09 maí, 2011

Marbella-kjúklingur


Þetta er einn af þessum réttum sem maður getur varla ímyndað sér að sé góður þegar maður sér uppskriftina, en reynist síðan vera algert lostæti þegar forvitnin hefur yfirhöndina og maður prófar að elda hann.

Ef notaðir eru kjúklingavængir og/eða litlir leggir er þetta tilvalinn partýréttur. Það er auðvelt að minnka hann og stækka og af því að hann er líka fínn kaldur er hægt að gera hann daginn áður. Ekki stytta marineringartímann, 10 tímar er lágmark til að ná góðri marineringu.

Ég gef hér upp 2 stærðir á uppskriftinni, annars vegar fyrir 10 manns og hins vegar fyrir 2 (í sviga á eftir innihaldsefnunum).

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook
Fyrir: 10 manns (ca. 16 bitar) eða fleiri ef borið fram sem partýréttur á hlaðborði; eða fyrir 2 (3- 4 bitar)

Efni:
Ca. 4,5 kg. blandaðir kjúklingabitar með beini og skinni (ca. 500 gr.)

Í marineringuna:
1 hvítlaukur, flysjaður og maukaður (3 rif)
1/4 bolli þurrkað óreganó (1 msk.)
Gróft salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1/2 bolli rauðvínsedik (2 msk.)
1/2 bolli ólífuolía (2 msk.)
1 bolli steinlausar sveskjur (1/4 bolli)
1/2 bolli spænskar steinlausar grænar ólífur (ca. 6-8 stk. – það er erfitt að mæla þær í msk.)
1/2 bolli kapers og smá kapers-safi (2 msk.)
6 lárviðarlauf

Til viðbótar í eldun:
1 bolli púðursykur (1/4 bolli)
1 bolli hvítvín (1/4 bolli)

Til skrauts og bragðauka:
1/4 bolli steinselja eða laufkóríander (cilantro) (2 msk.)


Aðferð:
Setjið kjúklingabitana og marineringuna saman í skál og hrærið vel til að húða kjúklinginn. Setjið lok á skálina og setjið í kæli og látið marinerast í lágmark 10 klukkustundir. Gott að hræra í af og til svo að kjúklingurinn marinerist jafnt.

Hitið ofninn upp í 175 °C.

Raðið kjúklingabitunum í eitt lag í eitt eða tvö grunn ofnföst mót og mokið marineringarleginum (með ólífum, kapers og sveskjum) jafn yfir. Stráið púðursykrinum yfir kjúklinginn og hellið hvítvíninu í botninn.

Bakið í 50 mín. til 1 klst. (30-40 mín. ef notaðir eru bara vængir) og ausið soðinu oft yfir á meðan á eldun stendur. Rétturinn er tilbúinn þegar tær vökvi (en ekki bleikur) rennur úr lærisbita sem stungið er í með prjóni þar sem hann er þykkastur.

Takið kjúklinginn, sveskjurnar, ólífurnar og kapers upp með gataskeið og færið yfir á fat. Vætið í með ögn af soði og stráið slatta af steinselju eða laufkóríander yfir. Setjið afganginn af soðinu í sósukönnu og berið fram með réttinum.

Til að bera fram kalt:
Látið kjúklinginn kólna niður í stofuhita í soðinu og færið þá bitana, sveskjurnar, ólífurnar og kapers yfir á fat.

Ef kjúklingurinn hefur verið kældur í kæliskáp skal láta hann standa og ná stofuhita áður en hann er borinn fram. Vökvið bitana með ögn af soði áður en þeir eru bornir fram.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.