03 júní, 2011

Pílaf með grænum baunum (Mattar pilau)

Þetta er gott meðlæti með kjöti eða grænmetiskarríi. Reyndar er rétturinn það matarmikill að hægt er að borða hann sem aðalrétt. Rétturinn á ættir sínar að rekja til Uttar Pradesh-héraðs á Indlandi.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon‘s Indian Cookbook
Fyrir 4-5 sem meðlæti; fyrir 2 sem aðalréttur.

Efni:
1 1/2 bolli hrísgrjón (long grain eða Basmati)
1 msk. ghee (skírt smjör) eða matarolía (samt ekki ólífuolía)
4 heilir negulnaglar
1 lítil kanilstöng
3-4 kardimommubelgir, marðir
1 tsk. cummin-fræ
1/2 tsk. kúrkúma-duft (túrmerik)
1 1/2 bolli ferskar eða frosnar grænar baunir
2 1/2 tsk. salt
3 1/4 bolli heitt vatn

Aðferð:
Skolið grjónin vel og látið standa í köldu vatni í um hálftíma og látið þá renna vel af þeim.

Hitið ghee eða olíu á djúpri pönnu og steikið negulnaglana, kanilinn, kardimommurnar og cumminfræin í 1 mín.

Bætið við kúrkúma og hrísgrjónum og steikið og hrærið við meðalhita í um 3 mín.

Bætið þá við baunum, salti og heitu vatni. Hækkið hitann til að suðan komi sem fyrst upp, lækkið hann þegar sýður, setjið þétt lok á pönnuna (loka loftventli ef hann er til staðar) og sjóðið í 25-30 mín. án þess að taka lokið af eða hræra.

Takið lokið af og leyfið gufunni að stíga af grjónunum í um 3 mín. Fjarlægið heilu kryddin, hrærið varlega í gegnum grjónin með gaffli og berið fram.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.