01 júní, 2011

Vindaloo-kjúklingakarrí frá Goa (Murg Vindaloo)

Matur frá Goa á Indlandi þykir mjög gómsætur og sérstakur. Í 450 ár blandaðist saman matargerð innfæddra við portúgalska matarhefð á þeim tíma sem Goa var portúgölsk nýlenda, og útkoman var nokkuð  alveg sérstakt.

Vindaloo er karrí sem er lagað með ediki og getur innihaldið kjúkling, lambakjöt eða svínakjöt. Það er oftast sterkkryddað og með miklum chili-pipar, en þessi útgáfa er mildari og hentar ágætlega þeim sem vilja karríið sterkt en ekki þannig að logarnir standi út um eyrun á þeim.

Kjúklingurinn verður meyr og vel kryddaður en ekki eldsterkur. Það er snarpt eftirbragð af sósunni, sennilega út af edikinu.

Matreiðslubók: Charmaine Solomon's Indian Cookbook

Fyrir: 4-6
Eldunartími: um 50 mínútur, plús 60 mínútur til að marinera.

Efni:
1,5 kg. af blönduðum kjúklingabitum, svo samsvarar einum kjúklingi: leggir, læri og bringa í fjórum bitum (ég notaði vængi þegar ég prófaði uppskriftina og stytti eldunartímann svolítið og það kom vel út)
4 msk. djúpsteikingarolía
2 tsk. salt
1/2 tsk. malaður svartur pipar

Karrímauk:
2 msk. cummin-fræ
1 msk. svört sinnepsfræ (má nota brún)
2 tsk. chili-duft eða eftir smekk
1 msk. saxaður ferskur engifer
1 msk. saxaðar ferskur hvítlaukur
1/2 bolli edik (bara venjulegt, ekki bragðbætt)
1 tsk. kanill
1/4 tsk. negull
1/4 tsk. kardimommur

Aðferð:

Setjið cummin-fræin og sinnepsfræin í blandara með chili, engifernum, hvítlauknum og edikinu. Saxið vel saman og hrærið kanil, negul og kardimommum saman við. Maukið verður mjög þykkt.

Hitið olíuna í þykkbotna potti. Ekki nota járnpott því að það geta orðið efnahvörf í honum vegna ediksins. Þegar olían er orðin steikingarheit, takið hana þá af hellunni og setjið karrímaukið á hana. Hrærið í nokkrar sekúndur til að hita maukið (ekki reyna að blanda saman við olíuna). Setjið því næst kjúklinginn á pönnuna og hrærið vel til að húða kjúklinginn með maukinu. Takið kjúklinginn af pönnunni og setjið í skál og látið standa í um klukkustund í kæli til að maukið nái að síga inn í kjúklinginn.


Eftir klukkustund skal taka kjúklinginn og setja aftur á kalda pönnuna og láta hann hitna á pönnunni við lágan hita þangað til að kraumar í sósunni. Bætið við salti og pipar og mallið áfram þar til kjúklingurinn er gegnsteiktur. Hræri í af og til svo að kryddið brenni ekki við pönnuna.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Líka góður kaldur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.