en ég hef notað ½ bolla af Parmigiano og ostaskorpur sem ég hef safnað í frystinn hjá mér og eru blanda af Gouda, Brauðosti, Maribo, Havarti og Óðalsosti, þannig að það er talsvert happdrætti hvaða ostur lendir í bollunum í hvert skipti.

Á bollurnar:
1 egg, hrært
1 bolli fínrifinn eða dyftur Parmigiano-Reggiano ostur, ef þess er óskað að hafa ost ofan á bollunum (mér hefur reyndar nægt 2/3 bolli)

Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Léttsmyrjið bökunarplötu (ég nota bökunarmottu úr sílikoni og þá þarf ekki að smyrja, og ekki heldur ef bökunarpappír er notaður).

Smjör, mjólk og salt sett í pott og hitað upp að suðu við meðalhita. Þegar blandan sýður er hún tekin af hellunni og hveitinu skellt út í og hrært vel saman með sleif. Síðan er potturinn settur aftur á helluna og deigið soðið og hrært stöðugt í þar til það er þykkt og samfellt og loðir ekki lengur við hliðarnar og botninn á pottinum. Þetta ætti ekki að taka meira en 2 mínútur (bókin segir 5 mínútur).

Takið pottinn af hellunni og hrærið 4 eggjum saman við, einu í senn og blandið vel saman á milli. Blandið þvínæst ostinum vel saman við. Deigið verður mjög þykkt við þetta.

Skammtið deiginu á plötuna með matskeið. Deigklessurnar ættu að vera u.þ.b. á stærð við borðtennisbolta eða golfkúlu og það er gott að hafa minnst 2 cm á milli þeirra. Deigið rennur ekki út, en það lyftir sér svolítið og bollurnar þenjast út.

Sláið fimmta eggið í sundur í skál og burstið efra borðið á bollunum með eggjahrærunni. Stráið Parmigiano-osti yfir, ef þess er óskað.

Bakið í miðjum ofni. Setjið plötuna inn og lækkið hitann í 175°C. Bakið þar til bollurnar hafa lyft sér og eru gullinbrúnar. Það ætti að taka á bilinu 15 til 25 mínútur, allt eftir ofninum. Berið fram heitar eða kaldar.

Ath! Þær eru seðjandi, en það er samt erfitt að hætta að borða þær.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.