Þessi er himnesk!
Létt og mild appelsínukaka sem er ekki of sæt.
Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook.
Efni:
8 msk. ósaltað smjör
3/4 bolli strásykur
2 egg, rauður og hvítur aðskildar
Rifinn börkur (bara appelsínuguli hlutinn) af 2 appelsínum
1 1/2 bolli óbleikt hveiti (t.d. Kornax)
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. matarsódi
1/4 tsk. salt
1/2 bolli ferskur appelsínusafi
Aðferð:
Forhitið ofninn í 175°C (blástursofn: 165 °C). Smyrjið 25-cm hringform (ég notaði reyndar venjulegt springform af því að hringformið mitt er of lítið fyrir þessa uppskrift, og lengdi bökunartímann aðeins).
Sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt.
Hrærið smjörið mjúkt í hrærivél og bætið sykrinum smám saman út í og hrærið þar til blandan er létt og ljós. Setið eggjarauðurnar saman við, eina í einu, og síðan appelsínubörkinn.
Bætið þurrefnunum smám saman út í soppuna, til skiptis við appelsínusafann.
Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið varlega saman við soppuna með sleikju.
Hellið soppunni í formið. Bakið í 30-35 mín., eða þar til hliðarnar á kökunni losna frá forminu og prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn.
Kælið í 10 mín. í forminu, og hvolfið þá forminu á grind. Kakan ætti að losna auðveldlega úr því. Snúið kökunni við, setjið disk undir grindina og hellið appelsínugljáanum yfir kökuna á meðan hún er enn heit. Látið kökuna kólna niður í stofuhita áður en hún er borin fram.
Appelsínugljái:
1/4 bolli ferskur appelsínusafi
1/4 bolli strásykur
Setjið sykurinn og safann saman í pott og sjóðið saman við lágan hita í 5 mín., eða þar til sírópið þykknar aðeins. Hrærið í af og til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.