05 júlí, 2011

Kryddaður nektarínueftirréttur (cobbler)

Cobbler er nafn á frægum amerískum eftirrétti sem er nefndur eftir áferðinni réttinum þegar hann er bakaður, en hún þykir minna á steinlagða (cobbled) götu. Hann er gerður með allskonar fyllingum og mismunandi mylsnuloki, en í Suðurríkjunum er oftast um að ræða ávexti eða ber, t.d. epli, ferskjur eða bláber. Ég er nú þegar búin að birta eina uppskrift, að afbrigðinu Brúnu Bettý með eplum, perum og kornflögumylsnu, en hér er nektarínu-cobbler með deigmylsnu sem Elvis Presley mun hafa haldið mikið upp á.

Ég gerði hálfa uppskrift og notaði í hana fjórar af nektarínunum sem urðu afgangs þegar ég sauð ferskju- og nektarínusultuna. Þær voru orðnar vel þroskaðar og svo ljúffengar og bragðmiklar að ég tímdi varla að elda þær.

Matreiðslubók: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes.
Fyrir: 8.

8 ferskar nektarínur, steinhreinsaðar og skornar í báta
3/4 bolli hveiti
1/2 bolli vel þjappaður púðursykur
1/2 bolli strásykur
1/2 tsk kanilduft
1/2 bolli (115 gr) smjör, kælt

Hiið ofninn í 175 °C. Raðið nektarínubátunum í smurt form sem tekur amk. 7,5 dl. (hálf uppskrift passaði í grunnt bökuform, 22 cm í þvermál, þannig að 22-25 cm soufflé-form (djúpt) ætti að duga fyrir heila uppskrift).

Blandið þurrefnunum vel saman. Bætið við smjörinu í bitum og saxið það saman við þurrefnin eða skellið í matvinnusluvél og saxið þar til myndast hefur gróf mylsna. Stráið jafnt yfir nektarínurnar.

Bakið í 30 mínútur eða þar til mylsnulokið er gullinbrúnt og svolítið stökkt og það sýður í ávöxtunum.

Berið fram volgt með vanilluís eða þeyttum rjóma ef þess er óskað. Líka ágætt við stofuhita.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.