19 maí, 2011

Epla- og peru- Bettý

Matreiðslubók: The Spice Cookbook

Brúna Bettý (Brown Betty) er nafn á amerískum eftirrétti sem samanstendur af krydduðum ávöxtum og sætri mylnsnu og er borinn fram með þeyttum rjóma eða sætri sósu. Vinsælasta útgáfan er með eplum en hér eru notuð bæði epli og perur.

Síðan ég fór að gera þennan eftirrétt er ég hætt að nota uppskrift, en hér er hún eins og hún kemur fyrir í bókinni. Hún ætti hiklaust að duga í eftirétt fyrir 8 manns.

Ef perurnar eru bragðlitlar eða mjög sætar er best að nota græn (súr) epli með þeim, en annars eru sæt-súr gul epli góð í þessa uppskrift.

Efni:
3 ferskar perur, þroskaðar en þéttar (mikilvægt svo að þær verði ekki orðnar að mauki áður en eplin eru gegnsoðin)
3 súr fersk epli

1 bolli létt muldar kornflögur
1/2 bolli sykur
1/2 tsk. múskat (duft)
1/2 tsk. rifinn sítrónubörkur (bara þetta gula)
1/2 tsk. salt
2 msk. smjör

Aðferð:
Þvoið ávextina, skrælið og skerið í frekar þunnar sneiðar. Smyrjið stórt, djúpt ofnfast mót og raðið 1/4 af sneiðunum í botninn (í upphaflegu uppskriftinni er talað um 1 1ítra mót, sem er annað hvort bjartsýni eða þá að epli og perur vou almennt talsvert minni á sjöunda áratugnum en þau eru nú). Blandið saman sykri, múskati og sítrónuberki og stráið 1/4 af því og 1/4 af kornflögunum yfir ávaxtasneiðarnar. Setjið smá smjörklessur úr 1/2 msk af smjöri hér og þar ofan á.
Endurtakið þar til lögin eru orðin fjögur.

Bakið við 175°C í 60 til 90 mín. eða þar til ávextirnir eru gegnsoðnir.

Berið fram með þeyttum rjóma, sýrðum rjóma eða harðri sósu (sjá uppskrift fyrir neðan).

Athugasemdir:
  • Það má vel tvöfalda múskatið því það rétt örlar fyrir bragðinu af því.
  • Gott er að nota demerara-sykur í staðinn fyrir hvítan, en milt bragðið af perunum finnst ekki ef notaður er púðursykur. Prófið því að nota bara græn epli ef óskað er eftir púðursykri.
Ég nota nú bara oftast ís eða rjóma, en þessi sósa ku vera mjög góð með Bettý:

Hörð sósa með koníaki eða brandíi:

Hún er sennilega kölluð „hörð“ sósa af því að það er áfengi í henni, en annars er hún líka mjög þykk.

2/3 bolli smjör
1/4 tsk. múskat (duft)
2 bollar sigtaður flórsykur (sigtaður og síðan mældur)
2 msk. brandí eða koníak
Malað múskað

Hrærið smjörinu og múskatinu vel saman og blandið til skiptis saman við það koníaki og sykri í smáskömmtum og hrærið vel saman á milli, þar til allt koníakið og sykurinn eru gengin upp í smjörið. Þeytið þar til létt og loftkennt og berið fram með plómubúðingi eða heitum ávaxtaeftirréttum. Stráið ögn af múskati yfir til skrauts.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.