27 maí, 2011

Buff með lauk, salati og saffrankartöflumús


Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Fljótgerðir úrvalsréttir

Þegar ég var barn og unglingur fórum við systkinin og foreldrar okkar saman í útilegur á hverju sumri. Uppáhalds útilegumatur minn og bróður míns var saxbauti með lauksósu frá KEA, borinn fram með Maggi kartöflumús og Ora grænum baunum. Svoleiðis fengum við bara einu sinni í hverri útilegu, og það var beðið með andakt eftir þessari töframáltíð. Það var eitthvað alveg sérstakt við þessa samsetningu og það eitt að hugsa um þennan mat getur enn kallað fram hjá mér minningar um þessar útilegur.

Í fyrsta skipti sem ég reyndi sjálf að elda þessa máltíð, í tilraun til að ná upp fornri útilegustemningu ein heima í fyrstu leiguíbúðinni minni , þá misheppnaðist hún algerlega. Dósabautinn var ekkert spes, pakkamúsin var vond, og það eina sem stóð fyrir sínu voru grænu baunirnar. Ég hringdi í mömmu með grátstafinn í kverkunum og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði nú alltaf lappað talsvert mikið upp á bæði bautasósuna og kartöflumúsina. Ég hef nú lært þann galdur og get búið til kartöflumús með Maggi-dufti sem er næstum því æt, og saxbauta kann ég að laga til svo að vel sé, en bragðlaukarnir eru breyttir og óneitanlega finnst mér nú betra að búa til bautann frá grunni úr fersku nautahakki og kartöflumúsina úr ekta kartöflum.

Þessi máltíð, sem er gerð með einni uppskrift og einni hugmynd úr Fljótgerðum úrvalsréttum (bók úr Sælkerasafninu), ásamt einni mömmuuppskrift, var elduð til minningar um þessar liðnu sælustundir og ég er hreint ekki frá því að buffið sé að minnsta kosti alveg eins og bautinn bragðaðist í minningunni.

Með buffinu og kartöflumúsinni má sjá á myndinni eftirfarandi salat, sem mamma gerir stundum til að bera fram með steiktum fiski, en er líka afbragðsgott með kjöti. Það þarf að gera það á undan hinum matnum, því það er best borið fram kælt.

Tómat- og gúrkusalat:
1 meðalstór tómatur
1/4 gúrka, eða 1 lítil skólagúrka
majónes eftir smekk

Sneiðið tómatinn þunnt, skerið sneiðarnar í ca. 4 mm þykkar ræmur, og lengstu ræmurnar í tvennt. Meðhöndlið gúrkuna á sama hátt. Hrærið saman við majónes og kælið í um 20 mín.

Buff með lauk 

Tími: 30 mínútur.
Fyrir: 1-2


Uppskriftin er með mínu orðalagi og viðbótum.

Efni:
  • 2 stk. laukur (ef nýta á buffin í 2 máltíðir er best að steikja einn lauk strax en geyma hinn þar til seinna buffið er borðað)
  • 225 gr. nautahakk
  • 1 egg
  • 0,75 dl vatn eða rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 1 1/2 msk. smjör/smjörlíki
  • Vatn

Aðferð:
Blandið saman hakkinu, egginu, vatni/rjóma, salti og pipar. Mótið 2 stór, sporöskjulaga buff. Bræðið feitina á pönnu og steikið buffin í 2-3 mín. á hvorri hlið, eða meira ef óskað er eftir vel steiktu kjöti. Hellið sjá vatni á pönnuna, hrærið upp það sem loðir við pönnuna og látið suðuna aðeins koma upp, til að fá soð, og hellið yfir buffin. Haldið þeim heitum.

Sneiðið laukinn í hringi og steikið við lágan hita þar til hann er mjúkur og byrjaður að brúnast. Takið af pönnunni.

Berið buffin fram með lauknum, og soðnar kartöflur og maísstöngla eða salat með. (Ég er hissa á að ekki skuli minnst á kartöflumús, en hvað um það...).


Saffronkartöflumús

Það er uppskrift í bókinni að saffronkartöflumús, en hún er gerð með dufti og þannig útfærð að hún verður andstyggileg á allan hátt. Gerið í staðinn alvöru kartöflumús, en hitið upp ögn af mjólkinni og myljið litla klípu af saffranþráðum út í hana og látið standa í 10 mínútur.

Blandið svo mjólkinni ásamt saffranþráðunum  saman við músina og þið eru komin með heiðgula og dásamlega ilmandi kartöflumús. Góð með soðnu grænmeti, steiktu kjöti, og soðnum eða steiktum fiski.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.