06 maí, 2011

Kartöflueggjakaka

Hér er önnur eggjakaka, en þessi er elduð á pönnu. Þetta er mín eigin uppskrift. Dugir í máltíð fyrir einn eða létta máltíð fyrir 2 ef bætt er við t.d. brauði eða salati.

1 bökunarkartafla (ca. 200 gr.), skorin í þunnar sneiðar (helst með hýði)
2 egg
1/4 til 1/2 laukur, frekar fínt saxaður
1/2 msk. olía til steikingar
Salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
Smá Aromat (má sleppa)
Önnur krydd eða kryddjurtir sem þér finnst fara vel með kartöflum (t.d. Gott á Allt eða Eðalkrydd frá Pottgaldri)

Léttþeytið saman eggin, kryddin, saltið og laukinn.

Hitið olíuna á eggjakökupönnu eða lítilli steikarpönnu með hallandi hliðum. Steikið kartöflusneiðarnar við meðalhita þar til þær eru gegnsteiktar en ekki brúnaðar. Þegar brúnirnar á sneiðunum byrja að brúnast er eggjahrærunni hellt yfir kartöflurnar. Látið eldast í um 30 sek. og rennið þá varlega spaða undir kartöflusneiðarnar svo að eggjahræran renni undir þær. Gerið þetta frá 2-3 hliðum þannig að hræran renni alveg undir kartöflurnar. Þegar yfirborð eggjahrærunnar er hætt að renna til þegar pönnunni er hallað er eggjakökunni rennt varlega yfir á disk. Ef þú vilt hafa eggjakökur létteldaðar er hún borin þannig fram.

Ef óskað er eftir meiri eldun er olíu sem kann að vera á pönnunni hellt af henni og henni hvolft yfir eggjakökuna og öllu saman svo snúið við þannig að eggjakakan lendir á hvolfi í pönnunni, og eldað áfram í 1-2 mín. Ef pannan er með málmhandfangi má einnig skella henni inn í 160 °C heitan ofn og klára eggjakökuna í ofninum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.