25 maí, 2011

Ostafrauð (soufflé) með sellerísmjöri

Þetta er fínasta frauð og mjög bragðgott.

Sagt er að frauð séu frekar erfið viðureignar og það þurfi sterkar taugar til að búa þau til því að þau eigi það til að falla við minnsta áreiti, en ég mundi ekki segja að þau séu erfið. Ekki ef maður fer eftir uppskriftinni.

Reyndar er það rétt að þau falla fljótlega eftir að þau eru tekin út úr ofninum, þannig að það verður að hafa hraðar hendur að bera þau fram.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég bakaði frauð í blástursofni (það er ekki hægt að taka blásturinn af í ofninum hjá mér), og það gekk mjög vel eins og sjá má.

Matreiðslubók: Sælkerasafnið: Smáréttir við allra hæfi.
Fyrir 4.
Tími: 90 mín.

Frauðið:
2 msk. smjör
4 msk. hveiti
3 dl mjólk
4 egg
3 dl rifinn ostur
Salt og paprikuduft
2 tsk. maísmjöl (maizenamjöl)


Aðferð:
Bræðið smjörið. Hrærið hveitinu saman við og síðan mjólkinni, smám saman, í jafning. Sjóðið jafninginn við lágan hita í nokkrar mínútur og hrærið stöðugt í á meðan.

Takið eggin og aðskiljið rauður og hvítur. Sláið rauðurnar í sundur og þeytið saman við jafninginn með handþeytara ásamt ostinum. Smakkið til með salti og paprikudufti. Látið ostinn bráðna alveg saman við jafninginn. Hrærið maísmjölinu saman við.

Stífþeytið eggjarauðurnar og blandið þeim varlega saman við jafninginn (t.d. með sleikju). Hellið deiginu í smurt ofnfast form með háum hliðum, sem tekur ca. 1,2 lítra.

Bakið neðst í 175 °C til 200 °C heitum ofni í ca. 40 mín., eftir þykkt formsins. Ekki opna ofninn á meðan, því að þá getur það fallið. Best er að bera frauðið fram strax og það er tilbúið, en það getur beðið í 5-10 mín. í lokuðum ofninum eftir að slökkt er á honum.


Á meðan frauðið bakast er sellerísmjörið gert tilbúið:

75 gr. smjör, mjúkt
Salt
0,5 dl (1/5 bolli) fínsaxað sellerí

Smjörið skal vera við stofuhita. Hrærið öllu saman þar til samfellt og kekkjalaust. Kælið fram að notkun.

Athugasemdir:
  • Frauðið byrjar ekki strax að lyfta sér, þannig að ekki hafa áhyggjur þó að það virðist vera dautt fyrsta korterið eða svo.
  • Ef ég geri þetta aftir mun ég mauka selleríið saman við smjörið til að fá meira selleríbragð af því.
  • Ég notaði Gratínost, sem er blanda af Mozzarella og Gouda, og bætti við smá Brauðosti. Ég gæti trúað að ögn af Parmesan væri gott saman við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.