Þessar fisklummur eru góðar og fínar til að nýta upp fiskafganga ef fjölskyldan fílar ekki plokkfisk. Þetta er ekki beint uppskrift, heldur frekar leiðbeiningar.
Fyrir 2.
Takið soðna fiskafganga sem samsvarar ca. hálfu fiskflaki, fjarlægið bein og roð ef það er til staðar, og tætið fiskinn niður með gaffli. Setjið í skál með 2-3 soðnum fínsöxuðum kartöflum, hálfum fínsöxuðum lauk, smá salti, Aromati og hvítlauksdufti eftir smekk. Bætið við ca. 3. msk. af hveiti og 1. msk. af kartöflumjöli eða maísmjöli og einu eggi. Hrærið vel saman og þynnið með mjólk þar til deigið minnir á þunnan hafragraut.
Bræðið smá smjör eða smjörlíki á pönnu. Skammtið lummudeiginu á meðalheita pönnu með matskeið og steikið nokkrar lummur í einu. Þeim má snúa við þegar deigið á hráu hliðinni virkar þurrt. Lummurnar eiga að vera gullnar á lit.
Berið fram með soðnum kartöflum, bræddu smjöri og t.d. tómatbátum. Líka er gott að hafa með sítrónubáta til að kreista safann yfir lummurnar.
Sniðugt, er er alltaf í vandræðum hvað ég á að gera við afganginn af soðnu ýsunni.
SvaraEyðaAnonymous, fisklummur voru í miklu uppáhaldi á mínu æskuheimili og ennþá finnst mér bara plokkfiskur betri uppskrift til að "endurvinna" soðinn fisk.
SvaraEyða