27 júní, 2011

Appelsínumarineruð svínarif

Það fór allt á hvolf hjá mér í sumarfríinu og ég datt út af teinunum með bloggið, en af því að sumarið virðist loksins nokkurn veginn komið, þá verður þessi vika tileinkuð sumarmat: köldum drykkjum, grillmat og léttum réttum. Hér, til að byrja með, er einn ágætis grillréttur. Hann kemur úr matreiðslubók sem ég held að ég sé búin að losa mig við.

Matreiðslubók: Entertaining

Fyrir 8.

Efni:
1,5 kg svínarif (spare-ribs eða baby-back ribs)

2 msk. tært hunang
1 msk. sítrónusafi
1 msk Worchestershire-sósa
1 tsk. sojasósa
2 appelsínur
Salt og pipar

Aðferð:
Skerið rifjastykkið niður í stök rif.

Blandið saman hunangi, sítrónusafa, Worchestershire-sósu og sojasósu í litlum potti og bætið við rifnum berki (bara þetta appelsínugula) af einni appelsínu og safann úr báðum appelsínunum. Bætið við salti og pipar og hitið hægt upp (ekki láta sjóða) og hrærið í af of til. Takið af hellunni og látið kólna.

Hellið marineringarleginum yfir kjötið og látið marinerast yfir nótt.

Hitið ofninn í 180 °C. Takið rifin upp úr marineringunni og setjið þau í ofnfast fat. Geymið löginn. Bakið rifin í ofninum í 1 klukkustund.

Hitið grillið, takið rifin úr ofninum og grillið og snúið þeim oft við og penslið með marineringarsósunni. Grillið þar til það er komin skorpa á þau (ca. 15 mín.). Ég mæli með að strá ögn af salti yfir þau um leið og þau eru pensluð, því að þetta er ekki bragðmikið þó að það sé bragðgott. Saltið eykur bragðið.


Athugasemdir:
Þetta er bragðmildur réttur og hentar vel fyrir fólk sem líkar ekki bragðmiklar sósur með tómatsósu eða púðursykri. Ef ég geri aftur appelsínurif, þá hugsa ég að ég noti appelsínumarmelaði í sósuna í staðinn fyrir safa og börk, til að fá sterkara bragð og glaseringu í grilluninni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.