04 maí, 2011

Ódýr og fljótlegur baunaréttur

Þá er loksins komið að uppskriftunum. Þennan rétt fann ég upp þegar ég var nýútskrifuð úr Ferðamálaskólanum og var að leita mér að vinnu sem hæfði menntun minni. Á meðan vann ég í heimilishjálp hjá Reykjavíkurborg og þurfti að lifa á þeim svívirðilegu lágmarkslaunum sem þar voru greidd. Þá fann ég upp þennan rétt, sem er ódýr og seðjandi og dugði mér í tvær máltíðir. Ég borðaði yfirleitt annan skammtinn með brauði og hinn sem fyllingu í tortillur eða taco-skeljar.

Fyrir 2.

Efni:
1 dós af nýrnabaunum eða nýrnabaunum með chili, með vökvanum
1 meðalstór laukur, þunnt sneiddur
2 eða fleiri hvítlauksrif, söxuð eða kramin
1 lítil rauð eða græn paprika, skorin í litla bita
100 gr. beikonhakk eða beikonsneiðar, skornar í litla bita
Tómatsósa eða tómatmauk eftir smekk
Pipar og salt
saxaður rauður chilipipar eftir smekk (má sleppa, þarf minna ef chilibaunir eru notaðar)

Til viðbótar ef fjárhagurinn leyfir:
Pylsur, skornar í bita, eða
Nautahakk sem búið er að brúna á pönnu

Aðferð:
Setjið allt nema saltið, piparinn og chilipiparinn (og pylsurnar, ef þær eru til staðar) í pott og hitið upp að suðu. Lækkið hitann þegar suðan kemur upp og bætið kryddinu og saltinu saman við. Mallið við lágan hita þar til sósan þykknar. Ef pylsur eru notaðar eru þær settar saman við ca. 5 mín. áður en rétturinn er borinn fram.

Ef nota á sem fyllingu í tortillur er rifnum osti stráð yfir heita fyllinguna þegar rétturinn er borinn fram.
Til að gera fyllingu fyrir taco-skeljar er bætt við sýrðum rjóma, rifnu kínakáli, söxuðum tómötum og rifnum osti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.