17 maí, 2011

Ungverskt gúllas


Gúllas er oft kennt við Ungverjaland, en reyndar eru kássur eða þykkar súpur með þessu nafni þekktar í nágrannalöndunum og fleiri Evrópulöndum, svo sem Tékklandi, Slóvakíu, Austurríki, Þýskalandi, Slóveníu, Króatíu, Póllandi og Ítalíu. Uppskriftirnar eru fjölbreyttar, en flestar eiga sameiginlegt að innihalda að minnsta kosti papriku og kjöt.

Þetta er þykk og bragðmikil kássa, frábær til að fá í sig yl eftir að hafa verið úti í köldu veðri.Það tekur talsverðan tíma að elda hana, en hún er vel þess virði.

Matreiðslubók: The Spice Cookbook eftir Lillie Stuckey and Avanelle Day. Útg. 1964.
Fyrir: 5-6 manns.
Tími: 100-130 mínútur.

EFNI:

1. Umferð:
1 kg. nautakjöt (gúllasbitar)
2 msk. shortening-feiti (í staðinn má nota svínafeiti (lard) eða Palmín/kókosfeiti í sama magni, eða 2 msk. plús 1. tsk. af smjöri eða smjörlíki)
2 meðalstórir laukar, þunnt sneiddir

2. Umferð:
1 tsk. salt
1/2 tsk. nýmalaður svartur pipar
2 tsk. ungverskt paprikuduft
1/8 tsk. Cayenne-pipar (sleppið til að fá mildari kássu, aukið til að búa til sterka kássu eða chilli)
1 bolli vatn

3. Umferð:
3 meðalstórar kartöflur, skornar í 8 ca. jafnstóra parta (skorin í helming, aftur í helming, og hver biti í helming)
1/3 bolli græn paprika, söxuð í ca 1 cm bita

4. Umferð:
1 tsk. Ungverskt paprikuduft

AÐFERÐ:

1. Umferð:
Fituhreinsið kjötið, og ef þarf takið stærri bitana og skerið í teninga, ca. 2,5 cm á kant. Bræðið helminginn af feitinni á djúpri pönnu eða í potti og brúnið kjötið á allar hliðar. Takið af pönnunni, setjið restina af feitinni á pönnuna og steikið laukinn við lágan hita þar til hann tekur á sig ljósbrúnan lit. Setjið kjötið aftur á pönnuna.

2. Umferð:
Bætið öllum innihaldsefnum 2. umferðar á pönnuna og mallið undir loki þar til kjötið er meyrt. Ef gúllasbitarnir eru af meyrari parti skepnunnar þarf þetta ekki að taka lengur en klukkustund, en getur tekið upp undir 90 mínútur ef kjötið er seigt.

3. Umferð:
Setjið innihaldsefni merkt 3. Umferð út í kássuna og mallið í 30 mín. í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru gegnsoðnar.

4. Umferð:
Bætið paprikuduftinu út í og blandið vel. Smakkið til með salti og pipar ef þarf.

Berið fram heitt með salati og hrísgrjónum eða ungverskum soðkökum (dumplings).

Athugasemdir:

Það er líka hægt að gera þessa kássu með lamba- eða kindaskönkum, en hún verður ekki eins bragðmikil.

3 ummæli:

  1. Sælinú.

    Ég þekki þig ekki neitt, veit faktískt ekkert hver bloggar, en ég gúgglaði ungverskt gúllas og fann þig. Vildi bara segja að þetta bragðaðist dásamlega! :)

    kv
    Lovísa

    SvaraEyða
  2. Flott, gott að vita að einhver er að nota uppskriftirnar.

    SvaraEyða
  3. Gerði þennann dásamlega gúllasrétt fyrir stórfjölskylduna í gær. Hann lukkaðist þvílíkt vel og ég á pottþétt eftir að gera hann aftur. Ég fann þennann rétt þegar ég gúgglaði ungverskt gúllas. Takk kærlega. Kristín

    SvaraEyða

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.