07 maí, 2011

Bananabrauð

Hér er ein einföld og góð. Þetta bananabrauð verður alveg hæfilega þétt, ekki of sætt og með góðu en ekki yfirþyrmandi bananabragði. Ég fann hana í matreiðslubók sem ég er búin að losa mig við, og því verður ekki fjallað nánar um hana hér.

Efni:
  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. matarsódi
  • 3 vel þroskaðir bananar. Þeir verða að vera orðnir að minnsta kosti 50% svartir til að brauðið verði gott.
  • 2 egg
  • 3/4 bolli grófsaxaðar hnetur (má sleppa). Ég hef prófað valhnetur, pekanhnetur og kajsúhnetur, og þær komu allar vel út, pekanhneturnar þó einna best.
  • 1/2 bolli súkkulaðispænir (má sleppa). Þetta nota ég bara í spariútgáfuna.
Aðferð:
Blandið saman þurrefnunum. Flysjið bananana og stappið þá vel. Hrærið eggin í hrærivél þar til þau byrja að freyða. Setjið bananana út í og blandið vel. Bætið þurrefnablöndunni smám saman út í og blandið vel saman. Endið á hnetunum og/eða súkkulaðinu, ef notað. Hættið að hræra um leið og búið er að blanda öllu saman.

Hellið í smurt formkökuform (ég mæli með að kaupa sílikonform, það þarf ekki einu sinni að smyrja þau, og það brúnast allt svo fallega sem er bakað í þeim) og bakið við meðalhita í um 1 klst. 175 °C henta fyrir venjulegan ofn, en í blástursofninum mínum rís hún of mikið í miðjunni á þessum hita og því baka ég hana við 160 °C í 70 mín. Prófið með prjóni eftir klukkustund og ef hann kemur út klístraður, bætið þá við 10 mín. og prófið þá aftur.

Berið fram með smjöri. Mér finnst líka gott að fá mér ost á þetta brauð.

2 ummæli:

Hæ!
Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir (líka réttmæta gagrýni) en mér er illa við ruslathugasemdir (spam) og því þarf að slá inn staðfestingarorð. Ég skoða síðan það sem þú hefur að segja og ef það er fullgild og réttmæt athugasemd, þá birtist hún fljótlega. Það er hins vegar sama hversu vinsamleg og full af hrósi athugasemdin er: ef í henni er krækja (linkur) á einhverjar auglýsingasíður eða klám, þá birti ég hana ekki.
Takk.