10 júní, 2011

Marinerað kartöflusalat

Þetta er ljúffengt salat sem er hægt að bera fram sem meðlæti með aðalrétti eða sem smárétt. Ég hef minnkað uppskriftina um helming frá því sem er í bókinni. Það er fínt að búa það til þegar fyrstu íslensku kartöflurnar koma á markað, því í þessu salati eru þær borðaðar með hýðinu.

Matreiðslubók: The New Enchanted Broccoli Forest.

Fyrir 3-4.

Efni:
  • 7 nýjar kartöflur, ca. 6 cm í þvermál, óskrældar og skornar í teninga (ca. 2 cm á kant)
  • 1/2 bolli rauðvínsedik
  • 2,5 bollar vatn
  • 4 meðalstór hvítlauksrif, flysjuð og skorin í tvennt að endilöngu
  • 1 tsk salt
  • 1/2 bolli fínt sneiddur rauðlaukur
  • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Aukalega, ef þið viljið:
  • sletta af góðri extra-virgin ólífuolíu
  • ögn af fínsaxaðri ferskri steinselju, basiliku og/eða graslauk
  • mjög fínsneidd rauð paprika

Til skrauts, ef þið viljið:
  • Niçoise ólífur
  • sneiddir kirsuberjatómatar

Aðferð:
Setjið kartöflur, edik, vatn, hvítlauk og salt í stóran pott. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann þannig að rétt mallar í vökvanum og sjóðið án loks þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar en ennþá fastar fyrir (ca. 15 mín.).

Hellið í sigti og látið vökvann renna af. Setjið í skál og hrærið rauðlauknum saman við á meðan kartöflurnar eru ennþá heitar. Smakkið til með piparnum. Látið kólna niður í stofuhita.

Ef þess er óskað má skvetta smávegis af góðri ólífuolíu yfir salatið áður en það er borið fram og hræra saman við það kryddjurtum og paprikusneiðum. Berið fram við stofuhita eða kalt, eins og það kemur fyrir eða skreytt með ólífum og/eða kirsuberjatómötum.

Tilbrigði:
Þetta salat er ennþá betra ef maður tekur lauk, sneiðir og steikir mjúkan og hrærir salatinu saman við og lætur það hitna í gegn. Höfundur bókarinnar mælir með því í morgunmat, en það er gott á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Því miður á ég ekki mynd af því, en set hana inn ef ég man eftir myndavélinni þegar ég bý það til næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.