11 maí, 2011

Mjúkar, kryddaðar melassasmákökur

Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook.

Þessar smákökur eru ljúffengar og mjúkseigar. Ef ekki er til melassi má nota síróp eða treacle í staðinn eða jafnvel hunang.

170 gr. (12 msk.) ósaltað smjör (eða saltað og sleppið þá saltinu)
1 bolli strásykur
1/4 bolli melassi eða síróp
1 egg
1 3/4 bolli hveiti
1/2 tsk. malaður negull
1/2 tsk. malaður engifer
1 tsk. malaður kanill
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. matarsódi

Hitið ofninn í 175 °C (165 °C fyrir blástursofn).

Bræðið smjörið og blandið saman við það sykri og melassa og blandið vel. Léttþeytið eggið þannig að rétt byrjar að myndast froða og blandið vel saman við sykurhræruna.

Sigtið saman hveitið og kryddin, saltið og matarsódann og blandið saman við sykurhræruna. Úr verður þunnt deig.

Setjið álpappír eða bökunarpappír á bökunarplötu og skammtið deiginu á hann með teskeið. Látið vera ca. 7 cm á milli, því þær renna mikið út í bakstrinum.

Bakið þar til kökurnar fara að dökkna, ca. 8-10 mín. Takið út á meðan þær eru enn mjúkar. Látið kólna á plötunni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.