30 október, 2016

Franskar ostabollur (Gougères)

Ef þig langar að útbreiða hamingju og gleði, þá er tilvalið að baka þessar gómsætu ostabollur. Ég hef enn ekki hitt fyrir neinn sem ekki þóttu þær góðar, og það er ekki óalgengt að það breiðist bros um andlit fólks þegar það smakkar á þeim.

Þessar bollur eru taldar eiga uppruna sinn í Bourgogne-héraði í Frakklandi og eru sömu ættar og vatnsdeigsbollur.

Þær eru bornar fram kaldar til að hreinsa bragðlaukana við vínsmökkun, og volgar eða kaldar sem forréttur eða smáréttur. Það má setja í þær fyllingu, t.d. skinku eða sveppi, og það er gott að setja á þær sultu, en mér finnst þær bestar án þess að nokkuð sé sett á þær.

Deigið má nota til að baka bollur af ýmsum stærðum, en ef það á nota fyllingu er venjan að baka stóran hring. Ég hef líka séð stangir úr gougere-deigi og í rauninni mætti baka alls konar stykki, rétt eins og úr venjulegu vatnsdeigi.

Uppskriftin er upprunalega úr The Silver Palate Cookbook, en er aðlöguð að metrakerfinu, og ég hef bætt við athugasemdum frá mér. Uppskriftin ætti að skila 18 til 20 bollum ef það er notuð matskeið til að skammta þeim á plötuna.


Franskar ostabollur (Gougères)
Í bollurnar:
1 bolli mjólk
115 g ósaltað smjör (þetta í grænu umbúðunum)
1 tsk salt
1 bolli sigtað hveiti (Ath. sigta fyrst, mæla svo)
4 egg
1 ½ bolli rifinn ostur

Í upprunalegu uppskriftinni er talað um Parmigiano-Reggiano ost eða hann og Gruyére-ost til helminga, en ég hef notað ½ bolla af Parmigiano og ostaskorpur sem ég hef safnað í frystinn hjá mér og eru blanda af Gouda, Brauðosti, Maribo, Havarti og Óðalsosti, þannig að það er talsvert happdrætti hvaða ostur lendir í bollunum í hvert skipti.

Á bollurnar:
1 egg, hrært
1 bolli fínrifinn eða dyftur Parmigiano-Reggiano ostur, ef þess er óskað að hafa ost ofan á bollunum (mér hefur reyndar nægt 2/3 bolli)

Aðferð:
Hitið ofninn í 190°C. Léttsmyrjið bökunarplötu (ég nota bökunarmottu úr sílikoni og þá þarf ekki að smyrja, og ekki heldur ef bökunarpappír er notaður).

Smjör, mjólk og salt sett í pott og hitað upp að suðu við meðalhita. Þegar blandan sýður er hún tekin af hellunni og hveitinu skellt út í og hrært vel saman með sleif. Síðan er potturinn settur aftur á helluna og deigið soðið og hrært stöðugt í þar til það er þykkt og samfellt og loðir ekki lengur við hliðarnar og botninn á pottinum. Þetta ætti ekki að taka meira en 2 mínútur (bókin segir 5 mínútur).

Takið pottinn af hellunni og hrærið 4 eggjum saman við, einu í senn og blandið vel saman á milli. Blandið þvínæst ostinum vel saman við. Deigið verður mjög þykkt við þetta.

Skammtið deiginu á plötuna með matskeið. Deigklessurnar ættu að vera u.þ.b. á stærð við borðtennisbolta eða golfkúlu og það er gott að hafa minnst 2 cm á milli þeirra. Deigið rennur ekki út, en það lyftir sér svolítið og bollurnar þenjast út.

Sláið fimmta eggið í sundur í skál og burstið efra borðið á bollunum með eggjahrærunni. Stráið Parmigiano-osti yfir, ef þess er óskað.

Bakið í miðjum ofni. Setjið plötuna inn og lækkið hitann í 175°C. Bakið þar til bollurnar hafa lyft sér og eru gullinbrúnar. Það ætti að taka á bilinu 15 til 25 mínútur, allt eftir ofninum. Berið fram heitar eða kaldar.

Ath! Þær eru seðjandi, en það er samt erfitt að hætta að borða þær.

23 október, 2016

Gerlaust brauð að mætti mömmu Matgæðingsins

Mamma mín bakar stundum þetta brauð, sem er gerlaust. Ég veit ekki hvar hún fékk uppskriftina, en hún hefur tekið breytingum í gegnum árin og er eiginlega bara mömmuuppskrift í dag.

Þetta brauð er best á meðan það er enn volgt úr ofninum, með smjöri sem fær að bráðna niður í sneiðarnar. Það er líka gott að fá sér ost og etv.smá sultu, en það er alls ekki nauðsynlegt.



Ég hef ætlað mér að prófa að baka það sykurlaust, fyrst með því að sleppa sykrinum og ef það gengur ekki, þá með erýtrítóli.

Það er hægt að fikta á ýmsa vegu í uppskriftinni, t.d. nota hveitiklíð, rúgmjöl eða haframjöl með hveitinu, og svo má líka setja t.d. hnetur og/eða rúsínur í það.

500 g hveiti eða 400 g hveiti og 100 g heilhveiti
6 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk sykur
300-350 ml mjólk eða blanda af mjólk og vatni
1 1/2 tsk salt
Mjólk eða þeytt egg til að bursta með.

Sigtið saman þurrefnin og bætið megninu af mjólkinni saman við. Hnoðið þar til deigið er slétt og samfellt og bætið við mjólk eins og þarf. Mótið í hleif og burstið hann með mjólk eða þeyttu eggi.

Setjið strax inn í ofn og bakið neðst í ofninum við 175°-200°C, í um klukkutíma.

Brauðið er með þykkri og frekar harðri skorpu.

16 október, 2016

Einhvers konar beinlausir fuglar

Þetta er tvískipt uppskrift. Annars vegar er um að ræða hefðbunfna uppskrift að beinlausum fuglum, og hins vegar er kássa sem byggist á hefðbundnu uppskriftinni, að viðbættum sveppum og lauk.

Mér finnst kássan satt að segja betri en hefðbundna uppskriftin, fyrir utan að það er minna fyrir henni haft, þó auðvitað séu kjötbögglarnir flottir á diski.

Innihald í hefðbundinni uppskrift:
1,5 kg lambakjöt, nautakjöt eða hrossakjöt
50 g smjör
salt og pipar eftir smekk
5 dl vatn
100 g beikon
30 g hveiti

Hefðbundin tilreiðsla:
Skerið kjötið í þunnar sneiðar og stráið salti og pipar yfir báðar hliðar á hverri sneið. Leggið beikonræmu ofan á hverja sneið og rúlkið þétt upp. Bindið saman með sláturgarni.

Bræðið smjörið á pönnu og brúnið kjötbögglana. Bætið vatninu út á og sjóðið þar til kjötið er gegnsoðið (ca. 15 mínútur).  Takið kjötið af pönnunni og haldið heitu. Þykkið sósuna með hveitijafningi.

Berið fram með soðnum kartöflum eða kartöflumús, rabarbarasultu og gærnum baunum, eða þá með soðnum hrísgrjónum og salati.


Auðveldari aðferð með lauk og sveppum: 

Innihald í nýju uppskriftinni:
Allt sem er í þeirri gömlu, plús:
1 stór laukur, skorinn í tvennt og sneiddur í þunnar sneiðar
500 g sveppir, skornir í sneiðar
2-3 rif ferskur hvítlaukur eða 1-2 tsk hvítlauksduft
Season-All eða svipað krydd
(Aromat, ef vill)

Skerið kjötið í gúllasbita og brúnið á pönnu. Setjið í pott með vatninu og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og látið malla.

Skerið beikonið í bita, steikið létt á pönnunni og setjið í pottinn með kjötinu.

Svissið laukinn á pönnunni þar til hann er glær og setjið í pottinn.

Mýkið sveppasneiðarnar í smjöri á pönnunni og setjið í pottinn.

Mallið þar til kjötið er meyrt og gegnsoðið. Smakkið til með kryddum og salti.

Nú er um tvennt að ræða: Annað hvort að hella soðinu frá og þykkja það með hveitijafningi (og ögn af rjóma) og bera fram með, eða þá að setja kjötið og sveppina í sósuna, eða bara sleppa því að þykkja soðið og hella öllu í skál og bera fram.

Ef meira vatn er notað er líka hægt að gera úr þessu súpu.

09 október, 2016

Pottþétt skúffukaka

Þessa uppskrift kann ég utan að og hef bakað margar slíkar í gegnum tíðina, í ýmsum tilbrigðum. Grunnuppskriftinni má breyta lítillega til að fá súkkulaðiköku, hvíta köku, kanilköku eða eplaköku.

Efni í súkkulaðiköku:
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
2-3 msk kakóduft (eða meira, eftir smekk)
2 tsk lyftiduft
2 egg
1 til 1,5 bolli mjólk (eftir þörf)
150 g smjörlíki, brætt
1 tsk vanilludropar


Aðferð:
Þurrefnunum blandað saman og eggjunum og 1 bolla af mjólk hellt saman við. Smjörlíkinu hellt saman við um leið og hrærivélin er sett af stað. Hrært vel saman - ég mæli með að nota þeytarann en ekki hrærarann til að fá léttara deig. Mjólk bætt við ef þarf. Soppan á að vera tiltölulega þykk en nógu þunn til að renna samfellt úr skálinni. Hellt í ofnskúffu.

Bakað við 175 °C (160 °C í blástursofni) í 20-30 mínútur. Kælt og kakóglassúr jafnað yfir. (Ég nota aldrei uppskrift þegar ég geri glassúr, en þessi hljómar vel). Ef það á að setja nammi á kökuna, t.d. Smarties, er best að bíða þar til efsta yfirborð glassúrsins er orðið þurrt og raða þá namminu ofan á.

Tilbrigði:
  • Hvít kaka: Sleppið kakóinu og setjið 1,5 tsk af vanilludropum saman við deigið. Notið kakóglassúr. 
  • Sítrónukaka: Sleppið kakóinu og vanilludropunum og setjið 2 tsk af sítrónudropum út í deigið. Búið til hvítan glassúr, bætið nokkrum dropum af gulum matarlit saman við og ca. 1/2 tsk af sítrónudropum eða 1 msk af sítrónusafa.
  • Kanilkaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en kanilsykri stráð yfir soppuna áður en hún fer í ofninn. Til að gera kanilsykur: Blandið saman ca 1 dl af strásykri og 1 tsk af kanildufti og hrærið vel.
  • Eplakaka: Sama uppskrift og hvít kaka, en eplasneiðum raðað ofan á soppuna og kanilsykri stráð yfir áður en hún fer í ofninn.

02 október, 2016

Grjónagrautur með indverskum keim (kheer)

Ég bjó til þessa uppskrift þegar ég var að fikta í eldhúsinu og langaði í eftirrétt með indverskum keim og það var ekki fyrr en eftir á sem ég uppgötvaði að það er til indverskur eftirréttur, kheer, sem er í grunninn gerður nokkurn veginn með sömu aðferð og innihaldsefnum.

En Kheer er sem sagt indverska útgáfan af hinum klassíska hrísgrjónagraut. Hann er bragðbættur með kókosmjólk (þó reyndar sé notuð mjólk eða niðursoðin mjólk í sumum uppskriftum) og kardimommum og inniheldur þar að auki möndlur (þá kallaður badam kheer) og/eða pistasíur. Í sumum uppskriftum er líka rósavatn eða saffran og/eða rúsínur. Í ekta kheer eru notuð basmati-hrísgrjón eða önnur löng grjón, en ég nota stutt og feit Arboriogrjón (risotto-grjón) eða grautarhrísgrjón sem verða mjög rjómakennd við eldun.

Ég mæli með að nota kardimommurnar eftir smekk hvers og eins, enda mjög misjafnt hvort fólki þykir þær góðar.  Það er ágætt að byrja með 1/2 tsk. og fikra sig síðan áfram.

Fyrir 2:

4 dl vatn
½ tsk salt
2 dl Arborio, risotto eða grautarhrísgrjón (nú eða Basmati ef þú vilt gera ekta kheer)
2 dósir kókosmjólk
Kardimommuduft eftir smekk
Sykur eftir smekk
2 msk möndluflögur eða sama magn af fínsöxuðum pistasíum


Látið suðuna koma upp á vatninu. Saltið. Setjið grjónin saman við og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla undir loki þar til vatnið er að verða soðið upp. Bætið þá kókosmjólkinni smám saman út í (til að hitinn lækki ekki um of) og smakkið til með sykri og kardimommudufti. Látið síðan malla við lægsta hita sem hægt er að láta suðuna haldast við, þar til grauturinn er orðinn þykkur. Berið fram skreytt með möndluflögum eða pistasíukurli.

25 september, 2016

Einfalt tætt svínakjöt ("pulled pork")


Svona nota ég afgang af svínarifjasteik.

Mælt er með að nota svínahnakka í þennan rétt þegar hann er útbúinn frá grunni því að hann er hæfilega feitur til að kjötið verði ekki of þurrt. Í Bandaríkjunum er hefð fyrir að elda þennan rétt í hægsuðupotti (slow cooker, stundum nefndir Crock-Pot eftir algengasta vörumerkinu), en ég á ekki svoleiðis og nota því venjulegan pott og elda á lægsta hita.

Afgangi af svínarifjasteik (mínus pöru en með fitu) er skipt niður í hæfilega stóra bita til að kjötið  púslist sem best í botninn á þykkbotna potti. Vatni er hellt yfir þannig að fljóti yfir kjötið, bætt við 2-3 msk. af eplaediki og 1/4 til 1/3 bolla af barbekjú-sósu (BBQ) ásamt ögn af salti og söxuðum hvítlauk eða hvítlauksdufti. Suðan látin koma upp og látið malla á lægsta straum í klukkutíma undir loki.

Kjötið fiskað upp úr sósunni (sem ætti að vera byrjuð að þykkna), og tætt í sundur með tveimur göfflum og bein fjarlægð ef einhver eru. (Ef það gengur illa að tæta er kjötið sett aftur í pottinn og soðið í hálftíma til viðbótar).  Kjötið sett aftur í pottinn og látið malla loklaust þangað til sósan er orðin þykk. Gott að hræra í af og til svo að brenni ekki við. Smakkað til með salti og pipar.

Mér finnst gott að setja saman við smá slettu af Tabasco-sósu (líka seld sem Hot Sauce), og sojasósu eða Worchestershire-sósu, og mala ögn af svörtum pipar yfir í lokin.

Kásunni er síðan skammtað í volg hamborgarabrauð og borin fram.

Það er hægt að bera alls konar meðlæti með þessu eða troða því með í brauðið. Margar hamborgarafyllingar passa mjög vel, t.d. spælt egg, tómatsneiðar og kál. Sumir vilja setja hrásalat (coleslaw) ofan á, en mér finnst hins vegar gott að sykurbrúna lauk* og hafa með.

*Sykurbrúnaður laukur:
Skerið gulan lauk í tvennt og skiptið öðrum helmingnum í tvennt. Sneiðið fjórðungana tvo niður í ca. 1/2 cm þykkar sneiðar og svissið í bræddu smjöri á pönnu þar til laukurinn er mjúkur og aðeins byrjaður að brúnast. Lækkið hitann, bætið við ögn af salti og stráið sykri yfir. Leyfið sykrinum að bráðna og hrærsteikið síðan þar til laukurinn fær á sig gullinbrúnan lit. Skellið heitu ofan á svínakjötsmaukið og berið fram.

11 september, 2016

Ofnsteiktir lambaskankar (nokkurskonar uppskrift)

Skankinn er uppáhalds bitinn minn á lambalærinu. Því miður er hann líka uppáhald bróður míns, sem kann enga borðsiði og er búinn að skera skankavöðvann af lærinu ca. 1/2 sekúndu eftir að fatið snertir borðið og áður en nokkur annar er sestur. Því fæ ég sjaldnast að bragða á þessum uppáhaldsbita mínum þegar ég fer í sunnudagsmat til mömmu og pabba. En hvað um það, ég sé ekki eftir bitanum ofan í brósa - ég elda mér bara skanka heima í staðinn, og þá bara skanka.

Síðast gramsaði ég t.d. í frystikistunni þar til ég fann tvo skanka, annan af framparti og hinn af læri (lærisskankar eru seldir sem grillleggir í búðum, sem afsökun fyrir ca. 300% verðhækkun sem hefur orðið á þeim síðan í kringum kreppuna). Þeim stakk ég inn í ísskáp til að láta þá þiðna.

Þegar skankarnir voru þiðnaðir tók ég síðan fram Römertopf-pottinn minn, lagði hann í bleyti og tók til við að saxa lauk og papriku og fituhreinsa kjötið.

Þegar potturinn var tilbúinn setti ég í botninn lag af lauk, hvítlauk og papriku, skankana þar ofan á (kryddaða með salti, pipar, Galddrakryddi frá Pottgaldri og Aromati, lagði nokkrar beikonsneiðar ofan á kjötið og setti restina af lauknum og paprikunni ofan á. Þvínæst hellti ég í pottinn rest af hvítvíni sem ég átti í ísskápnum, ásamt vatni og smá slettu af sojasósu, setti lokið á og stakk inn í ofn. Tveimur tímum síðar var tilbúinn hinn ljúffengasti kjötréttur sem ég snæddi með heimatilbúinni kartöflumús.

Þessum rétti má breyta eftir því hvaða grænmeti er til í ísskápnum, t.d. hef ég gert hann með gulrótum og selleríi og ekki er verra að sjóða með litlar, nýjar kartöflur ca. síðasta klukkutímann eða svo. Laukur sem samsvarar ca. 1 heilum meðalstórum lauk er (finnst mér) nauðsyn, og líka mikið af hvítlauk. Ég hef líka notað niðursoðna, saxaða tómata með safa og öllu, sem gefur allt annað bragð (annar vökvi er þá minnkaður um ca. 1/2 bolla).

Það þarf ekki að nota Römertopf. Það er jafnvel hægt að elda þennan rétt í potti á eldavélinni eða í hægsuðupotti, en þá verður kjötið svolítið öðruvísi (mjög meyrt og mjúkt í pottinum - jafnvel maukað, þurrara í venjulegu ofnfati; það verður aftur á móti al dente í Römertopf).

Uppskriftin (hentar fyrir 2):

2 lambaskankar með beini, fituhreinsaðir
1/2 meðalstór gulur laukur, grófsaxaður
1/2 meðalstór rauðlaukur, grófsaxaður
1 kínverskur hvítlaukur (samsvarar ca. 4-5 rifjum af venjulegum hvítlauk), sneiddur
1 lítil paprika
1/4 bréf beikon (má sleppa, en gefur svolítið je ne sais qua-bragð)

ca. 2/3 bolli af hálfþurru hvítvíni (má nota rauðvín, en bragðið verður þá annað (en jafngott))
ca. 1 bolli af vatni (það má breyta hlutföllunum, t.d. hef ég notað tómt vín og tómt vatn, en finnst blanda koma best út)
sletta af sojasósu (má sleppa)

Römertopf-potturinn bleyttur eftir kúnstarinnar reglum (15 mínútur á kafi í vatni). Kjötið kryddað og sett í pottinn ásamt öllu hinu. Bakað undir loki í ca. 2 klukkustundir. Borið fram með kartöflumús og salati.

04 september, 2016

Uppskrift að túnfisksalati

Túnfisksalat er eitt af því sem er á boðstólum í mörgum saumaklúbbum, afmælisveislum og kaffiboðum. Ég hef orðið vör við að sumum finnst þeir ekki búa til nógu gott túnfisksalat, og því er hér ítarleg uppskrift ásamt pælingum um gæðamál.

Trixið við að gera gott túnfisksalat er að:
a) nota réttan túnfisk. Stykkin ættu að vera eins heil og hægt er í dósinni og lítið af sundurtættum túnfisktrefjum sem líta út eins og hárflóki. Bragðið þarf líka að vera gott - ég keypti t.d. um daginn First Price túnfisk og endaði með að henda honum, enda var hann bæði loðinn og bragðlítill,
b) ná eins miklu af vökvanum úr fiskinum og hægt er svo að salatið verði ekki lapþunnt eða skilji sig jafnvel,
c) ná réttu hlutfalli af lauk og eggjum á móti túnfisknum,
d) nota krydd og
c) (mjög mikilvægt) að missa sig ekki alveg í majónesinu.

Svona bý ég til einfalt túnfisksalat:

  • 1 dós af túnfiski í soði (ekki nota fisk í olíu, því þá kemur olíubragð af salatinu)
  • 1 stórt harðsoðið egg
  • 1/2 meðalstór rauðlaukur eða 1/4 gulur laukur (sá rauði er betri), eða 2 skallottlaukar
  • majónes eftir smekk (giska á að ég noti ca 1/3 til 1/2 litla dós af Gunnars majónesi, eða samsvarandi af Bónus eða Heinz majónesi)
  • Aromat-krydd
  • hvítlauksduft
  • svartur pipar, nýmalaður


Ég mæli með að nota túnfisk sem er í heilum stykkjum í dósinni en ekki vesældarlegar trefjar syndandi í soði.

Setjið ca. 2 msk af majónesi í skál. Kryddið með dassi af Aromati, hvítlauk og pipar og hrærið vel saman þar til majónesið er kekkjalaust. Smakkið til.

Takið harðsoðna eggið og sneiðið í eggjaskera, snúið um 90° og sneiðið þvert á fyrri sneiðinguna. Setjið í skálina með majónesinu og saxið eggið og hrærið því varlega saman við majónesið með gaffli þar til rauðan er runnin saman við majónesið og hvítan er í litlum bitum. Bætið við ögn af majónesi ef þarf.

Losið lokið af túnfiskdósinni og látið það liggja ofan á fiskinum í dósinni. Hvolfið dósinni yfir eldhúsvaskinum og látið soðið renna úr henni undan lokinu. Þegar það hættir að renna, haldið þá á dósinni með báðum höndum og þrýstið þéttingsfast með báðum þumalputtum á lokið til að kreista eins mikið af soðinu úr fiskinum og hægt er. Þetta er mikilvægt til að salatið verði ekki vatnskennt, og svo getur komið hlandbragð af því ef það fær að standa þegar það er of mikið soð saman við.  

Brjótið upp bitana í dósinni í minni bita með gaffli og skellið saman við majónes-eggjablönduna. Hrærið saman með gafflinum og brjótið fiskbitana niður þar til engir bitar eru eftir, bara grófar flögur. Bætið við majónesi eftir þörfum til að auðvelda verkið.

Fínsaxið loks laukinn og hrærið saman við. Smakkið til með Aromati og kryddum. Berið fram með saltkexi eða sneiðum af snittubrauði. Gott er að láta salatið taka sig í 1-2 klukkutíma (í kæli) fyrir notkun. Þolir geymslu í kæli fram á næsta dag eða jafnvel lengur ef það hefur ekki staðið lengi við stofuhita.

Þetta salat er líka fyrirtaks fylling í lefsur eða tortillur, þá smurt á, rúllað upp og sneitt til að búa til snittur. Líka mjög fín fylling í bakaðar kartöflur. 

Tilbrigði: 

  • notið maísbaunir í staðinn fyrir lauk
  • Kjúkingasalat: notið maísbaunir í staðinn fyrir lauk, sleppið eggjunum og notið smátt saxaðan kjúkling í staðinn fyrir túnfisk


28 ágúst, 2016

Fylltar kjúklingabringur

Ég er búin að vera að fikra mig áfram með þessa uppskrift. Mér datt fyrst í hug að nota gráðost í hana, en þegar til kom að prófa hugmyndina átti ég hann ekki til og nennti ekki út í búð eftir honum og greip í staðinn bita af Pecorino Romano-osti. Pecorino Romano er ítalskur sauðaostur sem minnir á Parmigiano-Reggiano-ost (Parmesan), og reyndar má nota hann í staðinn fyrir Pecorino. Þetta reyndist snilldarráð og þegar ég prófaði uppskriftina svo seinna með gráðosti þá ákvað ég að hún væri betri með Pecorino en gráðostinum.

Fyrir tvo.

2 kjúklingabringur
--
8-10 döðlur, ferskar eða þurrkaðar, steinlausar, saxaðar í litla bita (það er auðveldara að saxa þær ef þær eru þurrkaðar)
2 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
6 litlar eða 4 stórar ræmur af beikoni, hverri skipt í 8 (litlar) eða 12 (stórar) bita
--
1 msk fínrifinn Pecorino Romano eða Parmesan ostur
2 ræmur af beikoni, heilar (eða skipt í tvennt ef þær eru stórar)
--
kjúklingakrydd
salt og pipar
--
ca. 1 dl. hvítvín (þurrt eða hálfþurrt) EÐA vatn EÐA kjúklingasoð
--
trétannstönglar eða mjóir grillpinnar (eða sláturgarn)

Stillið ofninn á 180°C (blástursofn) eða 190°C (undir- og yfirhiti).

Takið kjúklingabringurnar og skerið inn í þær frá hlið til að búa til "vasa" í þeim miðjum. Hafið vasana eins stóra og hægt er án þess að skera í gegn og hafið gatið eins lítið og hægt er. Hérna er mynd sem sýnir tæknina. Líka er hægt að "fletja" bringurnar með buffhamri og rúlla fyllingunni innan í þær, en mér finnst það óþarfa aukavinna.

Blandið saman döðlunum, ostinum og beikoninu (þarf ekki að vera mjög vel blandað). Skiptið í tvennt og troðið varlega inn í kjúklingabringurnar. Ef eitthvað gengur af þá er því stráð í kringum bringurnar í ofnfatinu. Lokið bringunum með tannstöngli eða grillpinna, eða saumið saman með sláturgarni.

Kryddið bringurnar í bak og fyrir með salti, pipar og kjúklingakryddi og leggið í smurt ofnfast fat. Stráið yfir þær rifnum osti og leggið beikonræmur yfir.

Stingið inn í ofninn og bakið í 40 mínútur. Mjög þykkar bringur gætu þurft 5 mínútur til viðbótar.

Berið fram með hrísgrjónum eða kúskús, og fersku salati. Gott að drekka hvítvín með.

Tilbrigði:
  • virkar líka vel með skinku í stað beikons...
  • ...eða þurrkuðum apríkósum í stað daðlna
  • prófið aðra osta, t.d. ætla ég næst að prófa feta