Ef það koma óvæntir gestir einmitt þegar kartöflumúsin er að verða tilbúin, nú eða fólkið sem þú bauðst í mat tekur krakkana sína með sér – sem þú bauðst ekki – þá er gott að kunna að drýgja músina. Þetta ráð dugir líka þegar kartöflurnar eru svo límkenndar að það stefnir í að músin komi til með að loða við góminn eins og hveitilím.
Eigðu alltaf Maggi kartöflumúsarduft uppi í skáp, jafnvel þó þú búir aldrei til duftkartöflumús. Skelltu smávegis af Maggi-dufti saman við músina, blandaðu vel, og bíddu í smá stund á meðan duftið blotnar upp. Bættu síðan við eins mikilli mjólk, eða helst rjóma, og þarf til að ná réttri þykkt, ásamt ögn af smjöri. Endurtaktu ef þarf.
Það er hægt, ef maður vandar sig og fer sér hægt, að drýgja músina um allt að helmingi án þess að það komi verulega niður á bragðinu. Klessuleg mús verður líka léttari ef Maggi frændi fær að vera með. Ef það kemur samt duftkeimur af músinni, örvæntið ekki: kryddið músina með múskati eins og manni er sagt að gera í gömlum uppskriftum, eða leysið smá saffran upp í heitri mjólk og blandið saman við, og það ætti að fela duftkeiminn.
Fyrir utan að vera nothæf til að drýgja kartöflumús er líka hægt að nota duftmús til að gera ágætis hjúp utan um steiktan fish.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.