Þetta er gómsæt og flott kaka sem er eiginlega líkari konfekti en köku og jafnast hiklaust á við það besta sem fæst hjá konditormeisturum. Hún er þétt og frekar blaut í sér, með ljúfu súkkulaði- og heslihnetubragði, og mjög drjúg, því að ein lítil flís dugir flestum, svo magnað er bragðið. Það er talsvert fyrir henni haft, en vel þess virði.
Haldiði að ég hafi ekki bara hreinlega gleymt að taka mynd af kökunni? Jú, einmitt, en ég þori að fullyrða að mér hefur aldrei tekist svona vel upp með að skreyta köku, enda er hún mjög látlaus og engar krúsidúllur á henni, bara slétt krem og nokkrar heslihnetur til skrauts.
Hér er tengi á mynd af annarri súkkulaði-heslihnetuköku sem lítur eins út
Matreiðslubók: The Silver Palate Cookbook
[Mínar athugasemdir eru í hornklofum]
Í kökuna:
4 egg, rauður og hvítur aðskildar
1 bolli strásykur
115 g ósætt súkkulaði [það virðist almennt ekki fást í matvöruverslunum, en ætti að vera hægt að fá t.d. í Vínberinu og hugsanlega í Kokku. Ég bjargaði mér með því að nota 56% súkkulaði sem er með viðbættum sætuefnum (maltitóli, inúlíni, laktitóli) en virkar ekki mjög sætt]
12 msk. (170 gr.) ósaltað smjör
1 bolli og 1 msk. kökuhveiti [það gengur að nota Kornax fjölnotahveiti]
1/4 tsk salt
3 msk mjög fínmalaðar afhýddar heslihnetur [best að útbúa um leið og heslihnetusmjörið]
Heslihnetusmjörkrem (uppskrift fylgir fyrir neðan)
Súkkulaðikrem (uppskrift fylgir fyrir neðan)
8 heilar heslihnetur (til skrauts)
Aðferð:
Þeytið saman eggjarauðurnar og sykurinn þar til blandan er þykk og ljósgulleit.
Á meðan eggin og sykurinn þeytast skal bræða saman súkkulaðið og smjörið yfir vatnsbaði og hræra stöðugt í með þeytara þar það er vel blandað og samfellt. Kælið svolítið.
Hitið ofninn í 180 °C. Smyrjið springform sem er 20 cm í þvermál [ég notaði 18 cm form og kakan varð þar af leiðandi aðeins mjórri en hærri, sem er alls ekki verra]. Leggið hring úr bökunarpappír í botninn á forminu og smyrjið pappírinn. Hveitistráið formið og pappírinn [smávegið hveiti er sett í formið og forminu snúið þannig að hveitið rennur um það og húðar það að innan; hristið afganginn úr forminu].
Hellið súkkulaðismjörhrærunni saman við eggja- og sykurhræruna og hrærið þar til rétt blandað. Hrærið hveitinu, möluðu heslihnetunum og saltinu saman við [með hrærarann í hrærivélinni á minnsta hraða, eða notið sleikju og handafl. Það má ekki ofhræra, því þá verður kakan seig].
Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið varlega saman við soppuna með sleikju.
Hellið soppunni í springformið og bankið forminu varlega niður á borðið nokkrum sinnum til að losna við loftbólur úr soppunni.
Bakið í miðjum ofni í 35-45 mínútur, eða þar til brúnirnar á kökunni eru þéttar og miðjan er bökuð en ennþá svolítið mjúk. Það gerir ekkert til þó að það komi sprungur í miðjuna. Kælið í forminu, á grind, í um 1 klukkutíma. Takið þá hringinn af forminu og látið kökuna kólna niður í stofuhita. Það er ekki hundrað í hættunni þó að toppurinn á kökunni sígi aðeins þegar hún kólnar.
Þegar hitinn er farinn úr kökunni er henni hvolft á disk, bökunarpappírinn skrældur ofan af og heslihnetusmjörkreminu smurt á hana:
Heslihnetusmjörkrem:
1 1/4 bolli heslihnetur [ég mæli með að bæta við nóg af hnetum til að fá líka þær 3 msk sem eru í kökunni – annað er tvíverknaður. 1/4 bolli til viðbótar ætti að duga]
5 msk maíssýróp (corn syrup) [ef ekki tekst að finna það, þá má nota gullið sýróp í staðinn í sama magni, en þá geta komið sykurkristallar í kremið þegar það er kælt. Það ætti samt að vera í lagi við stofuhita]
2 msk koníak/brandí
1 bolli flórsykur
4 msk ósaltað smjör, við stofuhita
Ristið heslihneturnar á bökunarplötu við 180 °C í 10 til 15 mínútur. Ef þær eru með hýði eru þær hitaðar þar til hýðið hefur losnað og síðan settar í handklæði og nuddaðar þar til hýðið losnar af [það er mjög erfitt að ná öllu hýðinu af þeim og því mæli ég með að kaupa þær afhýddar, en þar þarf samt að hita þær].
Setjið hneturnar heitar í matvinnsluvél og hakkið þær vel. Þegar komið er fíngert mjöl eru þessar 3 msk sem eru notaðar í kökuna teknar frá. Það sem eftir er unnið áfram í vélinni þar til komið er mauk með áferð sem minnir á jarðhnetusmjör.
Hnetusmjörið er sett í skál og sírópinu hrært saman við ásamt koníakinu. Látið standa í 20 mínútur. Það má útbúa þetta fyrir fram og geyma í ísskáp, en þá verður að láta það standa og ná stofuhita fyrir notkun.
Sykur og smjör eru nú hrærð saman þar til blandan er létt og ljós. Hnetusmjörinu er síðan blandað vel og vandlega saman við.
Kreminu er smurt í frekar þunnu og jöfnu lagi á hliðarnar á kökunni og þykkara lag ofan á hana. Síðan er hún kæld í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur. Síðan er komið að súkkulaðikreminu:
Súkkulaðikrem:
4 msk ósaltað smjör
115 gr hálfsætt, dökkt súkkulaði [ég notaði venjulegt Síríus Konsúm en get ímyndað mér að 50% eða 70% Konsúm væri gott]
3 msk rjómi
Ca. 2/3 bolli sigtaður flórsykur [sem sagt sigtaður ofan í bollamálið]
1 tsk vanilludropar
Bræðið saman smjörið og súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærið stöðugt í á meðan með þeytara þar til blandan er brædd og vel samfelld.
Takið af hitanum og pískið rjómann saman við. Sigtið flórsykurinn saman við og hrærið vel saman þar til sykurinn er bráðinn og kremið er mjúkt og samfellt. Bætið vanilludropunum saman við og blandið vel.
Takið kökuna með smjörkreminu úr kælinum og hellið kreminu ofan á hana og smyrjið kökuna með því. Vinnið hratt því að kremið byrjar að storkna um leið og það kemst í snertingu við kalda kökuna [hún verður að vera köld til að smjörkremið bráðni ekki saman við súkkulaðikremið]. Reynið að hafa kökuna eins slétta og hægt er.
[Það er hugsanlegt að þetta reynist vera svolítið of mikið krem – það var það hjá mér. Ég leyfði því bara að leka niður hliðarnar á kökunni- það var alveg nóg eftir utan á henni. Síðan lét ég kökuna í kæli og tók hana út þegar kremið var storknað, skar kremklessurnar á diskinum frá kökunni með beittum hníf og skóf þær af diskinum. Síðan fór ég með þunnan spaða undir kökuna og lyfti henni varlega upp og flutti hana yfir á hreinan disk. Að lokum hitaði ég hníf í heitu vatni, strauk af honum rakann og sléttaði neðri kantinn á kökunni þar sem ég hafði skorið umframkremið frá henni.]
Að lokum er heslihnetunum 8 raðað hringinn meðfram brúninni á kökunni með jöfnu millibili.
Best er að kakan sé við stofuhita þegar hún er borin fram, því hún er þétt og kremið verður hart í kæli og það verður erfitt að skera hana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.