15 maí, 2011

Matreiðslubók vikunnar: The Spice Cookbook

Hér er matreiðslubók sem klifrar ofar á vinsældalistanum hjá mér í hvert skipti sem ég prófa nýja uppskrift úr henni:

Kápan
The Spice Cookbook eftir Lillie Stuckey og Avanelle Day, myndskreytt af Jo Spier. Hún er útgefin 1964, er þykkur og mikill hlunkur (1,6 kíló, takk fyrir!) í óhandhægu stóru broti en full af tiltölulega einföldum en ljúffengum uppskiftum og myndskreytingar Spiers eru flottar og lífga upp á bókina. Hún inniheldur um 1400 uppskriftir, sem er yfrið nóg fyrir flesta heimiliskokka.

Þessi bók gengur öll út á krydd og notkun þeirra, og í henni er fræðandi og gagnlegur kafli um öll kryddin sem eru notuð í henni. Ég fékk hana í  Góða hirðinum, að því er mig minnir á 500 kall.

Forsíðan
Hún virðist vera eftirsótt af söfnurum og ég hef t.d. séð góð eintök með kápu boðin til sölu á um 70 Bandaríkjadali. Ósköp er ég hrædd um að mín mundi samt ekki seljast á því verði, enda vantar á hana kápuna, hún er byrjuð að losna innan í spjöldunum og svo eru matarblettir í henni.

Þegar mig langar að elda eitthvað sem er of flókið eða dýrt í Silver Palate bókinni get ég oftast stólað á að finna einfaldari og ódýrari útgáfu af því í þessari. Þarna fann ég t.d. afar gómsæta uppskrift að ungversku gúllasi sem ég mun birta hér eftir helgina.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.