16 desember, 2012

Sjóræningjakaka (Ávaxtakaka, Skosk jólakaka)

Það er orðið helst til seint að birta þessa uppskrift fyrir þessi jól, en það þarf ekki endilega bara að baka hana fyrir jólin.

Þetta er gömul skosk uppskrift. Á mínu heimili er hún kennd við sjóræningja, enda nota ég Captain Morgan romm í hana. Þetta er dýr kaka – ég held að efnið hafi kostað hátt í 4.000 kr. fyrir þessi jól – en vel þess virði því þetta er besta ávaxtakaka sem ég hef smakkað. Meira að segja fólki sem venjulega er ekki hrifið af ávaxtakökum þykir hún góð.

Athugið að það þarf ekki endilega að nota nákvæmlega þá ávexti sem gefnir eru í uppskriftinni. Það er fjölbreytnin og magnið sem skiptir mestu máli. Ef eitthvað finnst ekki hikið þá ekki við að nota eitthvað annað í staðinn. Gætið þess bara að það séu þurrkaðir eða sykraðir ávextir eða ávextir í sykurlegi – venjulegir niðursoðnir ávextir ganga ekki og ekki heldur ferskir ávextir. Ég gef upp í uppskriftinni það sem ég notaði í staðinn fyrir það sem ég fann ekki þegar ég bakaði kökuna síðast, en hikið ekki við að nota t.d. döðlur, þurrkuð epli, þurrkað mangó eða sveskjur. Ég ímynda mér að það hljóti líka að vera gott að nota möndlur eða pistasíur.

Í sambandi við bökunarhitann: EKKI hækka hann til að reyna að stytta bökunartímann, kakan brennur þá bara.

Í fyllinguna:
  1. 2 1/2 bolli ljósar rúsínur (u.þ.b. 340 g.). Hér gafst ég upp á leitinni og notaði í staðinn þurrkuð trönuber og þurrkaðar apríkósur og gráfíkjur sem ég saxaði niður í bita á stærð við rúsínur.
  2. 2 bollar dökkar rúsínur (u.þ.b. 255 g)
  3. 1 3/4 bolli kúrenur (u.þ.b. 225g).
  4. 1 3/4 bolli saxaðir sykurlegnir ávextir (s.s. rauð kokkteilkirsuber, ananas og apríkósur). Hér notaði ég rauð og græn kokkteilkirsuber og súkkat, en það mætti t.d. nota blöndu af kokkteilkirsuberjum og sykraðan, þurrkaðan ananas.
  5. 3/4 bolli saxaður, sykraður appelsínubörkur. Sá sem fæst í Bónus er í réttri stærð og þarf ekki að saxa.
  6. 1/2 bolli vatn
  7. 1/2 bolli dökkt romm. Notið gott romm, t.d. Captain Morgan.
  8. 2 tsk rifinn appelsínubörkur (bara þetta appelsínugula)
  9. 2 tsk rifinn sítrónubörkur (bara þetta gula)
  10. 1 tsk Lyle's Golden Syrup eða ljóst melassasíróp
  11. 3/4 tsk matarsódi

Í deigið:
  • 2 bollar plús 2 msk hveiti (t.d. Kornax í rauðum poka)
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 250 g ósaltað smjör (þetta í græna bréfinu), við stofuhita
  • 1 1/2 bolli (þjappaður) dökkur púðursykur
  • 5 stór egg
  • 6 msk. dökkt romm

Hrærið fyrstu 6 innihaldsefnunum saman í stórum potti. Bætið við 1/2 bolla af rommi. Látið suðuna koma upp við meðalhita og hrærið oft í á meðan. Takið pottinn af hellunni þegar vökvinn sýður og hrærið appelsínu- og sítrónuberkinum saman við ásamt sírópinu og matarsódanum. Látið standa þar til ávextirnir hafa dregið í sig allan vökvann, u.þ.b. 1-2 klukkutíma. Hrærið oft í á meðan.

Hitið ofninn í 160 °C (blástursofn: 150 °C). Takið springform sem er 25 cm í þvermál og smyrjið vel að innan. Hyljið botninn og hliðarnar með bökunarpappír (best að klippa hring sem er aðeins stærri en botninn og síðan ræmu sem nær hringinn innan í hliðunum og láta skarast). Smyrjið bökunarpappírinn.

Sigtið hveitið, lyftiduftið og saltið saman í skál. Hrærið saman smjöri og sykri í hrærivélarskál þar til létt og ljóst. Hrærið eggjunum saman við einu í einu og blandið vel á milli. Setjið hveitið saman við og hrærið þar til soppan er rétt blönduð. Kakan verður seig ef soppan er hrærð of lengi eftir að hveitið kemur saman við. Blandið nú ávaxtablöndunni saman við með handafli. Hellið í formið og jafnið út. Lokið forminu vel með álpappír.

Bakið kökuna í 2 klst. Lækkið þá hitann í 135 °C (125 °C) og bakið áfram þar til prjónn sem er stungið í kökuna miðja kemur út hreinn en örlítið rakur. Þetta á að taka um 30 mínútur, en getur tekið allt að klukkutíma. Á þessu stigi þarf að hafa góðar gætur á kökunni því þarna er hættan á að hún brenni mest.

Þegar kakan er bökuð, takið hana út og setjið á kökurekka og takið álpappírinn ofan af. Pikkið kökuna rækilega með grillteini og stingið djúpt niður í hana. Dreypið 6 msk af rommi smám saman yfir allt yfirborð kökunnar. Það er fullkomnlega eðlilegt ef það snarkar í kökunni.

Látið nú kökuna kólna alveg í forminu. Rennið hníf eða pönnukökuspaða meðfram hliðunum til að losa kökuna og takið síðan hliðarnar af forminu. Takið kökuna upp af botninum og látið bökunarpappírinn vera á henni. Pakkið þétt inn í álpappír og geymið í kæli.

Best er að geyma kökuna og leyfa henni að þroskast í a.m.k. hálfan mánuð, og vökva hana með c.a. 1/3 bolla af rommi á viku fresti. Takið bökunarpappírinn af og látið hana standa og ná stofuhita áður en hún er borin fram.

Svona köku er gott að bera fram með harðri sósu og/eða þeyttum rjóma, allt eftir smekk. Sósan dregur fram bragðið, rjóminn mildar það. Ég mæli með að láta hvern og einn um að skammta sér sósu/rjóma, því sumum finnst kakan best eins og hún kemur fyrir.

Harða sósan er kölluð „hörð“ af því að hún inniheldur áfengi. Án þess er þetta bara venjulegt smjörkrem.

Hörð sósa:
1/2 bolli smjör, mjúkt
1 1/2 bolli flórsykur
2 msk romm (óáfeng: notið 1 tsk af vanilludropum í staðinn fyrir rommið)

Hrærið saman sykur og smjör þar til létt og ljóst. Hrærið rommi/vanilludropum saman við. Berið fram við stofuhita.


30 nóvember, 2012

Kúmenkaka (Seed Cake)


Uppáhaldið hans Bilbó Baggins. Í alvöru. Í Hobbitanum minnist Tolkien sérstaklega á svona köku í frásögninni af dvergaveislunni heima hjá Bilbó. (Seed cake, fyrir þá sem hafa lesið hana á ensku)

Innihald:
240 g smjör, við stofuhita (látið mýkjast í ca. 40 mín.)
240 g strásykur, fíngerður
4 stór egg
320 g hveiti, sigtað
2 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk salt (ef notað er saltað smjör má sleppa saltinu)
4-6 msk mjólk eða kaffirjómi
2 msk demerara-sykur (grófur brúnn sykur)
30 g kúmenfræ
3 msk koníak
1 tsk múskat (duft) eða 1/2 tsk múskat og 1/2 tsk múskaðhýði (mace, einnig kallað múskatblóm eða masi – ef ykkur tekst að finna það hérna á Klakanum þá þigg ég gjarnan að fá að vita hvar, því ég er búin að leita í öllum helstu matvöruverslunum höfuðborgarsvæðisins og nokkrum úti á landi)

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 °C (170 °C ef þið eruð með blástursofn eins og minn sem ekki er hægt að taka blásturinn af).

Bökunarform: í upprunalegu uppskriftinni er gefið upp hringform, 18 cm í þvermál. Þetta getur ekki verið venjulegt grunnt form fyrir lagkökur heldur hlýtur það að vera djúpt springform, því að ég bakaði þessa stærð af uppskrift í tveimur lagkökuformum, öðru 18 cm og hinu 20 cm. Kakan er það bragðmikil að ég mæli ekki með að hafa hana þykka, og því er betra að nota tvö lagkökuform en eitt springform.

Ef þú átt ekki sílikon- eða teflonform, þá þarf að smyrja formin eða leggja bökunarpappír í botninn.

Setjið eggin í skál og þeytið lítillega til að blanda rauðum og hvítum vel saman. Setjið smjörið og strásykurinn í hrærivélarskál og hrærið vel saman þar til létt og ljóst. Blandið eggjahrærunni smám saman út í. Þegar egg, sykur og smjör eru vel blönduð, bætið þá við kúmenfræinu og kryddinu. Blandið síðan hveitinu varlega saman við með sleikju þar til það er rétt svo blandað. Kakan getur orðið seig ef þetta er gert í hrærivél og það er hrært of lengi. Þar að auki er deigið það þykkt að það er sóðalegt að nota hrærivélina, hversu varlega sem maður fer, því hveitið vill puðrast upp úr skálinni og út um allt.

Hrærið þvínæst koníakinu út í og loks mjólkinni eða rjómanum. Notið það magn sem þarf til að deigið nái þeirri þykkt sem þarf til að það detti af skeið þegar henni er hvolft. Ef það rennur, þá er það of þunnt. Jafnið í formið/formin og stráið demerara-sykrinum yfir (þar þarf að tvöfalda uppgefið magn ef notuð eru tvö form).

Bakið í miðjum ofni í 40 til 50 mínútur, eða þar til prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn. Kælið í forminu í 10 mínútur og takið þá úr og kælið á vírgrind. Kúmenkaka er best þegar hún hefur fengið einn eða tvo daga til að taka sig. Til þess er henni pakkað inn í álpappír eða bökunarpappír og sett í loftþétt ílát. Hún geymist í upp undir viku. Hún geymist líka vel í frosti.

26 ágúst, 2012

Bökuð bláber undir stökkri skorpu (blueberry crisp)

Nú ættu bláberin að vera orðin þroskuð og því er tilvalið að birta gómsæta bláberjauppskrift.

Þessi uppskrift er fengin úr bandaríska matreiðslutímaritinu Saveur. Ég gerðist áskrifandi að því í byrjun árs 2008 þegar dollarinn var tiltölulega ódýr. Ég hefði gjarnan viljað halda áfram að vera áskrifandi, en þegar kom að því að endurnýja var allt breytt: bankarnir hrundir og efnahagurinn í rúst og dollarinn nálægt því tvisvar sinnum dýrari en þegar ég upphaflega keypti  áskriftina. Ég tímdi hreinlega ekki að halda áfram, en þangað til ég spring á limminu og kaupi nýja áskrift hef ég eitt ár af blöðum til að endurlesa og elda upp úr. 

Ég minnkaði uppskriftina þannig að hún er fyrir 1-2, en gef magn fyrir 6-8 í svigum.

Efni:
1 bolli (6 bollar) bláber, fersk eða frosin
40 ml (1/2 bolli) strásykur

50 ml (1 1/4 bolli) hveiti
30 ml (2/3 bolli) púðursykur
Salt á hnífsoddi (1/8 tsk)
25 gr (150 gr) smjör, kælt og skorið í litla bita (í rúmmálseiningum gerir þetta annars vegar 1 msk + 2 tsk og hins vegar 10 msk)
Rjómi

Hitið ofninn í 175 °C. Blandið varlega saman bláberjum og strásykri í skál. Setjið í hæfilega stórt bökunarfat og hristið það til að jafna út. Setjið til hliðar.

Hrærið saman hveiti, púðursykri og salti í skál. Bætið við smjörinu og saxið það saman við með tveimur hnífum eða deigskera (eða farið stystu leið og notið matvinnsluvél) þar til myndast hefur gróf mylsna sem minnir á haframjöl. Stráið í jöfnu lagi yfir bláberin.

Bakið þar til berin bullsjóða og skorpan er gullin á lit. Í upprunalegu uppskriftinni er talað um 50 mínútna bakstur fyrir heila uppskrift, en 20-30 mínútur ættu að nægja fyrir litla uppskrift. (Ég bakaði þetta í 4 litlum creme brulee-formum og það tók um 20 mínútur).

Látið kólna í ca. 10 mínútur (15 mínútur). Borðið volgt eða við stofuhita, með rjóma (óþeyttum) eða mjúkum vanilluís.

19 ágúst, 2012

Armenskir lambaskankar (Kzartma)


Lambaskankar þurfa helst langa, hæga matreiðslu til að þeir verði ekki seigir og það þarf af halda að þeim raka á meðan þeir eldast til að þeir verði ekki þurrir. Því er hæg steiking í sósu fyrirtaksaðferð til að elda þá.

Sósan er bragðmikil, með keimi af tómötum og papriku, og minnir svolítið á gúllassósu.

Matreiðslubók: The Diner's Club Cookbook

Fyrir: 6.


Efni:
6 lambaskankar af læri
3/4 bolli saxaður laukur (ca. 3/4 meðalstór laukur)
2 msk. smjör
2 tsk. salt (ég minnkaði saltið niður úr 1 msk. (= 3 tsk.) í 2 tsk., en ef það þarf meira er hægt að hafa salt á borðinu svo að hver og einn geti saltað fyrir sig)
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
1/8 tsk. þurrkað óreganó
2 msk. paprikuduft
3 hvítlauksrif, fínsöxuð
1 bolli + 2 msk. maukaðir tómatar + 1 tsk. sykur til að taka af beiskjubragðið
1/2 bolli nautasoð
1/2 bolli þurrt sherrí eða Marsala-vín


Aðferð:
Látið skankana liggja i köldu vatni í um 30 mín. Hellið vatninu af, þerrið og fituhreinsið. Raðið í grunnt ofnfast mót (t.d. pyrex-fat, nú eða Römertopf eins og ég gerði, en þá þarf að gæta að brúnunartímanum sem getur styst), eða í djúpa pönnu eða grunnan pott með handfangi sem þolir hitun í ofni.

Snöggsteikið laukinn í smjörinu þar til hann er glær. Bætið þá restinni af innihaldsefnunum saman við og blandið lauslega. Hellið yfir kjötið. Setjið lokið á og bakið við 175°C í 90 mín. Ausið soðinu af og til yfir kjötið. Takið lokið af og bakið áfram við 125°C þar til kjötið brúnast og er orðið meyrt (um 45 mín.). Ausið soðinu oft yfir á meðan. Berið fram með hrísgrjónum eða búlgúr-hveiti.


Athugasemdir:
  • Það er hægt að elda þessa uppskrift í potti á eldavélinni, og jafnvel stytta eldunartímann aðeins með því að skera skankana í bita strax. En eldið þó beinin með, því þau gefa svo gott bragð.
  • Líka er gott að bera fram með þessu brauð, t.d. naan eða bagettu.
  • Líka hægt að bera fram með kús-kús.

12 ágúst, 2012

Ungverskir uxahalar með sýrðum rjóma (Tejfölös ököruszály)

Þetta er bragðmikil og ljúffeng kássa og mjög vermandi. Mínar athugasemdir við upprunalegu uppskriftina eru í hornklofum.


Þetta eru í rauninni tveir réttir, því það er hægt að hætta í lok 2. umferðar, en þá er komin fínasta kássa sem má vel bera fram t.d. með brauði eða hrísgrjónum og salati. Það tekur hálfan daginn að búa þennan rétt til, en það er vel þess virði.


Matreiðslubók:  Hungarian Cuisine: A complete cookery book eftir József Venesz.

Fyrir: 4-6
Tími: 2  1/2 til 4  1/2 klukkustundir


1. Umferð:
2 kg. uxahalar
150 gr. blandað ferskt grænmeti, t.d. gulrætur, hnúðkál, hnúðsilla
100 gr. svínafeiti [hér varð ég að nota 120 gr. af smjöri þar sem svínafeiti liggur ekki beint á lausu, en það má líka nota 100. gr. af shortening-feiti ef hún er til á heimilinu]
Klípa af nýmöluðum svörtum pipar
Klípa af þurrkuðu timjan
2 lárviðarlauf
60 gr. laukur

2. Umferð:
1 dl. þurrt eða hálfþurrt hvítvín
guli parturinn af berkinum af 1/2 sítrónu (kreistið og geymið safann)
Vatn eða nautasoð

3. Umferð:
3 dl. sýrður rjómi
50 gr. hveiti
30 gr. sinnep [hér stóð ekki hvaða tegund og hvort þetta átti að vera duft eða sósa, en ég notaði Dijon-sinnep með góðum árangri]
20 gr. sykur
Safi úr 1/2 sítrónu (sjá 2. Umferð)
1 tsk. salt

1. Umferð:
Ef uxahalarnir eru heilir skal þvo þá vel í volgu vatni og skola með köldu vatni, þurrka með eldhúspappír og skera í 2-3 cm þykka bita. Fyrirhafnarminna er að kaupa þá tilskorna, þó að bitarnir verði þá þynnri. Saltið.

Skerið grænmetið í þykkar sneiðar og grófsaxið laukinn. Bræðið feitina í ofnföstu fati eða ofnskúffu og raðið kjötinu, lauknum og grænmetinu í skúffuna. Stráið pipar og timjan yfir og brjótið lárviðarlaufið í smábita og raðið hér og þar. Steikið í ofninum við ca. 180 °C þar til kjötið er vel brúnað. Hrærið í af og til.

2. Umferð:
Þegar kjötið er vel brúnað er allt tekið úr ofnfatinu og sett í stóran pott. Bætið við hvítvíni, sítrónuberkinum og smá vatni eða soði. Mallið við lágan hita undir loki í 2-3 klukkustundir, eða eins lengi og það tekur að fá halakjötið meyrt. [Hefur tekið mig 2 tíma, en hefur líka tekið 4 tíma]. Bætið við smá vatni eða soði af og til og hrærið varlega saman við til að halda kássunni rétt nógu þunnri til að hún sjóði ekki við pottinn.

[Hér má hætta og bera fram kássuna eins og hún er á þessu stigi.]


3. Umferð:
Þegar kjötið er orðið meyrt skal blanda saman sýrða rjómanum og hveitinu í kekkjalausan jafning. Hrærið saman við kássuna ásamt sinnepinu, sykrinum og sítrónusafanum. Sjóðið áfram í 10 mín.

Veiðið kjötið upp úr sósunni og setjið í annan pott og síið sósuna yfir það í gegnum sigti. Látið suðuna koma upp, takið af hitanum og berið fram heitt með ungverskum soðkökum eða soðnum makkarónupípum.[Sósan verður mjög þykk.]

P.S. Smakkið svo bara á því sem verður eftir í sigtinu...

05 ágúst, 2012

Steikarsamloka að hætti Matgæðingsins

Mér þykja steikarsamlokur góðar og elda mér stundum svoleiðis. Þó að ég borði þær með bestu lyst á veitingahúsum með bernaise-sósu, þá kýs ég að hafa hana ekki með þær þegar ég elda steikarsamloku heima hjá mér, heldur bý ég til soðsósu sem ég nota í staðinn og er talsvert hollari en bernaise.

Nokkurskonar uppskrift:
Ég giska á að ég noti, per mann, svona 80-100 grömm af nautakjöti, eina litla bagettu, ca. hálfan lauk og 3-4 tómatsneiðar. Stundum steiki ég líka sveppi til að hafa með. Annað sem ég nota er vatn, smjör, Worchestershire-sósa, Tabasco-sósa eða Hot Sauce (stundum líka sojasósa), salt, Aromat, hvítlaukur og pipar, og stundum líka Season-all eða kjöt- og grill-krydd til tilbreytingar. Það getur líka verið gott, ef maður er í þannig skapi, að bæta við nokkrum sneiðum af steiktu beikoni og/eða osti og/eða lambhagasalati/kínakáli.

Maður byrjar á að sneiða nautakjötið og laukinn þunnt. Þetta þarf ekki að vera dýrt kjöt, má allt eins vera gúllasbitar, því það er eldað í gegn og því má láta það sjóða eins lengi og þarf til að fá það meyrt.

Klípa af smjöri er brædd á pönnu og hún hituð upp í steikingarhita. Laukurinn er svissaður þangað til hann fer að brúnast, þá tekinn af og settur til hliðar. Meira smjör sett á pönnuna, brætt og kjötið steikt í því.

Þegar kjötið er brúnað er það kryddað með salti, pipar, hvítlauk og Aromati, og kryddblöndu ef hún er notuð. Því næst er kjötið vökvað með Worchestershire-sósu – það þarf bara smá slurk – og Tabasco eða Hot Sauce eftir smekk og henni hrært vel saman við. Loks er smá vatni skellt á pönnuna og látið sjóða aðeins niður, en ekki svo mjög að allur vökvi hverfi. Soðsósan á að vera dökk og frekar þunn. Í lokin má smakka til með sojasósu ef þörf þykir.

Lauknum er því næst skellt saman við og hann hitaður í gegn (samlokan verður samt snyrtilegri ef laukurinn er hitaður sér og látinn ofan á kjötið í samlokuna). Nú er bagettan klofin að endilöngu og látin hanga saman á skorpunni á annarri langhliðinni og lögð opin á disk. Kjötinu og lauknum er dreift jafnt yfir aðra hliðina og soði dreypt yfir báðar hliðar eftir smekk. Skreytt með tómatsneiðum, lokað og neglt saman með kokkteilpinnum eða tannstönglum og borið fram volgt.

Tilbrigði:
Ég rakst nýlega á uppskrift þar sem í staðinn fyrir sósu sem er hellt yfir er búin til sósa úr sinnepi og majónesi og því smurt nett á skurðflötinn á brauðinu. Ég held svei mér þá að ég prófi það næst.

29 júlí, 2012

Naflakökur með hindberjasultu

Þessar glæsilegu smákökur eru gómsætar og auðvelt að búa þær til. Þær eru gerðar úr shortbread-deigi, sem er tegund af smjördeigi. Þær eru þéttar í sér og molna svolítið þegar bitið er í þær og áferðin er örlítið sendin. Kökurnar hafa milt möndlubragð sem fer vel við sultuna.

Magn: ca. 30 smákökur

Bökunartími: 14-18 mínútur
Kólnunartími: 60 mínútur

Í deigið:
1 bolli smjör, mjúkt
2/3 bolli sykur
1/2 tsk. möndludropar
2 bollar hveiti

Ofan á:
1/2 bolli hindberjasulta

Kremið:
1 bolli flórsykur
1 1/2 tsk. möndludropar
2-3 tsk. vatn

Þeytið saman smjör, sykur og möndludropa á meðalhraða þar til létt og ljóst. Skafið skálina oft til að vera viss um að allt blandist mjög vel. Setjið hrærarann í og hrærið á litlum hraða og bætið hveitinu saman við smjörhræruna og blandið vel. Setjið deigið í lokað ílát og kælið í a.m.k. 1 klst.

Hitið ofninn í 175 °C. Mótið kúlur úr deiginu, ca. 2,5 cm í þvermál. Leggið kúlurnar á ósmurða bökunarplötu með ca. 5 cm millibili. Þrýstið þumarputtanum niður í miðjuna á hverri kúlu til að fletja kúlurnar og gera holur í þær miðjar (það gerir ekki til þó að sprungur komi í brúnirnar á holunum). Setjið um 1/4 tsk. af sultu í hverja holu.

Bakið í 14 til 18 mín. eða þar til brúnirnar á kökunum eru ljósbrúnar. Takið úr ofninum og látið standa í 1 mín. og fjarlægið þá af plötunni og setjið á grind til að kólna. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Hrærið saman flórsykrinum, möndludropunum og vatninu með handþeytara þar til mjúkt og samfellt. Best er að hafa kremið nokkuð þykkt en samt fljótandi. Setjið í sprautupoka með pínulitlum stút eða búið til kramarhús og dreypið kreminu í taumum yfir smákökurnar.

22 júlí, 2012

Ananaskaka á hvolfi

Þetta er gömul en góð uppskrift sem ekki bregst. Kakan er frekar blaut en samt létt og mjög bragðgóð. Smjörið og púðursykurinn verða að karamellusósu sem sígur niður í kökuna þegar henni er hvolft úr forminu.

Matreiðslubók: Sweet Food

Fyrir 6-8.

Efni:
20 gr. ósaltað smjör, brætt
2 msk. púðursykur (þjappið þétt í skeiðina)
440 gr. dós af ananashringjum í safa

90 gr. ósaltað smjör, mjúkt (ef þú notar saltað smjör, slepptu þá saltinu í uppskriftinni)
125 gr. (1/2 bolli) fínn sykur (caster sugar í upphaflegu uppskriftinni, sem er mitt á milli flórsykurs og strásykurs í grófleika, en venjulegur Dansukker strásykur er nógu fíngerður)
2 egg, léttþeytt
1 tsk. vanilludropar
125 gr. (1 bolli) hveiti
1 1/2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. salt

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 °C (160 °C eða eftir leiðbeiningum framleiðanda fyrir blástursofn). Smyrjið hliðarnar á 20 cm hringformi (ég nota venjulegt springform því að hringforin mín eru annars vegar of lítið og hins vegar ekki með réttum botni) og hellið brædda smjörinu í þannig að það þeki botninn. Stráið púðursykrinum jafnt yfir. Hellið safanum af ananasnum (geymið safann) og skerið ananashringina í tvennt. Raðið í mynstur í botninn á forminu. Sumir skreyta líka með rauðum kokkteilberjum, skornum í tvennt (það má setja þau á eftir bakstur ef menn vilja).

Þeytið saman mjúka smjörið og sykurinn þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum smám saman út í og hrærið vel á milli. Blandið vanilludropunum út í og blandið vel. Með hrærarann á minnsta hraða (eða notið sleikju og handaflið) blandið smám saman til skiptis ananassafanum og hveitinu sem er búið að blanda lyftiduftinu og saltinu saman við áður. Jafnið deiginu yfir ananasinn í forminu. Bakið í 35-40 mín. eða þar til prjónn sem er stungið í miðja kökuna kemur út hreinn.

Látið standa í forminu í 10 mín. og hvolfið þá á grind til að kólna (hafið tusku eða pappírsþurrkur undir, því að karamellan á það til að leka niður af kökunni.

15 júlí, 2012

Vínarterta - Randalín

Þetta er ein af mínum uppáhaldskökum. Uppskriftina fékk ég hjá ömmu minni.

Efni:
500 gr. hveiti
250 gr. sykur
250 gr. smjör eða smjörlíki, mjúkt
2 egg
1 1/2 tsk. hjartarsalt
klípa af lyftidufti
kardimommudropar eða kardimommuduft eftir smekk

Aðferð:
Blandið þurrefnunum saman. Hnoðið smjörið/smjörlíkið, dropana (ef notaðir) og eggin saman við þar til samfellt deig hefur myndast. Kælið í ísskáp yfir nótt.

Fletjið deigið í ca. 1 til 1,5 cm þykkt. Best er að baka allt deigið í einu lagi á bökunarplötu og skera það niður eftir bakstur. Bakið í miðjum ofni við 200 °C (180-190 °C í blástursofni), þar til kakan er gullinbún og gegnbökuð. Takið út og kælið á plötunni.

Skerið kökuna niður í þau lög sem óskað er eftir. Venjan er að hafa annað hvort 5 þunn lög eða 3 þykkari lög í kökunni. Leggið rabarbarasultu eða sveskjusultu (uppskrift fylgir) á milli laganna þegar kakan er orðin ylvolg, og raðið hanni saman. Snyrtið brúnirnar eftir þörfum.

Athugasemdir:
  • Má frysta.
  • Annað afbrigði af vínartertu sem ég hef ekki fundið nafn á, er bakað í hringformum, sulta lögð á milli og bleikur glassúr settur ofan á. Sú kaka var vinsæl í bakaríum þegar mamma var ung.

Sveskjusulta:
1 kg. sveskjur
650 gr. sykur

Leggið sveskjurnar í vatn í hálftíma til að mýkja, ef þarf (ætti ekki að þurfa ef þær eru nýkeyptar). Maukið sveskjurnar og sjóðið við lágan hita með sykrinum í 30 mín. Kælið og smyrjið á kökuna.


08 júlí, 2012

Ógnvekjandi og Traustvekjandi

Þegar ég var í menntaskóla og ekki komin á löglegan drykkjualdur var mikið sport að fara út að borða og panta sér síðan óáfengan kokkteil á barnum eftir matinn (maður drakk bara áfengi þegar fullorðnir sáu ekki til...)

Þessir tveir unnu einhverja kokkteilakeppni um þetta leiti og voru mjög vinsælir. Þessir drykkir eru báðir frekar bleikir, en bragðgóðir.


Ógnvekjandi: (höfundur: Kristján Örn Kristjánsson)

3 cl appelsínusafi
3 cl sítrónusafi
2 cl rjómi
1 cl Bols Grenadine
1/2 cl pressuð appelsína


Hrist saman með klaka, skreytt með sítrónusneið og súkkulaðispæni, borið fram með röri.


Traustvekjandi: (höfundur Trausti Víglundsson)

3 cl sítrónusafi
1 cl Bols Grenadine
9 cl appelsínusafi

Hrist saman með klaka, skreytt með sítrónusneið, borið fram með röri.


01 júlí, 2012

Fuglahreiður

Gómsæt lítil hreiður úr kransakökudeigi með smjörkremi, súkkulaðihjúp og fyllingu úr ávöxtum. Fínar til að ögra saumaklúbbnum.

Matreiðslubók: 100 fristende Konditorkager, útg. af Ugebladet.
Stærð uppskriftar: ca. 20 stk.
Tími: um 70 mínútur + kólnunartími fyrir smákökurnar

Kransakökuklattar:
200 gr. bökunar-möndlumassi (marsipan)
8 msk. sykur
2 eggjahvítur (geymið rauðurnar fyrir smjörkremið)

Rífuð möndlumassann með grófu rifjárni og hlandið helmingnum af sykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið hinum helmingun af sykrinum smám saman við á meðan þeytt er. Blandið eggjahvítunum smám saman út í möndlumassann og blandið saman í samfelldan massa.

Setjið kransakökudeigið í sprautupoka og búið til litlar kringlóttar kökur (skammtið í spíral - sjá næstu mynd) á bökunarpappír á bökunarplötu. Þvermálið ætti að vera um 4,5 cm og þykktin um 1,5 cm. Lyftir sér ekki í bakstri, þannig að það má vera stutt á milli þeirra. Bakið við 200 °C (180°C í blástursofni) í 12-15 mín, þar til ljósgullnar á lit. Takið pappírinn af plötunni með kökunum og látið á grind til að klattarnir kólni hraðar.

Smjörkrem:
1 dl. sykur
3 msk. vatn
2 eggjarauður
125 gr. smjör, mjúkt
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

Blandið saman sykri og vatni í potti og sjóðið varlega þar til hefur myndast glært síróp (látið þykkna aðeins, en forðist að brenna). Byrjið að þeyta eggjarauðurnar og látið sírópið leka í mjórri bunu saman við á meðan. Haldið áfram að þeyta þar til létt og ljóst. Setjið smjörið í hrærivélarskál og hrærið í vélinni og bætið eggjablöndunni smám saman út í þangað til komið er mjúkt krem.

Takið nú kransakökuklattana af pappírnum og smyrjið þunnu lagi af smjörkremi yfir hvern klatta. Setjið afganginn af kreminu í sprautupoka með litlum stút og sprautið hring meðfram ytra byrði allra klattanna. Kælið þar til kremið er hart.

Hjúpur:
125 gr. Síríus Konsúm súkkulaði eða dökkt hjúpsúkkulaði
2 msk. Palmín

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið Palmíninu saman við. Blandið vel saman. Dýfið efri partinum af hverjum klatta í súkkulaði þannig að hjúpurinn nái yfir smjörkremið. Kælið.

Fylling:
Niðursoðnir ávextir, blandaðir eða ein tegund, t.d. mandarínubátar eða apríkósur (eða ferskir plús niðursoðinn safi)
2 dl. safi af niðursoðnum ávöxtum
3 blöð af gelatíni

Hellið safanum frá ávöxtunum og geymið hann. Látið renna vel af ávöxtunum. Skerið í smærri bita ef þarf til að koma fyrir ofan í „hreiðrunum“. Skammtið 3-4 bitum í hvert „hreiður“, eða eins og nægir til að fylla það.

Bleytið gelatínið í smá vatni í 5 mín. Kreistið vatnið úr blöðunum og bræðið þau í potti yfir lágum hita með 2 msk. af safa af ávöxtunum. Hrærið hægt í með handþeytara. Bætið við afganginum af safanum og kælið í vatnsbaði (látið kalt vatn eða ísvatn í skál eða í vaskinn og dýfið botninum á pottinum ofan í) og hrærið stöðugt þar til blandan byrjar að þykkna. Takið þá matarpensil og penslið þunnu lagi af gelatíni yfir ávextina í hverju „hreiðri“. Kælið.

Best borið fram með kaffi, enda mjög sætt.


Hugmynd sem ég á eftir að prófa:
Búa „hreiðurbrúnina“ til úr deigi, sleppa smjörkreminu og húða „hreiðurbrúnina“ með súkkulaði. Fylla „hreiðrin“ með eggjabúðingi eða vanillubúðingi og skreyta með ferskum jarðarberjum eða ferskjusneiðum og gljá með þykku sykursírópi.

24 júní, 2012

Dijon-kjúklingur

Þessi uppskrift er komin úr hinni frábæru matreiðslubók The Silver Palate Cookbook. Helsti gallinn við þá annars frábæru bók er að uppskriftirnar eru oft með mjög langan innihaldslista, en þessi er ein af undantekningunum.

Uppskriftin, með mínum athugasemdum:

1 heill kjúklingur (1-1 ½ kg.), skipt í fernt. Mér finnst nú reyndar fínt að nota kjúklingabita. Þetta verður að sniðugum hlaðborðsrétt ef notaðir eru vængir eða leggir.
1/3 bolli Dijon-sinnep
Nýmalaður svartur pipar, eftir smekk
1/2 bolli vermút eða þurrt hvítvín (ég nota hvítvínið)
1/2 bolli creme fraiche eða þeytirjómi (ég nota þeytirjómann)
Salt, eftir smekk

Smyrjið sinnepinu á kjúklinginn og látið standa við stofuhita í lokaðri skál í 2 klukkustundir.

Hitið ofninn í 175 °C.
Raðið kjúklingabitunum, með þá hlið sem skinnið er á upp, í ofnfast mót, t.d. lasagna-form eða djúpa ofnskúffu. Skafið sinnepið úr skálinni og smyrjið yfir kjúklingabitana. Stráið yfir smá salti og pipar, og hellið víninu í mótið.

Bakið í miðjum ofni þangað til kjúklingurinn er eldaður í gegn, ca. 1 klst. fyrir venjulega bita, um hálftími fyrir vængi. Ausið af og til soði yfir bitana. Leggir og læri geta þurft 5-10 mínútum lengri tíma en bringurnar.

Skafið sinnepið af kjúklingnum og úr ofnmótinu og setjið í pott. Setjið kjúklingabitana á fat og haldið heitu undir loki.

Fleytið fitunni ofan af sósunni og setjið þvínæst pottinn á eldavélarhellu á meðalhita og látið suðuna koma upp. Á þessum tímapunkti hef ég stundum bætt við 2-3 msk. af sinnepi til viðbótar, því ég vil hafa nóg af sósu. Látið suðuna koma upp, pískið rjómann saman við (ég eyk líka við rjómann ef ég hef gert það við sinnepið). Látið suðuna koma upp og lækkið hitann. Látið malla þangað til sósan hefur soðið niður um ca. 1/3, ca. 5 til 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir kjúklingabitana og berið fram heitt eða við stofuhita. Ef um er að ræða vængi og von er á mörgum gestum er gott að hrúga vængjunum á disk og hafa sósuna til hliðar til að dýfa þeim í.

17 júní, 2012

Marokkóskar kjötrúllur (bourek)

Þessi uppskrift er marokkósk, en bourek (börek, burek) er ætt af réttum sem eru vinsælir í ýmsum birtingarmyndum í Austurlöndum nær, norðurhluta Afríku, á Balkanskaganum og í löndunum þar í kring, s.s. Grikklandi, Albaníu og Búlgaríu. Fyllingarnar eru margs konar, en ostur og kjöt eru bæði vinsæl.



Það sem allir réttirnir eiga sameiginlegt er að vera gerðir úr fíló-deigi með fyllingu, en fyllingarnar eru margs konar og falla að smekk hverrar þjóðar eða þjóðarbrots. Her má lesa meira um bourek.

Þetta afbrigði er kallað „vindlar“ af augljósum ástæðum.

Þetta er frábær smáréttur til að bera fram í saumaklúbbum og veislum.



Skammtar: 20 stk.
Tími: 40 mínútur í undirbúning, 25-30 mínútur til að elda.

Þessi uppskrift skilar mildu kryddbragði, en af óskað er eftir sterkara bragði er óhætt að auka allt krydd um 50%.

Innihald:
1 meðalstór laukur, fínsaxaður
1/3 bolli ólífuolía
700 gr. magurt lambakjöt eða nautakjöt, fínhakkað
2 tsk. kanill
1/2 tsk. allrahanda
1/4 tsk. engifer
Malaður pipar
1/2 bolli söxuð fersk steinselja
Salt
5 egg
500 gr. fíló-deig
180 gr. smjör, brætt

Fylling:
Hræristeikið laukinn í olíunni þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið við hakkinu og blandið vel. Bætið kryddunum við og eldið í 10-15 mín. Hrærið í af og til, þar til kjötið er gegnsteikt og kekkjalaust. Bætið steinseljunni við og smakkið til með salti. Sláið eggin sundur í skál og þeytið létt, t.d. með gaffli eða handþeytara þar til þau eru aðeins byrjuð að freyða. Hellið yfir kjötið og eldið í 1-2 mín., hrærið stöðugt í á meðan. Þegar eggin eru aðeins byrjuð að hlaupa er pannan tekin af hitanum. Smakkið til með salti og/eða kryddi eftir þörfum og kælið.


Rúllurnar:
Hitið ofninn í 150 °C.

Skerið hverja fíló-þynnu í þrjá jafnstóra aflanga ferhyrninga. Staflið upp og leggið rakan klút ofan á þynnurnar ef deigið þarf að bíða eitthvað. Burstið efsta ferhyrninginn með bræddu smjöri og setjið 1 msk. af fyllingu á annan endann og búið til aflanga hrúgu sem nær ekki alveg endanna á milli (skiljið eftir ca 1 cm hvorum megin). Brjótið hliðarnar inn yfir fyllinguna og eftir þynnunni endilangri. Rúllið up. Haldið áfram þar til búið er að fylla allar rúllurnar.


Raðið rúllunum saman í smurt ofnfast fat eða ofnskúffu og burstið með bræddu smjöri. Bakið þar til rúllurnar eru gullinbrúnar á lit. Berið fram heitar eða kaldar. Má borða tómar, en eru góðar með t.d. sætri chilli-sósu til að dýfa í.

10 júní, 2012

Lambalæri að grískum hætti

Mjög gott!

Matreiðslubók: All Around the World Cookbook. Höfundur: Sheila Lukins.
Fyrir: 8

Efni:
1 lambslæri með beini, c.a. 3 kíló
4 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
2 msk. ólífuolía
1 msk. þurrkað óreganó (bergminta)
1 msk. grófmalaður svartur pipar
1 bolli þurrt hvítvín
Salt

Aðferð:
Hitið ofninn í 200 °C.

Þerrið lærið og fituhreinsið ef þarf. Stingið hér og þar í lærið með hníf og hafið stungurnar nokkuð djúpar. Stingið hvítlaukssneiðunum ofan í stungurnar. Blandið saman óreganó og pipar og nuddið allt lærið með blöndunni.

Setjið kjötið í steikarfat og hellið víninu í fatið. Setjið inn í heitan ofninn og lækkið hitann niður í 175 °C og steikið, í lokuðu fati, í um 90 mín. fyrir kjöt sem á að vera bleikt í miðjunni. Ausið af og til soði yfir kjötið. Ef notaður er kjöthitamælir á hann að sýna 60 °C. Ef kjötið á að vera meira steikt er hægt að fara eftir leiðbeiningunum með kjöthitamælinum eða láta kjötið steikjast í 30 mín. til viðbótar.

Takið lærið út og látið það standa í 10 mín. áður en það er borið fram. Síið soðið úr fatinu, fleytið fitunni ofan af og berið fram með kjötinu.

23 apríl, 2012

Steikt brauð að hætti Thailendinga

Þar sem ég hef aldrei til Thailands komið og hef bara borðað thailenskan mat á veitingastöðum get ég ekki metið hversu upprunaleg þessi uppskrift er eða hvort hún er aðlöguð að vestrænum bragðlaukum.

Fyllingin er frekar mild, með keimi af laufkóríander (cilantro) og rækjum. Ég gæti best trúað að það væri gott að gera fínar kjötbollur úr fyllingunni, enda minnir hún á fyllinguna sem er notuð í enskar morgunverðarpylsur.


Efni:
  • 175 gr. magurt svínahakk
  • 55 gr. soðnar rækjur, fínsaxaðar
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 msk. laufkórínader (cilantro), saxað
  • 1 1/2 vorlaukur, fínsaxaðir
  • 2 egg, léttþeytt
  • 2 tsk. fisksósa (Fish Sauce, ég mæli með vörumerkinu Squid)
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 4 sneiðar af dagsgömlu brauði
  • 1 msk. kókoshnetumjólk
  • Olía til djúpsteikingar

Til skrauts: Heil blöð af laufkóríander, mjóir hringir af ferskum rauðum chili-pipar og gúrkusneiðar

Aðferð:
Blandið saman hakkinu og rækjunum í skál (gott að nota til þess gaffal). Bætið við hvítlauk, laufkóríander, vorlauk, 1/4 af eggjahrærunni, allri fiskisósunni og piparnum og blandið vel.



Skerið skorpurnar af brauðinu og skiptið fyllingunni jafnt á milli sneiðanna og smyrjið jafnt yfir þær. Blandið því næst saman kókosmjólkinni og því sem eftir er af eggjahrærunni og burstið yfir fyllinguna á brauðinu. Skerið hverja sneið í fernt.

Hitið olíu upp í 190 °C í wok-pönnu. Setjið 3-4 brauðstykki í olíuna í einu, með fyllinguna niður og steikið þar til fyllingin er gegnsteikt og brauðið stökkt (2-4 mín.). Snúið einu sinni við á meðan. Takið af pönnunni með gataspaða og látið olíuna renna af á eldhúspappír. Haldið svo heitu í ofninum.

Berið fram heitt, skreytt með laufkóríandernum, chillipiparhringjum og gúrkusneiðum.

30 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Kartöflugratín

Í bókinni heitir þetta „kartöflubakstur“, en ég held að fleiri þekki þetta sem „gratín“.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 6-8 sem meðlæti; fyrir 4-6 sem aðalréttur.

Efni:
700 g kartöflur
4 dl mjólk eða rjómabland
1 egg
75 g rifinn ostur (t.d. Gratínostur)
1/2 tsk salt
1/4 tsk garðablóðberg (tímían)
1/4 tsk múskat (má sleppa) [ég sleppi nú frekar blóðberginu, en það er smekksatriði]
25 g smjör/smjörlíki
1 msk brauðrasp

Aðferð:
Hitið ofninn í 200 °C. Smyrjið eldfast mót.

Þvoið og flysjið kartöflurnar og skerið í mjög þunnar sneiðar og látið í mótið.

Blandið saman mjólkinni, egginu, salti, kryddi og helmingnum af ostinum og hellið yfir kartöflurnar. Stráið raspinum jafnt yfir, látið litla smjörlíkisbita hér og þar ofan á og stráið loks ostinum yfir.

Bakið í um 45 mínútur. Berið fram sem meðlæti með kjöt- eða fiskréttum, eða sem aðalrétt með góðu salati.

23 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Pottréttur

Þessi pottréttur, sem ætti skilið að heita eitthvað meira en bara „pottréttur“ var vinsæll á heimilinu þegar ég var unglingur.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4

Efni:
400 g beinlaust nautakjöt eða hvalkjöt (mamma notaði reyndar oftast annað hvort lamba- eða folaldakjöt, sem eru bæði mjög góð í þennan rétt)
1 stór eða 2 litlir laukar
50 g smjör/smjörlíki eða 3 msk matarolía
1 hvítlauksrif
1 paprika, rauð eða græn
3 dl vatn
1/2 dl tómatsósa
1 tsk salt
1 dl sýrður rjómi

Aðferð:
Hreinsið kjötið vel og þerrið. Skerið í munnbita. Flysjið laukinn og fínsaxið ásamt hvítlauknum. Kjarnhreinsið paprikuna og skerið hana í þunnar sneiðar.

Hitið feitina á pönnu og brúnið kjötið og setjið það í pott. Brúnið laukinn og setjið ofan á kjötið og hellið vatninu yfir ásamt tómatsósu, salti, rjóma og paprikusneiðunum. Sjóðið undir loki við lágan hita í 40-50 mínútur.

Tillaga að meðlæti: soðin hrísgrjón, maísbaunir og snittubrauð.

16 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Rabarbaragrautur

Rabarbari er eðalmatur og til margs nytsamlegur, hvort sem er í hversdagsrétti, sultur og mauk eða eftirrétti og bakstur. Hér er uppskrift að gamaldags rabarbaragraut.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 2-3 sem aðalréttur, 5-6 sem forréttur.

Efni:
200 g rabarbari
1/2 lítri vatn
1 dl sykur
3 msk kartöflumjöl (má nota maísmjöl (cornflour) í staðinn)
1 dl kalt vatn

Aðferð:
Þvoið rabarbaraleggina. Setjið vatnið í pott og brytjið rabarbarann niður í litla bita og setjið jafnóðum út í vatnið. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og mallið þar til rabarbarabitarnir eru komnir í mauk. Látið sykurinn saman við.

Hrærið kartöflumjölið út í köldu vatni í kekkjalausan jafning. Takið pottinn af hitanum og hellið jafningnum saman við í mjórri buni og hrærið stöðugt í á meðan. Setjið aftur á helluna og látið suðuna koma upp.

Takið aftur af hitanum og hellið grautnum í skál og stráið ögn af sykri yfir til að koma í veg fyrir að himna myndist ofan á grautnum.
Berið fram volgt eða kalt, með rjóma eða rjómablandi.

Ath. Rabarbarinn missir lit ef lokið er haft alveg ofan á pottinum á meðan grauturinn er soðinn.
Ef grauturinn þykir óaðlaðandi grænn á lit má setja nokkra dropa af rauðum matarlit saman við til að fá „réttan“ rabarbaralit á hann.

09 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Steiktur fiskur með karrí og lauk eða eplum

Þetta er góður hversdagsréttur. Þetta eru í raun 2 uppskriftir sem eru eins nema að í annarri er laukur en hinni epli. Reyndar er ágætt að hafa bæði - þá er notað hálft epli á móti heilum meðalstórum lauk.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 2-3.

Efni:
400 g fiskflök (ég hef notað bæði ýsu og þorsk í þennan rétt, en sé ekkert því til fyrirstöðu að prófa t.d. steinbít eða löngu)
1/2 - 1 epli (t.d. Jonagold) EÐA 1 laukur
25 g smjör/smjörlíki
1/2 tsk milt karríduft
1/2 tsk salt

Aðferð:
Takið roðflett og beinhreinsuð fiskflök (roðflettið og beinhreinsið ef þarf) og skerið þversum í 3-4 bita.

Ef nota á epli, þá er það flysjað og rifið á grófu rifjárni.Ef nota á lauk er hann fínsaxaður.

Pannan er hituð á lægsta straumi og smjör(líkið) brætt á henni. Epli og/eða laukur sett á pönnuna og látið hitna í gegn. Karríduftinu hrært saman við og fiskinum raðað ofan á. Saltað. Látið eldast undir loki á minnsta straum í 10-15 mínútur (eftir því hvað fiskstykkin eru þykk). Borið fram á pönnunni.

Tillaga að meðlæti: soðnar kartöflur eða soðin hrísgrjón, ferskt salat og brauð.

04 janúar, 2012

Unga fólkið og eldhússtörfin: Fjallagrasamjólk

Fjallagrös (Cetraria islandica) eru gömul og góð mat- og lækningajurt. Þau voru (og eru enn að einhverju marki) notuð í slátur, brauð, seyði, grauta og síróp. Þau eru seðjandi og örva framleiðslu munnvatns og magasýrur og örva þannig matarlyst. Sem lækningajurt hafa þau verið notuð öldum saman við kvefi, nefrennsli, hálsbólgu og hósta.

Þessi uppskrift er að undirstöðu úr matreiðslubók mánaðarins, en með smá viðbótum sem reynslan hefur sýnt að skilar betri árangri en grunnuppskriftin.

Matreiðslubók: Unga fólkið og eldhússtörfin
Fyrir 3-4

Efni:
7 1/2 dl mjólk
1 hnefi hreinsuð fjallagrös (fást í heilsubúðum)
1-2 msk púðursykur (eða demerara-sykur)
1/2 tsk salt

Aðferð:
Skolið grösin upp úr köldu vatni og saxið þau gróft.
Hitið mjólkina upp að suðu og látið grösin út í. Lækkið hitann og sjóðið við meðalhita í 2-3 mínútur. Bætið þá við salti og sykri, látið leysast upp og berið fram heitt.

02 janúar, 2012

Matreiðslubók mánaðarins: Unga fólkið og eldhússtörfin

Þessi er örugglega til á mörgum íslenskum heimilum:

Nýja
Unga fólkið og eldhússtörfin eftir Vilborgu Björnsdóttur og Þorgerði Þorgeirsdóttur. Hún kom fyrst út árið 1967, þá undir titlinum Unga stúlkan og eldhússtörfin, en með tilkomu feminisma og matreiðslukennslu fyrir stráka breyttist titillinn til jafnréttisvegar.

Þessi bók var notuð til kennslu í heimilisfræðum í mörgum skólum um árabil, enda fjallar hún ekki bara um matargerð heldur líka um heimilishald, t.d. þvotta og hreingerningar.

Þetta er fyrsta matreiðslubókin sem ég eignaðist, en langt frá því að vera sú elsta í safninu. 

 
Gamla

Ég á reyndar líka eintak af þeirri gömlu, og nota hana, því að mamma heldur þeirri nýju í gíslingu og neitar að skila henni, enda notar hún hana mikið.

Uppskriftirnar í henni eru til þess gerðar að kenna krökkum undirstöðu í matargerð, og því eru kaflar um steikingu, suðu, bakstur með mismunandi tegundum deigs, og svo framvegis. Þetta eru einfaldar og góðar uppskriftir að heimilismat sem eru auðveldar í notkun og því er þetta tilvalin bók fyrir þá sem eru að hefja heimilishald. Það er nefnilega ekki hægt að stóla á að maður geti hvar sem er fundið leiðbeiningar um það hvernig á að búa til kartöflumús eða lummur, hvað þá hvernig eigi að strauja skyrtur eða leggja á borð fyrir fimm rétta máltíðir.