01 maí, 2011

Óumflýjanlegur inngangur og kynning á bloggi og bloggara

Sæl og velkomin á enn eitt bloggið (með uppskriftum). Hver bloggar og um hvað skal fjalla?

Kallið mig bara Matgæðinginn. Ég er áhugamanneskja um matargerð sem á vaxandi safn uppskrifta - sem stendur í kringum 170 matreiðslubækur, kassa af matreiðslutímaritum, fjórar möppur og tvo skókassa fulla af bæklingum og úrklippum með uppskriftum, auk ótaldra megabæta af uppskriftum sem eru vistaðar á heimilistölvunni.

Dag einn stóð ég fyrir framan bókaskápinn sem hýsir bækurnar og var að velta fyrir mér hvar væri best að byrja leitina að tiltekinni uppskrift, þegar upp í huga minn skaut þessari spurningu:

Hvað skal til bragðs taka þegar matreiðslubókasafnið er orðið svo stórt að það tæki mann næstu 40 til 50 árin að elda allar uppskriftirnar, miðað við að elda einn rétt á dag, og safnið í tölvunni er þannig að það tæki mann meira en 200 ár að elda allar uppskriftirnar?

Svarið var að ég er ósköp hrædd um að mér takist það aldrei, því að oft eru bara nokkrar uppskriftir í hverri bók sem mig langar raunverulega að elda. En málið með matreiðslubækur er auðvitað ekki að maður eldi hverja einustu uppskrift, heldur að bækurnar komi manni að gagni við að velja skemmtilegar og góðar uppskriftir sem henta hverju tækifæri. Mig langar samt að nota bækurnar meira, og ef til vill verður þetta blogg mér hvatning til að prófa fleiri uppskriftir úr safninu í stað þess að elda alltaf sömu gömlu réttina (þó að þeir standi auðvitað alltaf fyrir sínu).

Vegna þessa áhugamáls míns er ég þekkt sem matgæðingur á meðan vina, vandamanna og vinnufélaga og er oft spurð um tilteknar uppskriftir sem fólk hefur annað hvort smakkað hjá mér eða hefur grun um að ég þekki. Því ákvað ég að koma upp þessu bloggi til að birta uppskriftir á. Með tíð og tíma er ætlunin að þetta verði rafræn útgáfa af handskrifuðu uppskriftabókinni minni sem ég hef verið allt of löt við að færa inn uppskriftir í (enda er rithöndin mín ófögur).

Ég er þegar með tvö matarblogg í gangi, bæði á ensku. Annað fjallar um íslenska matargerð og hitt er svipað og þetta á að verða, þ.e. safn uppskrifta sem ég hef prófað eða langar til að prófa. Til að byrja með munu reyndar uppskriftirnar hérna aðallega verða uppskriftir sem ég hef þegar birt þar, í bland við nýjar uppskriftir. Ég hef ætlað mér að birta bara hérna uppskriftir sem ég hef prófað, með myndum af réttunum og jafnvel af undirbúningnum, ásamt öðru skemmtilegu efni um mat og tengjum á aðrar uppskriftasíður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.