13 júní, 2011

Gelato með pistasíu-hnetum

Það er engin matreiðslubók vikunnar í þessari viku, en í staðinn koma léttar og sumarlegar uppskriftir úr ýmsum áttum.

Ekta gelato eða ítalskur ís er fituminni en rjómaís, en sykurhlutfallið er aftur á móti aðeins hærra. Þessi uppskrift, sem er ættuð frá Sikiley, skilar ís sem er svo þéttur í sér og mjúkur að erfitt er að trúa að hann innihaldi hvorki rjóma né egg.

Grunnurinn í gelato siciliano er svokallaður crema rinforzata, nokkurs konar búðingur úr mjólk og sterkju. Ég vígði ísvélina mín með þessari uppskrift, og það var góð vígsla.

Ég hendi kannski inn uppskrift að súkkulaði-gelato seinna meir.

Uppskriftin kemur úr bandaríska matreiðslutímaritinu Saveur.

Efni:
4 bollar mjólk
1 bolli sykur
3 msk. maísmjöl
2 bollar (ca. 280 gr) skelflettar ósaltaðar pistasíu-hnetur, fínmalaðar í matvinnsluvél eða kryddkvörn

Aðferð:
Hleypið upp suðunni á 3 bollum af mjólk í potti yfir meðalhita. Takið af hellunni. Á meðan mjólkin hitnar, blandið saman 1 bolla af mjólk, sykrinum og maísmjölinu í skál. Hrærið saman við heita mjólkina í pottinum. Setjið aftur á helluna og látið krauma þar til blandan þykknar aðeins, ca. 8-10 mínútur.

Setjið pistasíumjölið í skál og hrærið heitri mjólkurblöndunni saman við. Látið kólna, setjið lok á skálina og geymið í kæli yfir nótt.

Síið blönduna í gegnum fíngert sigti ofan í skál og þrýstið pistasíumjölinu í gegn með skeið. Hendið því hrati sem verður eftir í sigtinu. Kælið í ísvél eftir leiðbeiningum.

Ef ekki er ísvél á heimilinu:
Setjið búðingsblönduna í skál sem er talsvert stærri en þarf undir magnið. Frystið í 40-50 mínútur og takið þá ísinn út og hrærið vel í honum, t.d. með handþeytara á lágum hraða. Setjið aftur í frost. Endurtakið á 20-30 mínútna fresti þar til ísinn er of þykkur til að hræra í honum. Ísinn ætti að hafa aukið rúmmál sitt nokkuð og kristallar í honum verða ekki eins stórir og í ís sem er frystur án þess að hræra í honum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.