15 júní, 2011

Aloo gobi: Indverskt kartöflu- og blómkálskarrí fyrir fólk sem ekki fílar chili-pipar

Aloo gobi er klassískur indverskur grænmetisréttur. Þetta er uppskrift sem ég hef sett saman úr öðrum uppskriftum og aðlagað að mínum bragðlaukum, en Indverji mundi þó hiklaust kalla hana ekta.

Þetta er góður aðalréttur eða sem meðlæti. Uppskriftin er þannig að auðvelt er að hafa hana eins sterkkryddaða og maður vill. Þetta er svokallað „þurrt“ karrí, sem þýðir að það er ekki syndandi í sósu heldur húðað með kryddmauki.

Aloo þýðir „kartafla“ á Hindi og Urdu, og gobi þýðir „blómkál“.

Fyrir 1 sem aðalréttur, 2 sem forréttur, 3-4 sem meðlæti.


  • 2 meðalstórar kartöflur, skornar í teninga, ca. 1,5 cm. á kant
  •  Jafnmikið af blómkáli, skipt í hríslur
  • 1/2 laukur, grófsaxaður
  • 2-3 cm stykki af ferskri engiferrót, rifið eða mjög fínsaxað
  • 1 tsk. gult sinnepsfræ
  • 1 tsk. cummin (eða eftir smekk)
  • 2 tsk. malaður kóríander (eða eftir smekk)
  • 1 tsk. kúrkúma duft (túrmerik)
  • Hvítlaukur eftir smekk
  • salt
  • 1/2 bolli vatn
  • 1 msk. olía til steikingar, meira ef pannan er ekki teflon-húðuð (EKKI ólífuolía, helst af öllu skírt smjör)

(Ef óskað er eftir ekta brennheitu chili-bragði skal bæta við eins miklu af söxuðum ferskum chili-pipar eins og maður vill – en þá má heldur ekki gleyma að bera fram raita-salatið, sem er kælandi...).

Hitið olíuna á steikarpönnu eða í wok-pönnu. Þegar hún er orðin vel heit eru sinnepsfræin sett á hana og lokið strax sett á pönnuna. Leyfið fræjunum að poppa í um 20 sekúndur, lækkið þá hitann og setjið cummin, kóríander, kúrkúmu, hvítlauk, engifer og lauk á pönnuna og blandið vel saman. Steikið varlega þar til laukurinn er glær og gætið þess að brenna ekki kryddin.

Setjið nú kartöfluteningana og blómkálshríslurnar á pönnuna og hrærið til að húða þau með kryddmaukinu. Steikið við sama hita í ca. 2 mín og bætið þá vatninu við og mallið í 10-15 mín., eða þar til kartöflubitarnir eru gegnsoðnir og sósan hefur þykknað.
 
Berið fram sem meðlæti með kjötréttum eða sem aðalrétt með naan- eða chappati-brauði og raita-salati.

Raita (jógúrtsalat):
1/2 bolli hrein jógúrt eða AB-mjólk
1/2 tsk. cummin-fræ
1/2 tsk. cummin-duft
1/2 gúrka, fínsöxuð
Klípa af salti

Hrærið salti og kryddi saman við jógúrtina ásamt gúrkunni. Kælið. Mjög gott og svalandi salat með sterkkrydduðum mat.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.