03 júlí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: Are you hungry tonight? Elvis‘ Favourite Recipes

Hér er ein forvitnileg og skemmtilega hallærisleg sem ég er nýbúin að eignast: Uppskriftir að uppáhaldsmat Elvis Presley,  Brenda Arlene Butler safnaði saman.

Þetta er bara ein af nokkrum matreiðslubókum með mat sem Elvis er sagður hafa verið hrifinn af. Aðrar Elvis matreiðslubækur eru t.d. Fit for a King, The I Love Elvis Cookbook og The Presley Family and Friends Cookbook. Allir vilja græða á kónginum.

Bókin er ríkulega myndskreytt með myndum af Presley, og mörgum uppskriftanna fylgir uppástunga um hvaða Elvis-lag sé nú best að spila á meðan maturinn er eldaður eða snæddur.

Ef eitthvað er að marka bókina hefur Elvis haft einfaldan smekk á mat. Heimalagaðar, tiltölulega einfaldar en þungar máltíðir að hætti Suðurríkjamanna voru uppáhaldið hans, enda var hann fæddur og uppalinn í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Maturinn í bókinni er kaloríuríkur og fitandi og því kannski ekki ráðlegt að borða hann alveg á hverjum degi...

Það er hellingur af girnilegum uppskriftum í henni sem mig langar að prófa, m.a.:

  • Amerískt rúgbrauð með stökku beikoni og sinnepi
  • Maísmjölsbrauð með pylsum
  • Grilluð svínaskammrif
  • Gratineraðir hvítir laukar
  • Grænkál með osti
  • Baka með sætum kartöflum
  • Bláberjabaka
  • Brownies með kremi
  • Bananabúðingur

Þó mig langi ekki að baka hana, þá er líka uppskrift að brúðartertu Elvis og Priscillu í bókinni, sem nær yfir 9 blaðsíður!

Að þessu sinni birti ég tvær uppskriftir, enda svo nýbúin að eignast bókina að ég hef bara prófað þessar tvær. Ég skelli inn fleiri um leið og ég er búin að prófa þær.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.