08 júlí, 2013

Bananar í romm-karamellusósu


Þessi uppskrift er byggð á uppskrift að frægum eftirrétti, Bananas Foster.

Ég neyddist til að einfalda hana af því að ég átti ekki bananalíkjör og tímdi ekki að kaupa hann bara fyrir eina uppskrift. Ég gleymdi hreinlega líka að það er kanill í upprunalegu uppskriftinni, en ætla að prófa að hafa hann með næst.

Þetta dugir í matarmikinn eftirrétt fyrir 2.

2 msk smjör
1/4 bolli dökkt romm
1/3 bolli púðursykur, þjappaður
2 bananar
vanillurjómaís

Takið ísinn úr frystinum til að láta hann mýkjast, ca. 10 mínútum áður en bera á réttinn fram. Hann á að vera aðeins byrjaður að mýkjast en ekki að renna út. Eins og sjá má á myndinni urðu smá tafir hjá mér og ísinn var orðinn helst til mjúkur þegar myndatakan hófst, og ekki batnaði það þegar heit sósan kom út á.

Setjið smjörið, rommið og púðursykurinn saman á pönnu (það má nota pott ef ekki á að flambera) og látið suðuna koma upp við lágan hita. Hrærið vel saman þegar smjörið er bráðið og látið malla þar til sósan hefur er vel runnin saman og hefur þykknað aðeins (5-7 mínútur).

Flysjið bananana og skerið í helminga, fyrst þversum og síðan eftir endilöngu. Setjið í karamellusósuna og látið hitna í ca. 2 mínútur. Bananarnir eiga alls ekki að soðna, heldur eiga þeir bara að hitna í gegn.

Nú má kveikja í réttinum (flambera hann). Það er alls ekki nauðsynlegt, en virkar mjög flott á gesti. Gætið þess bara að kveikja ekki í húsinu, því logarnir geta orðið meiri en maður býst við. Setjið ísinn í skálarnar áður en flamberingin fer fram.

Til að flambera: Berið eld að sósunni og látið loga í smástund. Það ætti að slokkna í henni af sjálfu sér en hafið lokið tilbúið til að skella því yfir pönnuna ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Ef ekki vill kvikna í sósunni má hella 1 msk. af rommi ofan á hana og láta rommið hitna í ca. 2 mínútur áður en kveikt er í.

Skafið ísinn í skálar, leggið fjögur bananastykki ofan á ísinn í hvorri skál og skiptið sósunni jafnt á milli skálanna. Berið fram strax.

Athugasemdir:
  • Þetta er bragðmikill og frekar sætur eftirréttur. 
  • Af því að það varð afgangur af sósunni prófaði ég hana út á niðursoðnar apríkósur sem ég átti afgang af inni í ísskáp og sósan fór mjög vel með svolítið súru, skörpu bragðinu af apríkósunum. 
  • Ég ímynda mér líka að þetta væri gott með Jonagold eplum, kirsuberjum eða bláberjum.
  • Svo er sósan líka góð ein og sér út á ís, sérstaklega ef maður hefur fyrir því að láta hana þykkna aðeins meira þannig að úr verður síróp, en gætið þess samt að brenna hana ekki. 

30 júní, 2013

Appelsínukjúklingur með austrænum keim, fyrir einn


Mig langaði í appelsínukjúkling í hádeginu og af því að ég átti kjúklingabringu, appelsínumarmelaði og appelsínusafa ákvað ég að slá til og elda réttinn.


Ég tel mig vera nokkuð glúrna í að minnka uppskriftir, en í gær nennti ég því ekki og ákvað að gera frá grunni mína eigin uppskrift sem hentar fyrir einn. Hún heppnaðist það vel að ég ákvað að birta hana hérna.



Uppskriftin:

  • 1 beinlaus kjúklingabringa, þerruð og skorin í tvennt langsum, og síðan í ca. 1,5 cm þykka strimla
  • Blanda af 2 msk hveiti með salti og nýmöluðum svörtum pipar eftir smekk (ca. 1/2 tsk salt og 1/8 tsk pipar hentar vel)
  • 1 msk steikingarolía eða -feiti (ég notaði ósaltað smjör)
  • 1 skallottlaukur*, skorinn í tvennt langsum og síðan í mjóar ræmur þversum
  • 1/4 rauð paprika, söxuð í ca. 0,5 cm bita (má nota meira eða minna eftir smekk eða sleppa alveg)
  • Sósa: 1/4 bolli appelsínumarmelaði, 2 msk appelsínusafi**, 2 msk sojasósa og 1 msk hunang***, hrært vel saman

Olían/feitin hituð á pönnu. Á meðan er kjúklingabitunum velt upp úr hveitiblöndunni.

Laukurinn og paprikan sett á pönnuna og svissað þar til laukurinn er mjúkur (1-2 mínútur). Tekið af pönnunni. Hitinn lækkaður, kjúklingurinn settur á pönnuna og brúnaður við meðalhita.

Hitinn lækkaður og laukurinn og paprikan sett á pönnuna ásamt sósunni. Hrært vel saman. Mallað undir loki við lágan hita í 10 mínútur og 5 mínútur til viðbótar með lokið af til að þykkja sósuna. Ef bringan er mjög stór og þykk gæti þurft 5 mín suðu til viðbótar.

Sósan á ekki að vera mjög þykk. Gætið þess að hún getur brunnið auðveldlega út af hunanginu og sykrinum í marmelaðinu. Ef hún þykknar mikið áður en kjúklingurinn er gegnsoðinn má þynna hana með appelsínusafa. Ef hún aftur á móti er lapþunn þegar kjúklingurinn er gegnsoðinn má veiða kjúklingabitana upp úr henni og þykkja hana síðan með smá Maizena-mjöli eða ögn af kartöflumjöli sem er hrært út í vatni og síðan saman við sósuna og látið sjóða í ca. 1 mínútu. Smakkið til með salti og pipar ef þarf.

Borið fram með soðnum hrísgrjónum og salati.

Lærdómur og athugasemdir:
*Prófa blaðlauk eða vorlauk í staðinn fyrir skallottlauk.
**Appelsínubragðið er milt og gott, en til að fá meira kikk í sósuna mætti prófa að setja svolítið af rifnum appelsínuberki í hana til að fá meira appelsínubragð. Passa sig samt, því hún gæti orðið römm ef maður notar of mikið.
***Hunangið má ekki vera beiskt, því beiskjubragðið magnast við suðu og getur skilið eftir sig leiðinlegt eftirbragð, eins og ég lærði af biturri reynslu þegar ég var að prófa aðra uppskrift. Það var vottur af beyskju af sósunni, þannig að næst ætla ég að prófa pálmasykur eða púðursykur í staðinn fyrir hunang.



16 júní, 2013

Heitir og sætir beikonvafðir kjúklingabitar

Smellið á myndina til að stækka hana
Ég smakkaði eitthvað svipað og þennan rétt í samkvæmi fyrir nokkru síðan en gleymdi að biðja um uppskrift. Það reyndist aftur á móti ekki erfitt að finna út úr uppskriftinni. Það eina sem ég breytti var að ég nota langtum minni chili-pipar en var í réttinum eins og ég smakkaði hann fyrst. (Ekki að mér þyki chili ekki gott eða þoli það ekki, mér finnst bara oftast betra að finna meira bragð af matnum en bara chili-bruna).

Þetta er flottur smáréttur til að bera fram t.d. í Júróvisjón-partýum eða saumaklúbbum, eða bara í sunnudagsmatinn þegar mann langar í eitthvað gott en nennir ekki að vera að hafa mikið fyrir matnum.

Þessi uppskrift dugir í aðalrétt fyrir einn eða sem forréttur fyrir 3 til 4.

1 kjúklingabringa
1 lítið bréf beikon
ca. 0,8 dl púðursykur (hellið honum í dl-málið og leyfið honum að síga niður í það undan eigin þunga. Ekki þjappa.)
1/4 tsk cayenne-piparduft (meira eða minna eftir smekk)
1/2 tsk salt
tannstönglar

Smellið á myndina til að stækka hana
Þerrið kjúklingabringuna og skerið niður í ca. 2 cm teninga. Teljið bitana og takið helmingi færri beikonsneiðar en kjúklingabita og skiptið í tvennt. Vefjið einni beikonræmu utan um hvern kjúklingabita og stingið tannstöngli í gegnum bitann til að halda beikoninu á sínum stað.

Blandið saman púðursykrinum, cayenne-piparnum og saltinu. Veltið kjúklinga-beikonbögglunum upp úr blöndunni (það gæti þurft að hjápla blöndunni til að loða við - bara þrýsta létt með puttunum) og raðið þeim á smurðan ofnrekka yfir smurðu ofnfati (t.d. lasagna-fati). Ef einhver sykurblanda er eftir er gott að strá henni jafnt yfir bitana.

Bakið við ca. 175 °C í 30-35 mínútur. Beikonið ætti að vera orðið vel brúnað og stökkt á köntunum og sykurinn bráðnaður.


Athugasemdir:
  • Rétturinn stendur einn og óstuddur án sósu eða meðlætis. Ef hann á að vera aðalréttur mæli ég þó með að bera fram með honum tómatbáta og gott brauð (t.d. hvítlauksbrauð), og að draga tannstönglana úr bitunum áður en hann er borinn fram. 
  • Ef hann er hafður mjög sterkur er gott að bera fram sýrðan rjóma með honum til að viðkvæmari gestir geti linað sviðann í munninum.
  • Ef stækka á réttinn er rétt að bæta við ca. 1/2 dl af púðursykri fyrir hverja kjúklingabringu til viðbótar og smakka sig áfram með cayennpiparinn.

26 maí, 2013

Keeme per Eenda (Nautahakk með eggjum)

Bragðgóður ofnréttur, ættaður frá Pörsum í Maharashtra-ríki á Indlandi.

Fyrir 4.


Innihald:

2 msk ghee eða matarolía
1 stór laukur, fínsaxaður
2 fersk, græn chilialdin (má sleppa ef hrifning á chili er lítil - rétturinn er nógu bragðmikill til að megi sleppa chiliinu)
2 tsk fínsaxaður engifer
-
2 tsk kóríanderduft
1 tsk kúmínduft (cumin)
1 tsk chilliduft (ef vill)
1 tsk kúrkúmaduft (túrmerik, heitir gullinrót á íslensku en fæstir virðast þekkja til þess heitis)
-
750 g lamba- eða nautahakk
-
1 vel þroskaður tómatur, flysjaður* og saxaður
1 1/2 tsk salt
1/2 bolli vatn
-
klípa af sykri (ef tómaturinn er beiskur)
-
1 msk garam masala
1 tsk fínsaxaður ferskur laufkórínader (cilantro)
-
4 egg
-
salt og malaður svartur pipar eftir smekk

*Skerið lítinn kross ofan í hýðið á tómatinum, setjið hann í skál og hellið sjóðandi vatni yfir hann, teljið upp að 10, takið tómatinn upp úr og flysjið. Hýðið ætti að nást auðveldlega af.

Aðferð:
Hitið ghee eða olíu og steikið laukinn, chilialdinin, hvítlaukinn og engiferinn þar til gullinbrúnt. Bætið við malaða kryddinu og hrærsteikið í 1 mínútu, bætið við kjötinu og brúnið það.

Bætið við tómatnum, saltinu og 1/2 bolla af vatni. Bætið við sykri (ef óskað er). Eldið undir loki þar til kjötið er meyrt og næstum allur vökvinn horfinn.


Blandið garam masala og helmingnum af laufkórínadernum saman við kássuna. Jafnið kássunni í smurt eldfast mót, gerið 4 litlar holur í kjötið og setjið hrátt egg í hverja holu. Kryddið eggin með salti og pipar.

Bakið í ofni við ca. 190 °C (180 °C ef ofninn er blástursofn) þar til eggin eru elduð. Stráið afganginum af kóríandernum yfir og berið strax fram, með paratha- eða naanbrauði.

Tilbrigði við réttinn er að stífþeyta eggjahvíturnar, hræra rauðunum saman við og krydda með salti og pipar. Þessu er síðan jafnað yfir kjötið og bakað þar til eggin eru elduð í gegn.

19 maí, 2013

Svínakjöt í rjómasósu

Þetta er eðal-spariréttur réttur sem ég elda af og til. Hann má líka gera með kjúklingi, t.d. lundum eða bringum.

Fyrir 2.

Efni:
  • smjör
  • 1/2 laukur, skorinn í ca 1/2 cm þykkar sneiðar
  • 1 bakki sveppir, skornir í tvennt og sneiddir í ca. 1/2 cm sneiðar
  • 2-300 g svínakjöt í bitum, ca. 2 cm þykkum (ég notaði svínalund, skorna í medallíur þegar ég tók myndirnar)
  • hveiti
  • salt og pipar
  • Aromat (má sleppa)
  • Töfrakrydd frá Kryddgöldrum
  • 1 dl vatn
  • 1 dl rjómi

Aðferð:
Blandið salti og kryddi eftir smekk saman við hveiti og veltið kjötinu upp úr því.

Bræðið klípu af smjöri á meðalheitri pönnu og steikið laukinn þar til hann er hálfglær og mjúkur. Takið af pönnunni og geymið. Bræðið væna klípu af smjöri á pönnunni og brúnið sveppina. Takið af pönnunni og geymið (má fara saman við laukinn).

Setjið hveitihjúpað kjötið á pönnuna og brúnið. Bætið við lauk, sveppum og vatni. Látið sjóða í 10-15 mín. eða þar til kjötið er meyrt en ekki orðið þurrt. Bætið við vatni eins og þarf en leyfið vökvanum að sjóða niður og þykkna undir það síðasta (ca. 5 mín.). Bætið við rjómanum og sjóðið í 2-3 mín. til að þykkna aðeins.

Berið fram með soðnum hrísgrjónum eða pasta og fersku salati.



12 maí, 2013

Sæt hrærð egg

Hér er smá tilbreyting frá þessari venjulegu eggjahræru sem maður fær sér stundum með árverðinum (e. brunch).

Fyrir 2:


Efni:
2 egg
4 tsk sykur
1 tsk steikingarolía
1/8 tsk kardimommuduft
2 msk rjómi

olía til steikingar (ef þarf)

2 brauðsneiðar
smjör

Aðferð:
Hrærið eggjum, sykri, 1 tsk af olíu, kardimommum og rjóma saman með gaffli þar til sykurinn er uppleystur. Hitið pönnu við meðalhita (með ögn af steikingarolíu ef þarf) og hrærsteikið eggin þar til þau eru á því stigi sem óskað er (sumir vilja hafa þau svolítið blaut, aðrir vilja hafa þau alveg gegnelduð).

Ristið brauðið og smyrjið og berið fram með eggjahræruna ofan á brauðinu.

Upprunalega uppskriftin er indversk og er þar kölluð Ando Ka Meetha (sæt egg). Í þeirri uppskrift er sykurinn hins vegar mældur í matskeiðum, þannig að þetta verður frekar desert. Í þeirri uppskrift er heldur ekki rjómi, en mér finnst hann gera hræruna mýkri og fallegri á litinn.

05 maí, 2013

Thailenskt karamellu-svínakjöt (Caramel pork)

Þessi uppskrift að gómsætu hrærsteiktu (e. stir-fry) svínakjöti í seigri sósu kemur úr tælensku matreiðslubókinni A Little Taste of Thailand.

Best er að nota wok-pönnu til að matreiða réttinn, en líka má nota djúpa steikarpönnu.

Fyrir 4.


Efni:
  • jurtaolía til steikingar
  • 3 meðalstórir shallott-laukar (helst rauðir asískir), fínsneiddir
  •  6 hvítlauksrif, fínsöxuð
  •  500 g svínakjöt, t.d. af hnakka eða læri (ég notaði grísalund), í þunnum sneiðum [kjötið skerst  auðveldlega í þunnar sneiðar ef það er hálf-frosið]
  • 1 msk ostrusósa
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk fisksósa
  • 4 msk pálmasykur [hann er yfirleitt seldur í klumpum; til að hann leysist hraðar upp og auðveldara sé að mæla hann er gott að setja hann í þykkan plastpoka og berja hann með kökukefli þar til hann er orðinn laus í sér]
  • 1/4 tsk malaður hvítur pipar

Aðferð:
Hellið (eða bræðið, ef notuð er jurtafeiti) ca. 4-5 cm djúpri feiti á pönnu og hitið við meðalhita. Djúpsteikið laukinn þar til hann er ljósbrúnn. Gætið þess að hann brenni ekki. Takið upp úr olíunni með fiskispaða eða gataskeið og látið renna af honum á eldhúspappír.

Hellið olíunni/feitinni af pönnunni, allri nema ca. 2 msk. Hrærsteikið hvítlaukinn þar til hann er ljósbrúnn.



Setjið kjötið á pönnuna og hrærsteikið þar til það er brúnað. Bætið þá við sósunum, sykrinum og piparnum. Eldið áfram í 5 mín. eða þar til sósan hefur þykknað og hjúpar kjötið. Það þarf að hafa góðar gætur á þessu og passa hitann því sósan getur brunnið auðveldlega út af sykrinum ef hún verður of heit.

[Ef illa gengur að fá sósuna til að þykkna og hún virðist ætla að fara að brenna er örþrifaráð að þykkja hana með Maizena-mjöli. Það hefur ekki áhrif á bragðið].

Setjið á disk og stráið steikta lauknum yfir. Gott með soðnum hrísgrjónum.




27 apríl, 2013

Kólumbísk nautakjötskássa/súpa

Þetta er ljúffengur réttur sem ég fann í The Spice Cook Book. Þar sem sú bók er amerísk get ég ekki ábyrgst að þetta sé ekta kólumbísk uppskrift, en rétturinn er góður.

Fyrir 6-8. Rómversku tölurnar í innihaldslistanum vísa til þess hvenær setja á það sem er undir þeim út í súpuna.

Innihald:
I. 
1 kg nautagúllasbitar, ca. 2,5 cm teningar
1 lárviðarlauf
1/2 tsk kúmínfræ (cumin)
6 heil svört piparkorn
1/4 tsk hvítlauksduft
2 tsk salt
1 tsk eplaedik
3 bollar vatn
II.
2 meðalstórar kartöflur
2 meðalstórar gulrætur
4 langar sellerístangir
4 maískólfar, skornir í 5 cm þykkar skífur
1/2 bolli laukur, sneiddur
1/2 bolli ferskir tómatar í bitum
III.
1/2 tsk mulið saffran
1/2 tsk þurrkað oreganó
1/2 bolli ferskar baunir

Aðferð:
I. Fituhreinsið kjötið. Setjið í pott sem tekur a.m.k. 3 lítra, ásamt öllu sem er undir lið I. á listanum. Mallið undir loki í 1 klst. eða þar til kjötið er næstum orðið meyrt.
II. Skrælið kartöflurnar og þvoið gulræturnar og skerið bæði í ca. 1,5 cm breiðar ræmur og setjið í pottinn. Skerið selleríið í ca. 1,5 cm breiða bita og setjið ásamt hinu grænmetinu í pottinn. Sjóðið áfram undir loki í 15 til 20 mínútur eða þar til grænmetið er að verða meyrt.
III. Hrærið saffranið út í 1 tsk af vatni og setjið út í ásamt óreganó og baununum. Hrærið vel saman og gætið þess að skaða ekki grænmetið. Sjóðið í 5 mín undir loki.

Berið fram í súpudiskum með 2-3 skífum af maískólfum sem búið er að reka tannstöngla í (eða maísgaffla).


22 apríl, 2013

Einföld steikt hrísgrjón

Á mínu heimili er stöku sinnum aðkeyptur kínamatur á borðum (Nings er nefnilega í næsta nágrenni). Ég næ aldrei að klára nema lítið af hrísgrjónunum sem fylgja með þessum mat og hef nýtt þau í hitt og þetta, s.s. hrísgrjónalummur, hrísgrjónagraut og steikt hrísgrjón.

Þar sem kínverskum mat fylgja yfirleitt klessugrjón (e. sticky rice) sem loða saman eins og þau hafi verið soðin í lími er nánast óhjákvæmilegt að þau verði kekkjótt, sérstaklega þegar þau kólna. Þetta er alls ekki verra þegar maður ætlar að steikja þau, því þá er auðveldara að borða þau með matprjónum.

Af því að þetta er afgangaréttur ætla ég ekki að gefa nákvæm mál, bara um-það-bil mál:

  • ca. 1. bolli af köldum soðnum hrísgrjónum
  • ca. 2 msk. steikingarfita, t.d. smjör, sesamolía eða sólblómaolía. Það kemur hlutlausast bragð af þeirri síðustu og sesamolían er mest afgerandi. Ég mæli ekki með ólífuolíu. Ef stækka á uppskriftina, aukið þá olíuna um ca. 1. msk fyrir hvern bolla af hrísgrjónum.
  • salt og pipar
  • 1 egg, rauða og hvíta hrærðar vel saman, má jafnvel þeyta þær smávegis til að fá í þær lyftingu

Hitið olíuna á pönnu (gott að nota wok, en alls ekki nauðsynlegt).

Hrærið í hrísgrjónunum með gaffli til að losa þau svolítið í sundur.

Setjið grjónin á pönnuna þegar olían er heit og lækkið hitann í meðalhita. Hrærsteikið grjónin á pönnunni og ef með þarf má minnka kögglana með því að brjóta þá varlega í sundur með steikingarspaðanum. Steikið þar til öll olían er gengin upp í hrísgrjónin og þau eru heit í gegn. Kryddið. Nú er smekksatriði hvort eggið er sett saman við strax eða grjónin steikt þar til þau byrja að brúnast.

Hellið eggjahrærunni saman við grjónin og hrærsteikið áfram þar til eggjahræran húðar grjónin og er elduð í gegn (virkar þurr að sjá).

Berið fram eins og það kemur fyrir, eða ef þið viljið má sulla sojasósu út á, nú eða þá sætri chilisósu, en það er alls ekki nauðsynlegt.

Þetta er bara grunnuppskrift. Það má bæta ýmsu við hrísgrjónin, t.d. mætti gera carbonara-hrísgrjón, eða setja baunir saman við, eða saxaðan graslauk, eða bara hvað sem mann langar til.

24 mars, 2013

Hello Dolly kaka


Af því að uppáhalds páskaeggin mín (þessi frá Mónu) eru ekki lengur framleidd, þá er ég að hugsa um að búa til Hello Dolly skúffuköku í staðinn um páskana.

Þetta augljóslega bandaríska fyrirbæri er eiginlega ekki kaka, a.m.k. er ekkert lyftiefni í henni og það þarf bara að blanda saman efninu í botninn á henni. Hinu er bara stráð ofan á botninn í lögum. Hún er svo auðveld að barn sem kann á dósaupptakara og hitastillingar á ofni gæti búið hana til. Hún er dísæt og það er afar erfitt að hætta að borða hana þegar maður er einu sinni byrjaður.

Ekki veit ég hvaðan nafnið er komið, en mér finnst það geta bent til þess að kakan hafi orðið til um það leiti sem söngleikurinn (árið 1964) eða kvikmyndin (árið 1969) með sama nafni náði vinsældum westan hafs. Hún er stundum kölluð 7-laga kaka, sem er misnefni, því lögin eru bara 5, þó að innihaldsefnin séu sjö.


Þessi uppskrift fyllir upp í ca. 15x20 cm bökunarform, frekar djúpt.
  • 1,5 bolli mulið grahamskex
  • 1/2 bolli smjör
  • 1/4 bolli sykur (má sleppa - kakan er alveg nógu sæt þó maður bæti ekki sykri í hana)
  • 1,5 til 2 bollar súkkulaðibitar (þú ræður hvaða tegund þú notar, en ég er hrifin af Síríus Konsum) 
  • EÐA 1 bolli súkkulaðibitar og 1 bolli Butterscotch-bitar eða Peanut Butter-bitar (hafa stundum fengist í Hagkaupum og sennilega líka í Costco)
  • 1 bolli grófsaxaðar valhnetur eða pekanhnetur
  • 1 bolli kókosmjöl
  •  1 dós sæt, niðursoðin mjólk (sweetened condensed milk) - ég hef ekki kynnt mér í hvaða almennu matvöruverslunum hún fæst (held þó að hún fáist í Hagkaupum), en þú færð hana örugglega í einni af asísku matvörubúðunum í Reykjavík, s.s. Asian Market, Vietnam Market eða Mai Tai (smelltu hér til að sjá mynd af dósunum - það er Nestlé Carnation sem er algengast að fáist)

 Hitið ofninn í 180 °C. Bræðið smjörið og hrærið kexmylsnunni (og sykrinum, ef hann er notaður) saman við. Smyrjið bökunarformið og þjappið mylsnublöndunni í botninn. Ekki þjappa of fast, því þá verður botninn grjótharður og situr eftir þegar bitarnir eru teknir upp úr forminu.

Stráið hnetunum yfir botninn, síðan súkkulaðibitunum (og Butterscotch/Peanut Butter-bitunum, ef þú notar þá) og loks kókosmjölinu. Hellið mjólkinni yfir í jöfnu lagi.

Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til mjólkin er orðin að karamellu og kókosmjölið er farið að brúnast.

Takið út, látið kólna og skerið í ferninga (best er að skera kökuna við stofuhita). Ekki er verra að bera þetta nammi fram með kaffi og þeyttum rjóma.

Nægir til að koma einum temmilegum saumaklúbb í sykurvímu eitt kvöld.


17 mars, 2013

Bjórlöguð kartöflusúpa

Þetta er góð og seðjandi kartöflusúpa sem ég prófaði í fyrsta skipti núna um helgina. Í upprunalegu uppskriftinni eru fyrirmælin að mauka 1/3 af kartöflunum til að þykkja hana, en mér fannst hún í þynnra lagi þannig og endaði með að mauka hana meira þegar ég borðaði afganginn í hádeginu í dag. Hún var enn í þynnri kantinum, en góð er hún á bragðið.
Kannski eru kartöflurnar sem ég notaði ekki jafn mjölmiklar og þær sem höfundur uppskriftarinnar notaði?
Súpa þessi er ennþá betri daginn eftir að hún er búin til.

Matreiðslu- og undirbúningstími: um 1 klst
Nægir fyrir 4-6 manns

  • 4 bollar kjúklingasoð (úr soðkrafti eða tilbúið frá grunni)
  • 3 stórar rauðar kartöflur, flysjaðar og skornar í ca. 1,5 cm bita, eða 2 meðalstórar bökunarkartöflur
  • 1 msk Dijon-sinnep
  • 225 g beikon, vel feitt, í sneiðum eða kurlað
  • 2 gulrætur, skornar í ca. 1 cm bita (á að gera ca. 1 bolla)
  • Gróft salt og nýmalaður svartur pipar
  • 2-3 sellerístangir, skornar í ca. 1 cm bita (á að gera ca. 1 bolla)
  • 2 lárviðarlauf
  • Lítið búnt af fersku garðablóðbergi (timían), bundið saman með girni
  • 1 púrrulaukur, hvíti hlutinn, skorinn í 1 cm bita (á að gera ca. 1 bolla)
  • 1 bolli ljós bjór eða pilsner
  • 1/4 bolli saxaður ferskur graslaukur

Takið 2 bolla af kjúklingasoðinu og helminginn af kartöflubitunum og setjið í pott. Látið suðuna koma upp og sjóðið við hægan hita þar til kartöflubitarnir eru rétt gegnsoðnir (ætti að taka um 8-10 mínútur). Setjið sinnepið saman við og maukið allt saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota.

Á meðan kartöflurnar sjóða skal steikja beikonið við meðalhita í stórum súpupotti þar til það er stökkt og mest öll fitan er runnin af því. Beikonið er þá tekið úr pottinum og látið á pappírsþurrkur til að láta renna af því. Hellið beikonfeitinni úr pottinum en látið ca. 3 msk. verða eftir. (Ef illa gengur að fá beikonið stökkt án þess að brenna það er gott að steikja það vel, láta renna af því, saxa það og steikja síðan aftur. Eða bara nota beikonkurl).


Hækkið hitann upp um einn og setjið gulrótarbitana í pottinn. Stráið yfir salti og pipar og steikið í ca. 3 mín. og hrærið í við og við á meðan. Bætið þá út í kartöflubitunum, selleríinu, lárviðarlaufunum, púrrunni og blóðberginu og kryddið með salti og pipar. Eldið í um 5 mín. og hrærið í af og til.

Hellið þá bjórnum saman við og látið suðuna koma upp. Sjóðið (það má bullsjóða) bjórinn niður þar til þið finnið að grænmetið vill festast lítillega við botninn á pottinum. Þá ætti að vera eftir rétt rúm botnfylli af vökva í pottinum. Þetta gætið tekið frá 5 mín. og upp í 10-12 mín.

Hellið nú afganginum af soðinu saman við ásamt kartöflumaukinu og hrærið saman. Lækkið hitann og látið malla í opnum pottinum þar til grænmetið er rétt gegnsoðið (ætti að taka 6-8 mín.). Smakkið til með salti og pipar. Veiðið blóðbergið upp úr og hendið þegar hæfilegur keimur er kominn af því í súpuna.

Ausið í skálar, myljið beikonið yfir og stráið söxuðum graslauk ofan á.

Þetta er það matarmikil súpa að það ætti ekki að þurfa að bera fram brauð með henni, en aftur á móti er gott að hafa við höndina glas af kaldri mjólk til að súpa á af og til á meðan súpan er borðuð.

Ég ímynda mér að það hljóti að vera gott að elda beikon eða skinku með súpunni, en á eftir að prófa það.


11 mars, 2013

Heitt nacho-salat



Smellið til að stækka myndina
Þessi réttur er fínn til að nota upp afgang af krydduðu hakki, sérstaklega Mexíkó-krydduðu, s.s. fyrir tacos eða burritos.

Réttinn má líka gera frá grunni. Þá er byrjað á að steikja og krydda hakkið eftir kúnstarinnar reglum, hvort sem er með aðskyldum kryddum eða með tilbúinni kryddblöndu (mér finnst Santa Maria og Casa Fiesta taco-blöndurnar báðar ágætar).

Takið nachos-flögur, helst ostakryddaðar, og myljið á milli handanna niður í botninn á smurðu lasagna-formi eða bökuformi. Mylsnan þarf ekki að vera mjög fíngerð, kannski eins og kornflex eða aðeins grófari. Dreifið úr flögunum í þunnt, jafnt lag.

Smellið til að stækka myndina
Stráið hakkinu yfir í jafnþykku lagi (best er að það sjáist í flögurnar á milli). Slettið salsa-sósu yfir hér og þar, þarf ekki að vera jafnt lag, en samt nokkuð þétt, til að það komi sósa í hverja skeiðarfylli. Ef salsan er ekki mjög kekkjótt/þykk má líka setja hana í sprautuflösku og sprauta jafnt yfir. Stráið síðan rifnum osti yfir allt saman, t.d. gratínostablöndu, Mexíkóosti, piparosti eða hvítlauksosti. Þegar myndin var tekin hafði ég uppgötvað á síðustu stundu að rifni osturinn var búinn og því muldi ég fetaost yfir réttinn, sem reyndist gott.

Hitið í ofni við um 180 °C þar til osturinn er bráðnaður og byrjaður að brúnast svolítið (10-15 mínútur).

Berið fram með sýrðum rjóma og söxuðum tómötum og etv. guacamole.

Ekki er verra að drekka ískaldan Corona-bjór með.