09 júlí, 2011

Elvis-samlokan fræga

Þegar menn ræða um það hversu þéttholda Elvis Presley var orðinn undir það síðasta er oft bent á ást hans á þessum samlokum sem skýringu, en starfsfólkið í eldhúsinu á Graceland þurfti að vera tilbúið að færa honum svona samlokur hvenær sem var dags eða nætur. En málið er bara að ef maður borðar nógu mikið af hverju sem er (nema kannski selleríi) þá fitnar maður. Punktur.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes
Magn: 1 samloka.

Það fer tvennum sögum um uppskriftina að þessari samloku. Í bókinni er hún gerð með banana og hnetusmjöri, en í sumum útgáfum er líka beikon. Til að vera alveg viss um að geta sagst hafa smakkað þessa frægu samloku, þá skipti ég henni í tvennt og prófaði annan helminginn með beikoni og hinn án þess. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég notaði ekki það magn sem er gefið í uppskriftinni, heldur notaði skynsemina og endaði með að nota ca. þriðjung úr banana og um það bil 1,5 msk. af hnetusmjöri. Ef fullt magn er notað er hætt við að eitthvað af hnetusmjörinu og banananum leki úr samlokunni á pönnunni. Þrýstið alls ekki ofan á samlokuna á meðan hún steikist.

Uppskriftin:
1 þroskaður lítill banani
2 sneiðar af brauði, helst franskbrauði
3 msk af hnetusmjöri
2 msk af smjöri

Stappið bananann með gaffli. Ristið brauðsneiðarnar ljósbrúnar. Smyrjið hnetusmjörinu á aðra brauðsneiðina og banananum á hina. Leggið saman.

Bræðið smjörið á pönnu og steikið samlokuna upp úr því þar til brauðið er ljósbrúnt. Skerið í hyrnur og berið fram heitt.

Ef haft er beikon með: 4 litlar sneiðar af beikoni, steiktar stökkar og lagðar á milli í samlokuna áður en hún er steikt.

Smá eldhúsvísindi: Brauðið er ristað áður til að samlokan verði ekki klesst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.