Mjög góður grænmetisréttur eða sem heitt meðlæti með kjötréttum. Ef notuð eru Basmati-hrísgrjón kemur örlítið hnetubragð af réttinum sem fer vel með blaðlauknum.
Matreiðslubók: The Onion Book eftir Carolyn Dille og Susan Belsinger.
Fyrir: 2 sem aðalréttur; 4 sem meðlæti.
Tími: ca. 30 mínútur.
Innihald:
2 bollar hrísgrjón, hvít eða brún
4 1/2 til 5 bollar heitt grænmetissoð, kjúklingasoð (fleytið fitunni ofan af), eða vatn
1 tsk. salt
2 msk. ólífuolía
1 msk. ósaltað smjör (ef nota á saltað smjör, þá má minnka viðbætta saltið um helming)
4 blaðlaukar, það dekksta af græna hlutanum skorið frá (geymið til að nota t.d. í súpu), skornar langsum í tvennt, skolaðar vel of skornar í 1/2 cm sneiðar
2 bollar sveppir í sneiðum
Salt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
Til að gera þennan rétt að vegan-grænmetisrétti skal nota grænmetissoð eða vatn, sleppa smjörinu og auka ólífuolíuna um 1 msk.
Aðferð:
Setjið hrísgrjónin, 4 bolla af soði/vatni og saltið í pott með þykkum botni, setjið lokið á og látið suðuna koma upp yfir meðalhita. Þegar sýður skal minnka hitann niður í lægsta hita sem þarf til að halda suðunni við (1/2 eða 1). Sjóðið í þann tíma sem gefinn er upp á hrísgrjónapakkanum. Þau eiga að vera gegnsoðin en ekki lin (sem sagt al dente).
Á meðan grjónin eru að eldast skal hita ólífuolíuna við meðalhita á pönnu. Bætið við lauknum og snöggsteikið hann í um 3 mín. og hrærið í af og til.
Bætið sveppunum saman við og snöggsteikið með lauknum í ca. 3 mín. til viðbótar og hrærið í af og til. Bætið við 1/4 til 1/2 bolla af soði/vatni og smakkið til með salti og pipar. Lækkið hitann niður í 1, setjið lokið á og sjóðið í um 5 mín. og hrærið í af og til.
Þegar hrísgrjónin eru soðin er vatninu hellt vel af þeim og grjónunum blandað saman við laukinn og sveppina ásamt því sem eftir er af soðinu/vatninu. Smakkið til og berið fram heitt.
Til tilbreytingar má nota saman til helminga hrísgrjón og villihrísgrjón, nota morelle- eða chanterelle-sveppi í stað hvítra sveppa, og/eða bæta smá hvítvíni eða rauðvíni út í réttinn undir lok suðutímans.
Á myndinni var rétturinn skreyttur með graslauk áður en hann var borinn fram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.